Siglufjörður státar svo sannarlega af því að vera helsti síldarbær landsins. Þar voru flest síldarplönin, tvær síldarverksmiðjur og bærinn iðaði af mannlífi allt sumarið, allt þar til síldin hvarf að mestu árið 1968. Síldarminjasafnið á Siglufirði heldur þessa tíma sannarlega í heiðri. Mest áberandi, af þremur byggingum safnsins, er Róaldsbrakki sem byggður var árið 1907 og er kenndur við eigendur sína, Olav og Elias Roald frá Álasundi í Noregi en þeir ráku þar síldarsöltun í 20 ár. Róaldsstöðin var ein stærsta söltunarstöð á Íslandi með fjórum löndunarbryggjum. Þar var saltað í 30 þúsund tunnur árið 1916 sem er allt að þrefalt fleiri tunnur en saltað var í á einu plani á einni síldarvertíð. Samvinnufélag Ísfirðinga rak stöðina frá 1932 til 1968 þegar ekki var lengur neina síld að hafa. Hvarf síldarinnar varð síldarbæjunum og þjóðinni mikið atvinnulegt og efnahagslegt áfall.
Í bræðsluminjasafninu er veitt fræðsla um það hvernig verðmætt mjöl og lýsi var unnið úr síld og öðrum fisktegundum. Þetta er safn um sögu íslensku síldarverksmiðjanna. Flest tækin í safninu eru sótt í gömlu verksmiðjurnar á Hjalteyri og í Ingólfsfirði.
Í Bátahúsinu er lítil eftirmynd af hinni dæmigerðu síldarhöfn á Norðurlandi 1938 – 1954. Níu bátar af ýmsum stærðum og gerðum liggja við bryggju, á sýningartjaldi eru síldveiðarnar 1938 kynntar og í forskála er gamla sjómannabúðin. Auk síldarbáta er þarna að sjá snurpunótarbáta, hringnótarbáta og árabáta, m.a. bát Gústa guðsmanns sem gerði út sinn bát í kompaníi við Guð almáttugan. Bátahúsið var vígt af Hákoni krónprinsi Noregs árið 2004.
-G.G.
Callout box: Hvarf síldarinnar varð síldarbæjunum og þjóðinni mikið atvinnulegt og efnahagslegt áfall
Myndtxt1: Róaldsbrakki
Myndtxt2: Í kvennadyngju á þriðju hæð Róaldsbrakka höfðu síldarsöltunarstúlkur aðstöðu og sváfu í kojum, en þar var einnig matarbúr og eldhús.
Myndtxt3: Bjóð, tunna með hring sem settur var á tunnuna þegar hún var full þar sem ævinlega seig í tunnunum eftir að búið var að trilla þeim frá og áður en beykir lokaði þeim.
Myndtxt4: Algeng sjón fyrr á tímum, handkerra með síldartunnur.