Að tjalda öllu til

Að tjalda öllu til

Ódýrasta leiðin að gista þegar maður er að ferðast um Ísland er að fara á tjaldstæði, hvort sem maður er með tjald eða hjólhýsi. Og tjaldsvæðin eru mörg, allan hringinn í kringum Ísland. Samkvæmt lauslegri talningu Icelandic Times, Land & Saga eru á Suðurlandi, frá Þorlákshöfn og austur í Svínafell í Öræfasveit 38 tjaldsvæði. Á Austurlandi frá Höfn og norður í Vopnafjörð eru þau 25, á norðurlandi frá Raufarhöfn á Melrakkasléttu og vestur í Hrútafjörð eru 35 tjaldsvæði. Á Vestfjörðum eru þau 21 frá Hólmavík norður á ströndum í Reykhóla á Barðaströnd. Á vesturlandi eru tjaldsvæðin 22 frá Á á Skarðsströnd í Dalasýslu og í Hvalfjörðin. Á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, á suðvestur helmingi landsins eru tjaldsvæðin 7, og mörg prýðileg eins og í Grindavík og Reykjavík. Hef auðvitað ekki komið á öll þessi fjölmörgu tjaldsvæði, en nokkur standa upp úr sem ég hef heimsótt, eins og á Akureyri, í Skaftafelli og Ásbyrgi, á Bolungarvík, Skagaströnd, og í Bakkafirði, svo einhver séu nefnd. Eins eru tjaldsvæðið í Landmannalaugum og á Möðrudal á Fjöllum, mjög minnisstæð. Vestasta tjaldsvæði landsins er í Breiðavík við Látrabjarg, það nyrsta er í Grímsey, austast getur maður tjaldað á Neskaupsstað, og syðst á mjög góðu tjaldsvæði í Vestmannaeyjum. Icelandic Times, Land & Saga fór á tjaldsvæðið í Laugardal í Reykjavík í dag, hér eru svipmyndir frá heimsókninni.

Þetta skilti tekur á móti manni þegar maður kemur á tjaldsvæðið, sem er við hliðina á stærstu sundlaug landsins Laugardalslaug í Laugardal.
Horft yfir svæðið, nóttin kostar um 2500 ISK á mann, og á svæðinu er góð salernisaðstaða, og fín aðstaða til að elda og njóta þess að vera úti.
Þessir Baskar voru að ljúka 10 daga ferð um Ísland, há punktarnir, Reykjavík og Snæfellsnes. ,,Mætti vera heitara” var eina umkvörtunin.

 

Þessi þýsku hjón voru hálfnuð hringinn, komu með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar, fóru norðurleiðina fyrst, Mývatn toppurinn.
Þetta danska par lenti í morgun, ætla sér þrjár vikur að hjóla hringinn rangsælis. Svolítið kvíðin eftir 50 km frá Keflavík í ausandi rigningu og roki. ,,Getur bara batnað”, sögðu þau og hlógu. Ætluðu sér í heitu pottana í Laugardalslaug eftir að hafa tjaldað til einnar nætur.

Reykjavík 09/08/2022 : A7R IV : FE 1.2/50mm GM

Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson