Fyrir örfáum árum hefði rúntur um Grandagarðinn ekki endilega komið fyrst upp í hugann þegar rætt væri um spennandi staði til að versla hönnunarvörur, snæða kvöldverð, setjast niður í kaffi eða að skoða mannlífið. En á tiltölulega skömmum tíma hefur þetta fyrrverandi iðnaðarsvæði umbreyst í líflegt hverfi þar sem fortíð, nútíð og framtíð mætast.
Nú eru þar spennandi veitingastaðir, hönnunarverslanir, kaffihús, tæknifyrirtæki og söfn innan um fiskiðnaðarsögu svæðisins. Áður fábrotnar byggingar hafa verið gerðar upp og stórar veggmyndir taka nú á móti gestum þegar keyrt er inn á svæðið.
Besti ísinn í bænum?
Grandagarðurinn iðar nú af lífi, en í götunni er fjölbreytt þjónusta og afþreying og útsýnið er stórfenglegt. Gömlum beitingaskúrum hefur verið breytt í listasmiðjur hönnuða og verslanir af margvíslegum toga. Rómaðir tísku- og skartgripahönnuðir hafa sest að á svæðinu og hafið þar starfsemi. Fyrir fólk í leit að bita til að snæða eða stað til að setjast niður á yfir drykk, er úr ýmsu að velja. Á svæðinu eru hugguleg kaffihús, hamborgarastaðir, sjávarréttastaðir og veitingastaðir sem sérhæfa sig í nýtstárlegri matargerð byggða á íslenskum hefðum. Sagt er að besta ís bæjarins sé einnig að finna á Granda og ætla má að röðin sem myndast þar á sólríkum dögum staðfesti það.
Segja má að Sjóminjasafnið sé hjarta Grandagarðsins, en það tengir bæði höfnina við götulífið og fortíð við nútíð. Sögusafnið nær svo lengra aftur í tímann, eða alla leið til Víkingatímabilsins. Þar býðst gestum að upplifa uppruna þjóðarinnar í ljóslifandi sýningum safnsins. Náttúruunnendur verða hvorki sviknir af hinu stórfenglega Hvalasafni Íslands né af Aurora Reykjavík – Northen Lights Center, sem geymir allan mögulegan fróðleik um norðurljósin.
Það er bæði skemmtilegt og fjölbreytt að versla á hafnarsvæðinu, því þar er hægt að velja á milli þess að versla í stórmörkuðum eða við smærri kaupmenn handan við hornið og spjalla við slátara, bruggara, kökugerðarsnillinga, hjólreiðasérfræðinga eða listamenn um vörur og þjónustu.
Peningalyktin
Þessi yfirhalning útlits og hlutverks Granda er ekki sú fyrsta en svæðið á sér langa og litríka sögu. Grandagarður er á landfyllingu á milli Örfiriseyjar og meginlandsins.
Heimildir um lífið á Örfirisey á öldum áður eru af skornum skammti. Skömmu fyrir siðaskipti varð Örfirisey eign klaustursins í Viðey og svo konungseign. Þá er talið að helsta bækistöð einokunarverslunarinnar hafi verið á svæðinu, en einnig finnast heimildir um að skipasmíði hafi farið fram á eyjunni á 18. öld. Verslunin flutti til Reykjavíkur og var þá útgerð stunduð á Örfirisey.
Í kjölfar mikils óveðurs sem tók með sér alla byggð í byrjun 19. aldarinnar var endurbyggt á eyjunni, en í mun minna mæli en áður var og lagðist byggð þar af árið 1861.
Reykjavíkurborg keypti loks eyjuna við upphaf 20. aldar því hún þótti hentug staðsetning fyrir fiskiðnað og skipahöfn. Lýsisverksmiðja var svo reist á eyjunni, en framleiðslan hafði í för með sér nokkurn óþef sem lagðist yfir borgina þegar þannig vindaði, íbúum til mikills ama. Geir Zöega, eigandi verksmiðjunnar, svaraði kvörtunum íbúa með því að segja að þetta væri einfaldlega peningalykt.
Í upphafi var eyjan aðeins tengd meiginlandinu með klettahrygg sem flæddi yfir í flóði. Þegar hafnagerð hófst árið 1913 var grjóti bætt á hrygginn sem gerði almenningi kleift að komast út í eyjuna og varð hún fljótlega geysivinsæll útivistarstaður. Var meðal annars byggður þar sundskáli á þriðja áratug síðustu aldar, en þá var vinsælt að stunda sjósund.
Breski herinn lagði svo eyjuna undir sig á meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð og var herstöð breskra hermanna staðsett þar. Eftir stríð risu svo iðnaðarsvæði, þá sérstaklega tengd fiskiðnaði og olíustöð. Árið 1980 var frekari landfylling gerð og á hana voru vegir malbikaðir og hús byggð og svæðið breyttist þá eingöngu í iðnaðarsvæði. Sumir segja mikla eftirsjá af Örfirisey sem útivistarsvæði og náttúrunni í eyjunni, en nú hefur fólkið lagt svæðið aftur undir sig og fyllt það lífi, menningu og framtíðarsýn.
-VAG