Sýningalok í Hafnarhúsi:
Hólmlendan og Nokkur nýleg verk
Sunnudagurinn 1. janúar 2017 er síðasti sýningardagur tveggja sýninga í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Annars vegar er um að ræða sýninguna Hólmlendan eftir Richard Mosse og hins vegar sýninguna Nokkur nýleg verk eftir Örn Alexander Ámundason í D-sal.
Hólmlendan
Hólmlendan er fjörutíu mínútna myndbandsverk sýnt á sex risaskjám í stórum sal. Að auki er til sýnis úrval stórra ljósmynda úr myndböndunum. Myndirnar eru teknar í austurhluta Kongó. Upptökurnar eru magnþrungnar og óraunverulegar, í bleikum tónum, og sýna stríðshörmungarnar í landinu. Mosse ferðaðist um austurhluta Lýðveldisins Kongó í fjögur ár (2010-14) og bjó í návígi við vopnaðar hersveitir á stríðshrjáðum svæðum þar sem ólík þjóðarbrot takast á og fjöldamorð og kerfisbundið kynferðislegt ofbeldi eru hversdagslegir hlutir.
Þetta verk Mosse var frumsýnt á Feneyjatvíæringnum árið 2013, þar sem hann var fulltrúi Írlands. Hólmlendan veitir afar fagra og ásækna mynd inn í landsvæði í Afríku þar sem borgarastyrjöld, óróleiki og mannlegar hörmungar hafa staðið yfir í marga áratugi.
Nokkur nýleg verk
Á sýningunni Nokkur nýleg verk dregur Örn nokkur nýleg verk fram í dagsljósið. Hann bætir við óhefðbundinni en fullkomlega einlægri lýsingu þar sem hann segir áhorfendum frá listaverkunum sem eru til sýnis og ennfremur þeim sem eru það ekki. Hann veltir því fyrir sér hvort það skipti máli hvað maður sýnir. Ef það skiptir ekki máli, hvernig ákveður maður hvað á að sýna og hvernig?
Örn blandar sjálfum sér af ásettu ráði í sýninguna með því að framkvæma hversdagslega atburði líkt og að ganga um við staf, spjalla og borða kexkökur. Hann fangar hið ófullkomna augnablik nákvæmlega með endurteknum gjörningum sínum, og á svipaðan hátt gefur hann sí og æ til kynna viðkvæmni með „ruslinu“ eða „gallagripunum“ sem listaverk hans eru.
Yfirstandandi sýningar
Hafnarhús
07.10.2016–05.02.2017
YOKO ONO:
EIN SAGA ENN…
Ásmundarsafn
29.10.2016–01.05.2017
Ásmundur
Sveinsson
og Þorvaldur
Skúlason:
Augans börn
Kjarvalsstaðir
03.09.2016–08.01.2017
Hildur Bjarnadóttir:
Vistkerfi lita
Hafnarhús
07.10.2016–22.01.2017
Erró: Stríð og friður
listasafnreykjavikur.is
artmuseum.is