Í elsta húsi miðbæjar Reykjavíkur, Aðalstræti 10, býður Borgarsögusafn Reykjavíkur upp á áhugaverða viðburði á Menningarnótt. Árið er 1918 – Í fréttum er þetta helzt! er leikrænn upplestur úr Reykjavíkurblöðum árisins 1918 ásamt tónlistarflutningi. Tímagöng til 1918 er sýndarveruleikaverkefni þar sem gestir kynnast daglegu lífi fólks fyrir 100 árum síðan. Sjá nánari upplýsingar í viðhengi.

AÐALSTRÆTI 10
Opnunartími: 10-17

Árið er 1918 – í fréttum er þetta helzt!
Í hinu sögufræga húsi Aðalstræti 10, sem nú tilheyrir Borgarsögusafni Reykjavíkur, verður gestum boðið að hlusta á leikrænan lestur upp úr dagblöðum ársins 1918 í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Jón Svavar Jósefsson og Pétur Húni Björnsson munu lesa inn valdar fréttir og auglýsingar frá hinu viðburðaríka ári 1918 og inn á milli fléttast tónlistarflutningur sem hæfir tíðarandanum sem verður í þeirra höndum, ásamt trompetleikarans Steinars Matthíasar Kristinssonar. Upplestur og tónlistarflutningur verður fluttur kl. 14.00, 15.00 og 16.00.
Það er óhætt að segja að hver hörmungin hafi rekið aðra á Íslandi árið 1918 og eru lýsingar í dagblöðum landsins margar hverjar afar áhrifaríkar. Árið hófst með miklum frosthörkum í janúar og var kuldinn og frostið slíkt að ekki var nóg að tala um frostaveturinn eingöngu heldur varð að bæta við orðinu mikli til þess að leggja áherslu á hve ofboðslegur kuldinn var. Í október sama ár hefst Kötlugos sem fylgdi jökulhlaup en öskufallið náið yfir helming landsins og olli bændum tjóni. Í sama mánuði berst hingað til landsins spánska veikin með skelfilegum afleiðingum og verður af henni gífurlegt mannfall, aðallega í Reykjavík en talið er að þriðjungur Reykvíkinga hafi veikst. Fyrsta desember þetta ár gengur svo Sambandslagasamningur Íslands og Danmerkur í gildi og við verðum frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Þennan dag var íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta skipti sem fullgildur þjóðfáni. Vegna spánsku veikinnar var þó lítið um hátíðarhöld og dapurlegt um að litast í Reykjavík þótt vissulega væri fullveldið fagnaðarefni. Úti í hinum stóra heimi gerðist það helst markvert að fyrri heimsstyrjöldinni lauk og rússneska keisarafjölskyldan var tekin af lífi í kjölfarið á októrberbyltingunni sem hófst árið áður.
Það er ljóst að það er af nægu að taka úr 100 ára gömlum dagblöðum landsins og óhætt er að fullyrða að gestir í Aðalstræti 10 munu fræðast um líf forvera sinna á lifandi hátt á Menningarnótt.

 

Tímagöng til 1918 – sýndarveruleiki
Milli kl. 12:00-15:00 verður opið niður í kjallara Aðalstrætis 10 þar sem gestum gefst kostur á því að skyggnast inn í íslenskan veruleika árisins 1918 með aðstoð 360° sýndarveruleikagleraugna. Sýninguna vann Árni Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður hjá Skotta Film og lætur hann systkini á 12. ári, Jörund og Sylvíu vera sögumenn í þremur myndböndum. Gestir horfa á myndböndin með sýndarveruleikagleraugum og fræðast á lifandi hátt um samgöngur, verslun og viðskipti, um landbúnað og sjósókn en einnig um torfbæina – sem voru bæði heimili og vinnustaður fólks árið 1918. Í myndböndunum eru jafnframt skýrð út hugtök sem eiga sér rætur í íslenskum atvinnuháttum forfeðra okkar. Sýningin er hönnuð fyrir börn á öllum aldri. Árni verður á staðnum og aðstoðar fólk með sýndarveruleikagleraugun.
Verkefnið var styrkt af afmælisnefnd aldarafmælis fullveldis Íslands sem og af Uppbyggingarsjóði.