Café Björk í Lystigarðinum.

Café Björk er heitið á nýja kaffihúsinu í Lystigarðinum á Akureyri. Húsið var opnað með pomp og prakt þann 9. Júní, klukkan 10.00 þegar öllum bæjarbúum var boðið í kaffi og vöfflur. „Þetta er búið að standa til í hundrað ár,“ segja þeir Sigurður Guðmundsson og Njáll Trausti Friðbertsson, en í stofnsamningi um Lystigarðinn árið 1910 segir að þar skuli rísa kaffihús hið fyrsta. Húsið er ákaflega glæsilegt, teiknað af Loga Má Einarssyni.

IMG_3114„Grunnurinn var þessi gamli byggingastíll sem er á Eyrarlandshúsinu hér við hliðina. Við vildum halda í sögulegu tenginguna með þessu hallandi þaki,“ segir Sigurður. „Vinnubyggingarnar sem voru byggðar síðar eru líka með þessu formi. Síðan er húsið klætt að innan með alíslensku lerki úr Hallormsstað

Þeir Sigurður og Njáll segja að frá upphafi hafi verið ákveðið að öll húsgögn yrðu íslensk. „Fyrst ætluðum við að láta sérsmiða húsgögnin, en hér á Akureyri er gífurlega rík hefð fyrir húsgagnasmíði. Stærst í þeim geira var Valbjörk sem framleiddi húsgögn fyrir landsmenn í áratugi. Við leituðum til bæjarbúa með húsgögn frá fyrirtækjum héðan af svæðinu og það gekk svo vel að 70% húsgagnanna hjá okkur eru frá Valbjörk. Enn sem komið eru það þó bara stólarnir sem við höfum gert upp. Við vorum svo heppnir að finna stranga af áklæði sem var framleitt hjá Gefjun fyrir áratugum. Við fundum það fyrir vestan.“

IMG_3110Einnig er að finna gullfallegt sófasett í Café Björk og segja þeir félagarnir það hafa verið smíðað inn í Oddfellowhúsið í Brekkugötu 1972. Þegar félagið flutti í annað hús, var sófasettið á leið á haugana, ásamt borðinu sem smíðað var við það en til allrar mildi tókst að forða því voðaverki. Enn sem komið er eiga borðin í kaffihúsinu sér ekki sögu, en þeir Sigurður og Njáll segjast alltaf vera að finna eitt og eitt slíkt, enda sé stefnan að vera eingöngu með tekkborð sem smíðuð hafa verið á svæðinu. Þeim finnst þó líklegt að það muni taka einhverja áratugi að finna þau.

IMG_3120Þegar Sigurður og Njáll eru spurðir hvers konar kaffihús þeir séu að reka, svara þeir einróma að þetta sé fjölskylduvænt kaffihús. „Maturinn er úr héraðinu. Við verslum við birgjana hér á svæðinu. Allur bjórinn er frá Akureyri og Árskógssandi, kaffið er brennt hérna á Akureyri fyrir okkur og hvað matinn varðar, þá er hann héðan fyrir utan það sem við veiðum sjálfir. Við veiðum mjög mikið og allt sem við veiðum og skjótum fer til kaffihússins.“ Í hádeginu er boðið upp á súpu, salat og létta rétti og allan daginn má fá smurbrauð og kökur, vöfflur og pönnukökur – og auðvitað allt heimabakað.

IMG_2571Það er óhætt að segja að það sé stöðugur straumur gesta á Café Björk, dag út og dag inn. „Þetta er eiginlega búin að vera alger geggjun frá því að við opnuðum,“ segir Sigurður. „ Við getum tekið á móti 120 gestum í þegar gott veður – á virkilega góðum dögum geta þeir farið í 130, því við bætum bara við borðum. Inni í húsinu rúmast 50 gestir eins og er. Þótt nægilegt rými sé fyrir fleiri borð, komum ekki fleirum inn vegna þess að það hefur verið stanslaus biðröð út úr dyrum frá því að við opnuðum. Það má segja að það sé ákveðið lúxusvandamál.“

[email protected]

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0