Egill Sæbjörnsson og Sigrún Harðardóttir

Hrina: Spurt og svarað
Laugardag 21. janúar kl. 15.00 í Hafnarhúsi

Boðið er upp á samtal við listamenn sem eiga verk í sýningaröðinni Hrinu í Hafnarhúsi. Rætt verður um tilurð verkanna, inntak þeirra og útfærslu, auk þess sem horft er til samhengis þeirra við önnur verk á ferli listamannanna sem og þróun vídeólistar almennt. Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, leiða samtalið og er gestum velkomið að taka þátt.

Egill Sæbjörnsson (1973), Five Boxes (2009)
Fjórum hvítum kössum er komið fyrir í horni sýningarsalarins og á þá varpað hreyfimynd sem vekur hina dauðu hluti til lífsins. Þeir virðast hreyfast, opnast og lokast en auk þess sést banani á ferð og flugi á milli þeirra. Eins og heiti verksins gefur til kynna eru kassarnir í raun fimm, því að einn þeirra sprettur fram úr þeim sem fyrir eru, tekst á loft, svífur um sýningarrýmið og samlagast að lokum nýjum kassa. Inni í kössunum hefur verið komið fyrir tækjum sem framkalla hljóð í takt við myndefnið og fullkomna blekkinguna um hina líflegu kassa.

Sigrún Harðardóttir (1954), Dögun (1986)
Sigrún lærði vídeólist ásamt málun og grafík í Hollandi og skömmu fyrir námslok efndi hún til miðnætursýningar undir berum himni í Öskjuhlíð. Þar sýndi hún verkið Dögun á þremur samtengdum skjám ásamt hljóðmynd. Verkið ber merki fyrstu tilrauna með möguleika vídeómiðilsins þar sem myndheimur málverksins, á mörkum hins fígúratífa og abstrakta, er yfirfærður í nýtt samhengi. Manneskjur ganga inn í mynd og í gegnum rammana þrjá en með tæknilegri bjögun umbreytast andlitsdrættir þeirra smám saman í liti, ljós og form.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0