Bjartsýni og sókn í ferðaþjónustu á Vesturlandi

Bjartsýni og sókn í ferðaþjónustu á Vesturlandi


Ferðaþjónustan á Vesturlandi er í góðri sókn. Ráðist hefur verið í uppbyggingu og miklar 
 fjárfestingar víða í landshlutanum. er forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands sem hefur aðsetur í Borgarnesi. Markaðsstofan sinnir markaðsmálum fyrir ferðaþjónustuna í landshlutanum. „Umferð ferðamanna inn á Vesturland er alltaf að aukast. Það hefur gerst samhliða eða í kjölfar þess að þjónusta við ferðamenn í landshlutanum er alltaf að batna og möguleikunum fjölgar,“ segir Kristján Guðmundsson. hestar-og-jokullinn-vesturland

kristjan-gudmundssonGóð trú á svæðinu
Sem dæmi um nýlega uppbyggingu í Borgarfirði nefnir Kristján íshellinn í Langjökli, endurbætur í aðgengismálum við hellinn Víðgemli og hótel í Húsafelli og áfram mætti telja. „Mörg ferðaþjónustufyrirtæki í Reykjavík eru nú farin að bjóða upp á dagsferðir í Borgarfjörð. Þetta hjálpar við að byggja grunn undir ferðaþjónustu sem starfar allt árið auk þess að styrkja staði á borð við nýtt veitingahús og hótel í Húsafelli. Það er líka veitingastaður hjá Brúarási og svo er náttúrubaðstaðurinn Krauma að fara að opna við Deildartunguhver. Uppbygging á sér einnig stað í Borgarnesi. Þar opnuðu þrír veitingastaðir og eitt kaffihús í sumar. Nú er verið að reisa þar nýtt hótel. Það hefur líka verið ágætur vöxtur á Snæfellsnesi. Fosshótel keyptu tvö hótel þar í sumarbyrjun, það er á Hellnum og í Stykkishólmi. Það er augljóst að stórir íslenskir ferðaþjónustuaðilar hafa trú á svæðinu. Við þurfum hins vegar að fara að byggja betur upp í kringum okkar helstu náttúruperlur.“vidgelmir-cave-vesturland

Fjölmörg föst verkefni
Kristján Guðmundsson segir að við þessi skilyrði sé í nægu að snúast hjá Markaðsstofu Vesturlands. „Við höfum sinnt okkar föstu póstum sem eru útgáfumálin. Það er bæði útgáfa á handbók og borðkorti. Auk þessa erum við í sérverkefnum. Þar höfum við meðal annars verið að vinna að því að koma okkur upp nýju safni af ljósmyndum frá Vesturlandi sem teknar eru um vetrartímann. Þetta endurspeglar skemmtilega breyttan veruleika í ferðaþjónustunni. Hingað til hefur mest verið horft til þess að markaðssetja Ísland um sumartímann og nota þá myndefni sem aflað er þá. Nú er hins vegar líka farið að selja Íslandsferðir um vetrartímann. Við sáum fljótt að þarna var eins konar gat hjá okkur þegar kom að myndefni. Við höfum unnið að úrbótum í þeim efnum. Það háir okkur þó aðeins að við höfum ekki beint fjármagn til þessa. Það þarf því alltaf að vera að búa til sérverkefni í kringum þetta og sækja síðan um styrki. Þetta hindrar okkur aðeins í því sem við getum gert.“
Auk þessa nefnir Kristján aðra liði svo sem þátttköku í kaupstefnum. „Það er bæði Vest Norden-kaupstefnan sem haldin er árlega sitt á hvað á Íslandi og Grænlandi og einnig Mid Atlantic-kaupstefnan sem haldin er árlega hér á Íslandi.“

Stefnumótunin er mikilvæg
Til viðbótar þesssum föstu liðum vinnur Markaðsstofa Vesturlands nú að stóru verkefni sem heyrir undir sóknaráætlun Vesturlands. Markmið sóknaráætlunar er að ráðstafa þeim fjármunum sem varið er af ríkinu til atvinnu-, byggða- og menningarmála á Vesturlandi í samræmi við stefnu sem landshlutinn mótar sjálfur á þessum sviðum. Ferðamálin heyra að sjálfsögðu undir þetta. Kristján lýsir þessu verkefni: „Það ber titilinn „Efling ferðaþjónustu á Vesturlandi“ og skiptist í tvennt. Í fyrsta lagi er það efling á markaðsstarfi ferðaþjónustu á Vesturlandi þar sem við erum meðal annars að gera kynningarmyndbönd. Í framhaldi af því munum við sækja vinnustofur í Kanada og Bandaríkjunum í októbermánuði. Hinn hluti verkefnisins snýr að stefnumótunarvinnu fyrir ferðaþjónustu á Vesturlandi. Við fórum af stað með þetta áður en Stjórnstöð ferðamála hóf svipað verkefni sem kallast á ensku Destination Management Plan, skammstafað DMP. Við settum því okkar hluta á bið meðan DMP-verkefnið kæmist á skrið. Stjórnstöð ferðamála hefur ráðið til sín skoskan ráðgjafa sem hefur unnið mörg slík verkefni. Vinnan við DMP-verkefni hefst á næsta ári.“ arnarstapi
Kristján segir að á Vesturlandi sé nú mikið horft til frekari uppbyggingar í greininni. Stefnumótunarvinnan muni síðar nýtast til að mynda sveitarfélögunum þegar þau sækja um styrki til uppbyggingar ferðamannastaða til framtíðar. Þau muni þá getað vísað til þessarar stefnumótunarvinnu þar sem staðir eru meðal annars tilgreindir. „Heilt yfir erum við bjartsýn á framtíðina,“ segir Kristján Guðmundsson forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands.

Markaðsstofa Vesturlands er staðsett á Hyrnutorgi. 

Hlutverk Markaðsstofunnar er að samþætta markaðs- og kynningarstarf á Vesturlandi, þannig að markaðssetning landshlutans sé unnin á einum stað í samstarfi ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga, klasa og samtaka innan svæðisins.Markmið stofunnar er að styrkja ímynd Vesturlands og kynna svæðið sem ákjósanlegan áfangastað fyrir ferðamenn.

Stefnu Markaðsstofu Vesturlands 2012-2015 má lesa hér

Facebook síða Markaðsstofu Vesturlands 

Starfsfólk Vesturlandsstofu
Kristján Guðmundsson
Forstöðumaður
Tel:+354 437 2314
kristjang@vesturland.is  

Björk J. Jóelsdóttir                                                                                                                       Verkefnastjóri
Tel:+354 437 2314                                                                                                                               bjorkj@vesturland.is

Sonja Hille
Upplýsingamiðstöð
Tel:  +354 437 2214
info@westiceland.is