Eitt stærsta flugstjórnarsvæði í heimi er íslenska flugstjórnarsvæðið sem kallast ,,Reykjavík Control Area“ og er fimmtíu fimm sinnum stærra en Ísland, eða fimm og hálf milljón ferkílómetrar að stærð. Nær það frá Norðurpólnum í norðri að miðlínu milli Færeyja og Skotlands í suðri. Vesturmörk flugstjórnarsvæðisins er miðlína milli Grænlands og Kanada, austurmörk þess er Greenwich-lengdarbaugurinn, 0° (núll baugurinn). Að meðaltali fara um 400 flugvélar um íslenska flugstjórnarsvæðið á sólarhring, eða rúmlega fjórðungur af allri flugumferð yfir Atlantshafið. Það er Isavia ANS, dótturfélag Isavia sem sinnir flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Helstu flugvellir á svæðinu eru Keflavík, Reykjavík og Akureyri hér heima, Vågar í Færeyjum, og Nuuk, Thule, Kangerlussuaq á Grænlandi, en þar er Isavia með dótturfélag, Suluk APS.

