Einn svartur sauður

Það er fleira af sauðfé en mannfólki á íslandi. Hér uppi á Rauðanúp á Melrakkasléttu í gær rakst ég á þessar fimm kindur fyrir framan Jón Trausta og Karl, klettana tvo sem standa vörð norður af Rauðanúp á Melrakkasléttu. Þarna við Norður-Íshafið er einstök stemming. Mörgum finnst Melrakkasléttan, nyrsti hluta Íslands einn fallegasti staður landsins. Sérstaklega þegar vel viðrar eins og hefur gert þar í allt sumar. Á veturnarnar er þarna varla byggilegt, enda er nær öll heilsárbyggð farin í eyði. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru 401.022 sauðfé á Íslandi á síðasta ári, 35.000 fleiri en íbúar Íslands. Á allri Melrakkasléttunni búa nú um 350 manns, frá Kópaskeri og suður fyrir Raufarhöfn. Það tekur bara átta tíma plús að aka frá höfuðborginni norður að Rauðanúp. Súlan situr enn á hinum 75 metra háa klettadrangi Jóni Trausta.

Súlan situr enn á hinum 75 metra háa klettadrangi Jóni Trausta.

Melrakkaslétta 26/08/2021 15:44 : A7R III / FE 1.8/14mm GM

Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson