Fánamálið

Fánamálið

Óformlegur fáni Íslands frá 1897-1913

Fánamálið var lítil þúfa sem velti þungu hlassi, en Ísland varð fullvalda ríki fimm árum síðar.

Hvítbláinn var fáni Íslendinga áður en Íslenski fáninn var tekinn upp. Einar Benediktsson átti hugmyndina 1897 um að hann yrði þjóðfáni Íslendinga. Íslendingar voru hrifnir af hugmyndinni og varð hvítbláinn svokallaði að óformlegum fána landsins á næstu árum. Þeirri stöðu hélt hann til 12. júní 1913 er Einar Pétursson ákvað að róa um Reykjavíkurhöfn með fánann í skut bátsins. Því vildi skipstjóri danska varðskipsins Islands Falk ekki una enda taldi hann að Einar réri undir fána sem skip og bátar í hinu danska konungsveldi mættu ekki nota og gerði því fánann upptækan. Sú aðgerð hleypti illu blóði í bæjarbúa og drógu margir þeirra hvítan og bláan fána að húni. Sama kvöld söfnuðust bæjarbúar saman á útifundi við gamla Barnaskólann við Fríkirkjuveg á milli fjögur til fimm þúsund manns, eða um þriðjungur Reykvíkinga og sungin voru ættjarðarlög. Þar með var fánamálið orðið að hitamáli hjá landsmönnum og umræða fór fram á Alþingi nokkuð sem leiddi til þess að konungur gaf út tilskipun 22. nóvember 1913 um að Íslendingar skyldu fá sérfána. Þrátt fyrir vinsældir hvítbláa fánans þá varð hann ekki fyrir valinu því Kristjáni 10. Danakonungi þótti hann of líkur gríska konungsfánanum og samþykkti þess í stað fána sem Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi stungið uppá árið 1906 en sá var heiðblár með hvítum krossi og rauðum krossi inni í þeim hvíta. Það má segja að þessi örlagaríki róður Einars um Reykjavíkurhöfn með fánann hafi haft bein áhrif á það að Íslendingar fengu sérfána 5 mánuðum seinna með konunglegri tilskipun.

Júní 1913, Einar Pétursson, bróðir Sigurjóns á Álafossi, á kappróðrarbáti sínum á Reykjavíkurhöfn, Hvítbláinn við hún. Myndin er tekin í tengslum við fánatökuna 12. júní 1913, en þá gerðu sjóliðar af Íslands Falk Hvítbláin upptækan af báti Einars, enda þótti tiltæki hans brjóta í bága við siglingalög danska konungsríkisins. Í kjölfarið gripu Íslendingar til mótmælaaðgerða, m.a. með því að ögra skipherranum á danska varðskipinu og sigla um höfnina með fjölda bláhvítra fána og syngja íslensk ættjarðarkvæði. (Ljósmyndari: Þorleifur Þorleifsson)

Heimildir: Faxaflóahafnir SF og Ljósmyndasafn Reykjavíkur