Sýningaopnun í Ásmundarsafni við Sigtún: Asmundur Sveinsson: Undir sama himni Sigurður Guðmundsson:

Undir sama himni, og sýningin Skúlptúr og nánd


Laugardaginn 19. janúar kl. 16.00 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Ásmundarsafni við Sigtún. Ný yfirlitssýning á verkum Ásmundar Sveinssonar, Undir sama himni, og sýningin Skúlptúr og nánd með verkum myndlistarmannsins Sigurðar Guðmundssonar.

Á báðum sýningum er sjónum sérstaklega beint að verkum listamanna sem prýða almenningsrými og nálgun þeirra við list sem hluta af daglegu umhverfi manna. Ásmundur er höfundur höggmynda sem prýða meira en 20 áberandi staði í borgarlandinu og víða á landsbyggðinni. Á síðustu árum hafa mörg glæsileg verk eftir Sigurðar verið sett upp víða um land og er þar skemmst að minnast Fjöruverks við Sæbraut, listaverkum í og við Barnaspítala Hringsins og skúlptúra við höfuðstöðvar Alvogen á Íslandi.

Á báðum sýningum verða minni frummyndir verka, skissur og teikningar auk listaverka sem eru einkennandi fyrir list Ásmundar og Sigurðar og hafa hugmyndaleg eða formræn tengsl við verk þeirra í almenningsrými.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur og eru sýningarnar sem opnaðar verða á laugardag liður í því markmiði safnsins að beina sjónum manna að þeim listaverkum sem við njótum sem hluta af daglegu lífi. Yfirlitssýningin á verkum Ásmundar Undir sama himni stendur út árið 2019. Sýningunni Skúlptúr og nánd lýkur 31. mars en hún er fyrst í röð einkasýninga fimm listamanna sem eru höfundar listaverka í borginni.

Sem hluti af því að gera list í almenningsrými hátt undir höfði á árinu kynnir Listasafn Reykjavíkur nýtt smáforrit, eða app, þar sem upplýsingum um útilistaverkin í borginni er miðlað með hljóðleiðsögnum sem hægt er að njóta á göngu, í hjólaferðum eða með því að fara í leiki. Á árinu verða jafnframt kynntar samkeppnir um útilistaverk í borginni sem rímar við hugmyndir Ásmundar Sveinssonar, en honum var umhugað um að færa listina til fólksins og þótti mikilvægt að hafa myndlist utandyra þar sem allir ættu kost á að njóta hennar. Höggmyndir hans í opinberu rými eru borgarbúum vel kunn og kennileiti sumra hverfa.

Ásmundur Sveinsson (1893-1982) lærði höggmyndalist í Danmörku og Svíþjóð. Verkin á sýningunni eru bæði frummyndir verka sem standa úti í almenningsrými í borginni og víðar eða verk sem tengjast þeim.

Sigurður Guðmundsson (1942) lagði stund á listnám hér á landi á árunum 1960-1963 en hélt síðan til framhaldsnáms í Hollandi. Hann býr og starfar í Reykjavík, Kína og Hollandi. Víða er að finna stórar höggmyndir eftir Sigurð í opnu rými hér á landi, á Norðurlöndum og Mið-Evrópu.
Sigurður verður viðstaddur opnunina og mun einnig vera með leiðsögn um sýningu sína daginn eftir, sunnudaginn 20. janúar kl. 15.00.

Sýningarstjórar sýninganna eru Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna og Yean Fee Quay, verkefnisstjóri sýninga hjá Listasafni Reykjavíkur.

Pawel Bartoszek formaður menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur opnar sýningarnar.

Listamennirnir sem sýna í Ásmundarsafni á árinu eftir að sýningu Sigurðar lýkur eru Brynhildur Þorgeirsdóttir, Jóhann Eyfells, Helgi Gíslason og að lokum Ólöf Nordal.

Nánari upplýsingar
Áslaug Guðrúnardóttir, kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur s. 820 1201 [email protected]