Farðu norður

Hún er ekki fjölmenn nyrsta sýsla landsins, Norður-Þingeyjarsýsla. Sýslan er staðsett frá austanverðu Tjörnesi í vestri og að Finnafirði í Bakkafirði í austri. Íbúafjöldinn í þessari víðáttumiklu sýslu eru rétt innan við þúsund, og er stærsta þorpið, Þórshöfn á Langanesi, vaxandi útgerðarbær með uppsjávarfisk, hin tvö þorpin eru Raufarhöfn og Kópasker. Tveir firðir eru í sýslunni, Öxarfjörður og Þistilfjörður, tvö nes eða skagar, Melrakkaslétta og Langanes, einn stór foss, og sá kraftmesti í Evrópu, sjálfur Dettifoss. Fyrir norðan fossinn, er einn af mest sóttu stöðum á Íslandi, sjálft Ásbyrgi. Þótt Ásbyrgi sé ægifagurt, þá er ekki síðra að skreppa norður á Langanes, eða Melrakkasléttu, nyrsta hluta landsins, þar er hin þögla fegurð, eins og á Rauðanúp, Rauðanesi eða í bæjarhlaðinu á Grjótnesi, eitt fallegasta bæjarstæði á Íslandi. Í Norður-Þingeyjarsýslu eru hvorki fleiri né færri en 10 kirkjur fyrir þessa þúsund íbúa, kirkjur sem eru hver annarri fallegri, enda er náttúran svo ótrúlega fjölbreytt þarna á hjara veraldar.

Dettifoss, kraftmesti foss álfunnar, hér séður að vestan, en góður vegur hefur verið lagður frá Mývatnssveit og norður í Öxarfjörð, sem gerir ferð að Dettifossi færan öllum bílum, allan ársins hring.

Skinnastaður í Öxarfirði, klukkan 04:10 um morgun, ein af tíu kirkjum í Norður-Þingeyjarsýslu. Í forgrunni er vegur 85 sem liðast um sýsluna, tengir saman byggðirnar í þessari afskekktu byggð.

Miðnætursólin byggðina á Kópaskeri, næstnyrsta þorp landsins, eftir raufarhöfn, norðar og austar á Melrakkasléttunni

Ein stærsta súlubyggð landsins er á Langanesi, hér á Stóra-Karli á norðanverðu nesinu

Norður-Þingeyjarsýsla :  A7R III, A7R IV : FE 1.8/135mm GM, FE 1.4/24mm GM

Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson