Drangaskörð

Norðan Drangavíkur í Árneshreppi á Ströndum gnæfa Drangaskörð, eitt af sérkennilegustu náttúrufyrirbærum landsins. Skörðin eru stórtenntur fjallskagi sem gengur fram úr Skarðafjalli milli Drangavíkur og Dranga. Ógleymanlegt er að ganga um skörðin í góðu veðri.

Af Drangaskörðum dregur Drangavík nafn sitt, einnig bærinn Drangar, að ógleymdum Drangajökli. Skörðin eru áberandi þar sem þau rísa upp úr landinu og vekja jafnan mikla athygli þeirra sem komast í návígi við þau. Þótt þau séu vel þekkt kunna þó fáir nöfnin á einstökum skörðum og tindum.

Örnefni gefa til kynna að þeir sem bjuggu næst dröngunum hafi talið þá vera fimm en tveir dranganna eru tvískiptir. Áður fyrr þegar farið var yfir skörðin var oftast farið um svokallaða Signýjargötu, sem liggur um Signýjargötuskarð. Það er ysta skarðið, en Litlitindur er þar utar. Um vetrartíma þegar klaki var yfir öllu var þó stundum farið um Kálfskarð sem er á milli tvískiptu tindanna tveggja. Um önnur skörð var sjaldan farið.

Ljósmynd: Björn Rúriksson

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0