Ferðafélag Íslands í fararbroddi í 90 ár

Ferðafélag Íslands í fararbroddi í 90 ár

Ferðafélag Íslands var stofnað 1927 og hefur það markmið að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn á hálendinu og í óbyggðum og greiða götu ferðamanna á landinu. Þá gefur FÍ út bækur og kort og stendur fyrir fjölbreyttum ferðum um landið. Félagið á 40 skála og undir merkjum félagsins starfa 15 deildir út um allt land. Ferðafélagið er í eðli sínu íhaldssamt og rótgróið og heldur fast í gömul og góð gildi. Um leið hefur það þó þróast í takt við tímann. Til dæmis var Ferðafélag barnanna stofnað fyrir nokkrum árum en það sérhæfir sig í ferðum fyrir börn og fjölskyldur og hefur fengið afar góðar móttökur. Þá hefur félagið verið í fararbroddi í ferðamennsku og byggt upp skála, gönguleiðir, göngubrýr og staðið fyrir fræðslu. Markmið félagsins eru í dag enn þau sömu og í upphafi, að greiða götu ferðamanna, byggja upp aðstöðu sem og standa fyrir ferðum, útgáfu og fræðslu. Stór þáttur í útgáfustarfi félagsins er útgáfa Árbókar Ferðafélagsins sem hefur komið út óslitið í 85 ár og er einstök ritröð um náttúru landsins.

Mikill fjöldi ferðamanna
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands segir að fjöldi ferðamanna hafi aukist jafnt og þétt á Íslandi undanfarin ár en aldrei eins og á árunum 2012 og 2013. Nú sé einfaldlega sprenging í ferðamannafjölda á Íslandi, það séu bæði bókanir hjá ferðaskrifstofum og frá fólki á eigin vegum. „Ísland er greinilega mjög vinsæll staður að sækja heim og eins hefur ferðum landsmanna innanlands fjölgað“ segir Páll. „Það þurfa allir sem koma að ferðamálum, hvort sem það eru sveitafélög eða hið opinbera, ferðaskrifstofur, ferðafélög eða landeigendur að koma saman og ræða skynsamlegustu leiðina að settu marki. Við verðum að hugsa um náttúruna og aðstöðuna sem við bjóðum upp á og þurfum að vera viss um að ráða við þann fjölda ferðamanna sem um landið fer.“
Fullbókað á Laugaveginum
Fullbókað er í skála FÍ á Laugaveginum yfir háannatímann. Ferðafélagið hefur í áratugi unnið við að byggja upp aðstöðu víða um land, ekki síst á gönguleiðinni frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk, á svokölluðum Laugavegi. Nú ganga 120 -140 manns þessa leið á hverjum einasta degi frá miðjum júní, allan júlí og fram í miðjan ágúst. Allt að 70% þeirra eru útlendingar að sögn Páls. Margir þeirra bóka sig hjá ferðaskrifstofum en sumir koma á eigin vegum. Umferð þess hóps hefur aukist gríðarlega mikið á undanförnum árum að sögn Páls.
Ferðafélagið á sex skála á Laugaveginum. Árið 2012 var Laugavegurinn tilnefndur sem ein af 10 bestu gönguleiðum í heiminum af National Geographic. Segir Páll það hafi verið mikla viðurkenningu fyrir starf FÍ. Gönguleiðin og skálasvæðið voru tekin út og svo tilnefnd í kjölfarið á þeirri úttekt. Þá komu Landmannalaugar best út allra ferðamannastaða á landinu í könnun Ferðamálastofu er varðar heildarupplifun ferðamannsins og sama má sjá í fleiri rannsóknum. Í dag sækja um 70.000 manns í Landmannalaugar yfir sumartímann. Félagið hefur í langan tíma óskað eftir að aðstaðan í Laugum verði lagfærð og þróðu en því miður hefur sveitarfélagið ekki átt peninga í skipulagsmál. En það stendur vonandi til bóta. Páll telur að umræðan um Landmannalaugar hafi sumpart verið neikvæð og að mörgu leyti röng. Einhverjir tala um 200 þúsund manns í Laugum þegar hið rétta er 70.000 yfir fjóra mánuði eða á milli 500 og 1.000 manns á dag. Þar af stoppa flestir aðeins í 2 – 4 tíma. Það þarf að ráðast í miklu umfangsmeiri rannsóknir en við höfum áður séð, ekki síst á náttúru og gróðurfari. Á meðan við klárum ekki alvöru rannsóknir verður allt tal um þolmörk bara huglægt mat. „Aðstaðan eins og hún er í dag er mjög gott verkfæri til að stýra umferðinni“ segir Páll. „Það komast bara ekki fleiri í skálapláss á Laugaveginum miðað við aðstöðu og nú er gott tækifæri til að beina fólki annað.“ Páll segir að það séu mjög margar aðrar skálaleiðir sem skemmtilegt sé að ganga og þangað þurfi einfaldlega að beina ferðamönnum. Þeir verði ekki sviknir af þeim leiðum og Páll nefnir sem dæmi Lónsöræfi, Víknaslóðir, Öskjuveginn og Strútsstíg en á öllum þessum gönguleiðum er ágæt skálaaðstaða.
Vakinn, umhverfis og gæðastjórnunarkerfi
FÍ hefur undanfarin ár unnið að því að innleiða Vakann sem er umhverfis- og gæðastjórnunarkerfi, sem Ferðamálastofa býður upp á og Páll segir að sé alveg frábært framtak. „Þetta er mjög raunhæf leið fyrir félög eins og okkur að innleiða,“ segir hann. „Við höfum til dæmis unnið að því að gera áhættumat fyrir allar okkar gönguleiðir. Við ætlum síðan að bjóða öllum í ferðaþjónustunni að nýta þessa vinnu okkar. Skálareksturinn á gönguleiðunum er nú orðinn mikið til sjálfbær með umhverfisvænum aðferðum, t.d. með sólarsellum.“
52 fjallaverkefnið, Biggest winner og Bakskóli Ferðafélagsins
Segja má að Ferðafélagið sé sannarlega nútímalegt ferðafélag. Það er ekki einungis fyrir fullfríska klettaklifrara heldur hefur félagið verið í samstarfi við Reykjalund og Háskóla Íslands með gönguferðir fyrir þá sem eiga erfitt um gang af einhverjum orsökum. Það getur verið vegna líkamlegra annmarka eins og offitu eða andlegra annmarka eins og þunglyndis o.s.frv. Rannsóknir sem voru gerðar meðal þátttakenda þessara ferða segir Páll að hafi komið mjög ánægjulega út. Rannsóknir hafa margsýnt að gönguferðir eru mjög hollar bæði fyrir líkama og sál og sumir segja þær allra meina bót. „Við erum nú að auka samstarfið við heilbrigðisyfirvöld og efnum til gönguferða fyrir ákveðna hópa innan heilbrigðisgeirans. Nú er Ferðafélagið búið að stofna bakskólann þar sem verið er að reyna að koma fólki af stað í léttum gönguferðum með styrkjandi og liðkandi æfingum þannig að þeir sem hafa gefið eftir heilsufarslega komist á beinu brautina aftur. Síðan eru hópar fólks með geðraskanir en rannsóknir hafa sýnt að gönguferðir hjálpa þeim geysilega mikið. Gönguferðir, hvort sem er um skóglendi eða við hafið hafa mjög róandi áhrif. Að komast upp á fjall hefur t.d. mjög jákvæð áhrif á andlega líðan fólks. Allt eru þetta afrek og hjallar til að sigrast á og bakskóli Ferðafélagsins er liður í hjálpinni. Þá fórum við af stað með 52 verkefni FÍ fyrir fimm árum sem sló í gegn og hefur fest sig í sessi og auk þess sem til hafa orðið ýmis hliðarverkefni eins og 12 og 24 fjöll, framhaldslíf og eilíft líf. „Á sl. 5 árum hafa fleiri þúsund manns tekið þátt í þessum verkefnum,“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

Callout box: Árið 2012 var Laugavegurinn tilnefndur sem ein af 10 bestu gönguleiðum í heiminum af National Geographic