Brúarárfoss

Fimm fallegustu fossarnir

Ísland er land fossa. En hvaða fossar eru fallegastir? Gullfoss, Goðafoss, Seljalandsfoss, Hraunfossar, Háifoss, eða Hjálp?. Auðvitað er erfitt að velja fallegasta, fallegustu fossa landsins. Það fer auðvitað eftir birtu, árstíð, eða með hverjum, í hvers konar stemningu maður er þegar maður kemur að fossinum. Síðan hvernig maður upplifir náttúruna, og orkuna í fossinum eins og við kraftmesta foss Evrópu, Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum. Hann er auðvitað sjálfkjörinn á þennan lista, enda einstakur. Dettifoss er á norðausturhorninu í Öxarfirði, næsti bær er Húsavík í rúmlega 70 km fjarlægð. Annar foss, Dynjandi í Arnarfirði, vestur á fjörðum á engan sinn líkan, næsti bær við fossinn er Þingeyri í Dýrafirði í rúmlega 30 km fjarlægð. Klifbrekkufossar í Mjóafirði austur á fjörðum, einstaklega vel staðsettir í botni fjarðarins, en aðeins er hægt að heimsækja fossinn um hásumarið, vegurinn frá Egilsstöðum yfir Mjóafjarðarheiðina, lokast með fyrstu snjóum á haustin og opnar ekki aftur fyrr en langt er komið fram á sumar. Síðan á Suðurlandi eru bæði Skógafoss, einstaklega stór og sterkur, 30 km vestan við Vík í Mýrdal við Hringveg 1, og Brúarárfoss í Biskupstungum, 15 km norðan við Laugarvatn. Einstök náttúruperla. 

Hvaða foss er þetta, baðaður miðnætursól?
Níu ferðalangar við Dettifoss
Skógafoss
Klifbrekkufossar í Mjóafirði

Ísland 25/03/2024 : A7R IV, RX1R II, A7R II :  2.0/35mm Z, FE 2.8/90mm G, FE 1.8/135mm GM, FE 1.2/50mm GM
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson