Helmingur gesta safna og skyldrar starfsemi árið 2014 var útlendingar. Hátt í níu af hverjum tíu erlendum ferðamönnum sem sækja söfn og sýningar heim meðan á dvöl þeirra stendur hér á landi fara á sögu- og náttúrusöfn. Langsamlega stærstur hluti gesta náttúrusafna og sýninga eru útlendingar, eða 86 af hundraði. Hlutfall erlendra af safngestum safna sem veita tölur eftir uppruna gesta hefur vaxið jafnt og þétt eins langt og tölur ná, eða allt aftur til ársins 1996 (sjá mynd 1). Erlendir gestir þeirra safna sem veitt gátu upplýsingar um skiptingu gesta eftir uppruna árið 2014 voru hátt í ein milljón á móti 826.000 innlendum gestum.

Safnheimsóknum gesta er afar misskipt eftir uppruna gesta og viðfangsefnum safna. Þrír af hverjum fjórum erlendum gestum safnanna leit við á sögusöfnum á síðasta ári, fimmtungur náttúrusöfnum og sýningum á meðan aðeins þrjú og eitt prósent kíkti við á listasöfnum og fiskasöfnum og dýragörðum. Innlendir safngestir voru líkt og þeir erlendu iðnastir við heimsóknir á sögusöfn, eða sex af hverjum tíu. Tveir af hverjum tíu sóttu fiskasöfn og dýragarða heim á síðasta ári og litlu færri listasöfn, eða 15 af hundraði. Aðeins þrjú prósent innlendra safngesta sótti heim náttúrusöfn á síðasta ári (sjá mynd 2).

Gestakomum á söfn eftir tegund er að sama skapi ærið misjöfn eftir uppruna gesta. Langsamlega flestir gesta fiskasafna og dýragarða í fyrra voru íslenskir, eða 96 af hundraði. Gestir listasafna voru að sama skapi að langmestu leyti íslenskir eða átta af hverjum tíu gestum. Hins vegar voru gestir náttúrusafna og sýninga að stærstum hluta erlendir, eða hátt í níu af hverjum tíu gestum. Litlu fleiri erlendir gestir en íslenskir sóttu sögusöfn og sýningar heim á árinu, eða 56 af hundraði á móti 44 af hundraði Íslendinga (sjá mynd 3).

Fjöldi safna sem veitt geta upplýsingar um skiptingu gesta eftir uppruna hefur farið vaxandi nær árvisst frá því að Hagstofa Íslands tók að inna söfnin eftir slíkum upplýsingum, fyrst fyrir árið 1996. Fyrir síðasta ár veittu 86 prósent safna slíkar upplýsingar samanborðið við 42 prósent árið 1996. Tölur um uppruna safngesta eru í langflestum tilfellum áætlaðar tölur, ýmist byggðar á tímabundinni talningu og skráningum í gestabækur safnanna.

Tölur Hagstofunnar um starfsemi safna og skyldrar starfsemi taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna og dýragarða, sem og skyldra sýninga opnum almenningi sem veita upplýsingar um árlegan fjölda gesta.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA