Brallað og brasað í Viðey með Brynhildi og Kristínu

Sunnudaginn 29. júlí kl. 13:15 munu þær Brynhildur Björnsdóttir og Kristín Eva Þórhallsdóttir taka á móti börnum og fjölskyldum þeirra í Viðey en þar er hægt að brasa ýmislegt skemmtilegt í fallegri náttúru eyjarinnar.
Þær stöllur Brynhildur og Kristín eru börnum vel kunnar sem fundarstjórar Leynifélagsins á Rás 1. Í fyrra sendu þær frá sér bókina Komdu út! sem geymir fjölda skemmtilegra hugmynda að því sem hægt er að gera úti í náttúrunni, niðri í fjöru, uppi á fjalli eða bara úti í garði. Á vefnum þeirra ferdafelaginn.is má finna ýmsan fróðleik um skemmtilega útiveru.

 

Kristín Eva Þórhallsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir. Ljósmynd Haraldur Jónsson

Siglt er samkvæmt áætlun frá Skarfabakka kl. 13:15 en þeir sem vilja fá sér hádegisverð í Viðeyjarstofu fyrir gönguna geta siglt kl. 12:15. Þátttaka í göngunni er gestum að kostnaðarlausu en greiða þarf í ferjuna.
Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.550 kr. fyrir fullorðna, 1.400 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 775 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.
Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.