Dalabyggð – Hér er sagan á hverjum hól

Dalabyggð var sögusvið mikilla tíðinda til forna, eins og fram kemur í Sturlungu og Eiríks sögu rauða – að ógleymdri hinni óviðjafnanlegu Laxdælu. Þegar ekið er um héraðið getur þó verið erfitt að ímynda sér að þar hafi einhverjir blóðugustu viðburðir sögunnar átt sér stað, svo blóðugir að konur gripu til vopna og heilu skipsáhöfnunum var drekkt með göldrum. Núna eru þar friðsæl héruð og fátt sem minnir á vígatíma – nema ef vera skyldu Eiríksstaðir og þau skilti sem verið er að setja upp í sveitarfélaginu til að merkja viðburði úr fornum sögum.
 
dalabyggd icelandic times   Helga H. Ágústsdóttir sér um ferða-, menningar- og markaðsmál í Dalabyggð og segir þar sé mannlíf gott í dag. Þar búa 710 manns, þar af 270 í Búðardal. „Við erum mátulega stutt eða langt frá Reykjavík eftir því hvernig á það er litið og höfum allt til alls,“ segir Helga. „Við erum með góða heilbrigðisþjónustu og erum að leggja síðustu hönd á byggingu leikskóla, en auk þess höfum við tvo góða grunnskóla í sveitarfélaginu og tónlistarskóla. Hér er gott fyrir börn að alast upp, hér er hægt að æfa flestar íþróttir árstíðabundið en á veturna er kennt bæði badminton og glíma og erum við Dalamenn stoltir af árangri unga fólksins okkar í þeim greinum. Gróska er hér í hestamennskunni og stendur til að reisa í Búðardal reiðhöll hjá nýjum keppnisvelli Hestamannafélagsins Glaðs. Hér eru starfandi nokkrir kórar, harmonikkuklúbbur, leikfélag, kvenfélög, ungmennafélög og fleira.“

Vinna að sjálfbærri þróun
„Hér er gríðarlega fallegt og náttúran ósnortin. Það er mikið og fjölbreitt fuglalíf, oft má sjá erni fljúga hér um og töluvert er um sel í Hvammsfirði. Hér má stunda veiðar í bæði ám og vötnum víða í héraðinu . og reiðleiðir eru hér góðar.

   Í Dalabyggð er engin stóriðja og er það von mín að við getum orðið Green Globe samfélag eins og nágrannar okkar á Snæfellsnesinu í náinni framtíð. Í dag erum við að vinna að Staðardagskrá 21, sem er velferðaráætlun fyrir sveitarfélög um þau verk sem þarf að vinna í samfélaginu til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun og er það skref í rétta átt í umhverfismálum hér í Dölum.

   Við erum þegar byrjuð að huga að því markmiði, með því, meðal annars, að taka þátt í „Staðardagskrá 21,“ sem leggur áherslu á að gera smærri samfélög sjálfbær og náttúruvæn. Það hafa ýmis sveitarfélög verið að taka þátt í þessu verkefni.“
 
sumarls08-22_1sumarls08-22_4sumarls08-22_6  Brátt í þjóðleið
   Dalabyggð er landbúnaðarhérað. Hér eru bæði stór kúabú og fjárbú enda gott beitarland í grösugum Dölunum. Í Búðardal er mjólkurstöð og þjónustukjarni fyrir sveitarfélagið, hárgreiðslustofur, bifreiðaverkstæði, trésmiðja, pósthús, banki, ÁTVR, Samkaupsverslun, blómabúð og fl. Á Skriðulandi í Saurbæ er verslun og veitingasala.

   Dvalaheimilið Silfurtún er staðsett í Búðardal og í nýju húsnæði í Suðurdölum er Hjúkrunarheimilið Fellsendi, en eru þetta hvort tveggja stórir vinnustaðir. Helga er sammála því að Búðardalur hafi verið dálítið úrleiðis hvað þjóðveginn varðar fram til þessa en á því verði breyting innan tíðar. „Við horfum dálítið til þess núna að við verðum inni í aðalleiðinni til Vestfjarða þegar Arnkötludalurinn opnar, sem mér skilst að verði í haust.“ Síðastliðinn vetur voru stofnuð samtök sem við köllum Breiðarfjarðafléttuna, en þetta er ferðamálaklasi þar sem fyrirtæki við Breiðarfjörð starfa saman, í samkeppni við uppbyggingu á ferðamálum á þessu svæði og eru nokkrir ferðaþjónustuaðilar hér í Dalabyggð þátttakendur. En hvað annað er fyrirliggjandi?

   „Við erum á gríðarlegu sagnasvæði. Hér er sagan á hverjum hól, hvar sem þú kemur niður í gegnum aldirnar, allt frá Auði djúpúðgu, allri Laxdælu, Sturlungu og Eiríkssögu.

   Í vetur höfum við verið að vinna að því að gera Laxdælu sýnilega. Hönnuð hafa verið söguskilti og verða sögustaðir merktir í máli og myndum á tveimur tungumálum. Þetta er bara upphafið að því átaki hjá okkur að merkja staði og setja upp skilti. Við völdum fimm staðir í ár, Krosshólaborg, þar sem sagt er frá landnámi Auðar djúpúðgu, Laugar, þar sem draumum Guðrúnar eru gerð skil, Svínadalur og víg Kjartans, Búðardalur, heimkoma Höskuldar með Melkorku og Hrútsstaðir þar sem sagt er frá Hrúti og viðureign hans annars vegar við Eldgrím sem hann drap, áttræður að aldri og hinsvegar galdrahyskið Kotkel og Grímu. Næsta ár er stefnt að örðum fimm skiltum, en af nógu er að taka í þessari skemmtilegu sögu sem Laxdæla er.

sumarls08-22_5Nýtt safn í Búðardal
 Flaggskip Dalamanna í menningartengdri ferðaþjónustu eru auðvitað Eiríksstaðir í Haukadal. „Ástæðan fyrir því að Eiríksstaðir voru byggðir upp þarna,“ segir Helga, „er sú að þarna eru rústir frá 970 til 980, þar sem talið er að Eiríkur rauði hafi búið og sonur hans, Leifur heppni, hafi fæðst. Á Eiríksstöðum hefur verið reist tilgátuhús sem er víkingaskáli og þar er, allt sumarið, fólk í klæðum frá fornum tíma sem segir gestum frá sögunni. Þetta er kallað lifandi safn og þangað er mjög gaman að koma með börn, því þetta er staður þar sem þú mátt snerta og prófa.“

   Niðri við höfnina í Búðardal stendur ákaflega fallegt nýuppgert hús sem nefnist Leifsbúð, en hún hýsir upplýsingamiðstöð ferðamanna og þessa dagana er verið að leggja lokahönd á opnun Vínlands og landafundasýningu frá Þjóðmenningarhúsinu, en þar eru landafundum þeirra feðga Eiríks rauða og Leifs heppna gerð góð skil. Þar má einnig finna stórt upphleypt landakort af Dalabyggð, þar sem sögustaðirnir eru merktir inn. Þar geturðu skoðað sögusviðið, bæði úr Eiríkssögu, Laxdælu og Sturlungu ofl..“

dalabyggd leifsbud icelandic times   Í Leifsbúð er rekið kaffihús og má þar kaupa bæði súpu og léttar veigar og geta ferðalangar komist í samband við internetið þar.
 
Hefðbundin fjölskylduhátíð – með víkingum
   „Til nokkurra ára hefur Leifshátíðin verið haldin á Eiríksstöðum en á því verður breyting að þessu sinni. „Við færðum hátíðina inn í Búðardal þetta árið – og ætlum að kalla hana .Heim í Búðardal.“ Hátíðin verður haldin 12. júlí og eru allir velkomnir heim í Búðardal, og sérstaklega burtfluttir Dalamenn boðnir velkomnir á hátíðina. Þetta er svolítil nostralgía hjá okkur því við erum jú að vísa í textann sem Lonly Blue Boys sungu um árið og komu okkur á kortið, hljómsveitin Ábrestir hefur verið að æfa lögin þeirra fyrir dansleik hátíðarinnar. Einn af dagskrárliðum hátíðarinnar öldungamót í frjálsum íþróttum og á að fá gamlar kempur til að koma og sýna hvað í þeim býr. Þetta er fjölskylduhátíð með fjölbreyttri dagskrá og eiga allir að finna eitthvað við sitt hæfi, auðvitað verða þarna víkingar, skátar með ratleik, stór útigrill, brenna, söngur og útidansleikur. Þá verður markaður þar sem menn geta komið og selt það sem þeir hafa upp á að bjóða og hvet ég áhugasama að hafa samband við okkur í Dölunum. Það eru Hollvinasamtök Dalamanna sem standa að hátíðinni, en það eru samtök sem nýverið voru stofnuð til að koma okkur betur á kortið og styrkja ímynd og velferð Dalanna.“
 
   sumarls08-22_7Þegar Helga er spurð hvaða gistimöguleikar séu í boði í Dalabyggð, til dæmis fyrir þá sem ætla sér ekki að missa af „Heim í Búðardal,“ það eru tjaldstæði í Búðardal og verða þau stækkuð vegna hátíðarinnar og einnig verða útbúin stæði fyrir húsbíla og hjólhýsi. Þá má benda á Edduhótelið inni á Laugum, mjög gott hótel á miðju sögusviði Laxdælu í Sælingsdal og þar er einnig góð sundlaug. Einnig er þar Byggðasafn Dalamanna, mjög vandað safn með mörgum merkilegum hlutum. „Síðan eru hér ferðaþjónustubæir, bæði á Stóra-Vatnshorni, við hliðina á Eiríksstöðum og í Þurranesi, en þar er verið að byggja upp golfvöll. Svo er Hótel Bjarg, gistiheimili í Búðardal, bændagisting á Erpsstöðum og á Svarfhóli. Tjaldstæði eru einnig á Laugum, sem og úti á Á á Skarðsströnd, en á leið þangað má sjá gríðarlega fallegt útsýni yfir eyjarnar og erni og aðra sjaldgæfa fugla á sveimi.“