Framkvæmdasýsla ríkisins hefur með höndum margvísleg og fjölbreytt verkefni. Meðal annars að vekja okkur til vitundar um vistvæna hönnun og framkvæmd
Hlutverk Framkvæmdasýslu ríkisins er að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda með það að markmiði að bæta verklag, auka skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir ríkisins. Stofnunin heyrir undir fjármálaráðuneytið og fer með stjórn ákveðins hluta framkvæmda á vegum ríkisins. Öll verkefni eru boðin út en Framkvæmdasýslan fer með verkefnisstjórnun og framkvæmdaeftirlit. Auk þess er Framkvæmdasýslan til ráðgjafar um byggingatæknileg málefni og undirbúning framkvæmda. Það er hlutverk hennar að innleiða nýtt verklag, bæta gæði og vera í fararbroddi hvað varðar nýjungar.
Óskar Valdimarsson forstjóri Framkvæmdasýslunnar og Halldóra Vífilsdóttir aðstoðarforstjóri segja að þessi misserin s það einkum tvennt sem lögð sé áhersla á. „Annars vegar er það er innleiðing BIM (Building Information Model), sem á íslensku nefnast upplýsingalíkön mannvirkja. Með þeim er hönnunin færð úr tvívídd yfir í þrívídd, sem gerir hönnuðum m.a. auðveldara að finna árekstra milli einstakra byggingarhluta. Tilgangurinn er að bæta undirbúning til þess að fækka megi mistökum. Hins vegar er það vistvæna þróunin sem við höfum lagt mikla áherslu á. Við höfum verið í fararbroddi í því að innleiða vistvænar vinnuaðferðir í byggingariðnaði. Það er í anda menningarstefnu í mannvirkjagerð – sem er stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist. Nýjasta átakið í þessum efnum er samnorræna Nordic Built verkefnið þar sem hlutverk Framkvæmdasýslunnar er að vera einn af sendiherrum verkefnisins á Íslandi.
Vistvæn byggingaraðferð
Það er markmið okkar að allar byggingar í eigu ríkisins verði vistvænar og í dag eru allar nýbyggingar okkar að fara í gegnum alþjóðlegt umhverfisvottunarferli. Þetta veitir okkur m.a. tækifæri til að fá mælingar og samanburð ??? bygginga. Þetta þýðir líka að við erum að breyta verklagi á markaði. Einkunnarorð verkefnisins er „fólkið-fjármagnið-fósturjörðin“ sem er þýðing okkar á people-planet-profit. Það er að segja, hagrænt, umhverfisvænt og félagsvænt.“ En hvað er vistvæn byggingaraðferð?
„Í vistvænni byggingu er á kerfisbundinn hátt verið að hámarka notagildi og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Í vistvænni hönnun er sérstaklega hugað að hljóð og lýsingahönnun. Það er horft til þess að það sé betra að búa í húsunum, fólki líði betur. Við skilgreinum verkefnið í níu flokka:
1. Stjórnun. Í því felst utanumhald á heildarferlinu, meðal annars öryggi þeirra sem starfa við framkvæmdina og heilsu þeirra.
2. Heilsa og vellíðan. Þá er verið að huga að innivist, að notendur bygginganna hafi dagsljós, sjái út, það er talað um birtustig og almenna vellíðan fólks í byggingunni. Ef verið er að hanna vinnusvæði þar sem ætlast er til að fólk dvelji lengur en í 30 mínútur í senn er ætlast til að rýmið njóti dagsbirtu.
3. Orka. Þessi flokkur er háður stigakerfi en við Íslendingar fáum ekki eins mörg stig og við vildum vegna þess að við erum ekkert að spara. Vottunin snýst um að gera alltaf betur en við erum að gera. Við erum því miður orkusóðar. En á móti kemur að kolvetnissporið okkar er afar lágt.
4. Samgöngur. Hér skiptir máli hversu langt er á næstu stoppistöð fyrir almenningssamgöngur, tíðni og aðgengi, sem og upplýsingar um samgöngur. Einnig tekið á öryggi á t.d. upplýstum göngustígum innan lóða.
5. Vatn. Hér erum við farin að huga meira að því hvernig við umgöngumst regnvatnið. Helsta breytingin hjá okkur er kannski sú að við söfnum regnvatninu innan lóðar og nýtum það. Við reynum að skila vatninu aftur innan lóðarinnar í staðinn fyrir að láta það fara í lagnir og dæla því út í sjó. Með þessu fjölgar grænum svæðum og við fáum hreinna loft.
6. Byggingarefni. Þetta er kafli sem hefur reynst okkur erfiður hér á Íslandi vegna þess að við erum ekki með vottuð byggingarefni – eða að innsta kosti, lítið úrval. Ástæðan er að hluta til sú að það vantar vitundarvakninguna vað þetta varðar. Innflytjendur byggingarefna eru jafnvel með vottaða vöru en gera sér ekki grein fyrir því og eru ekkert að útvega sér pappíra því til sönnunar. Það hefur lítil sem engin eftirspurn verið eftir vottuðum byggingarefnum. Ef engin er eftirspurnin, þýðir það bara aukavinnu fyrir innflytjendur að verða sér út um slíka pappíra. Það sama á við innlenda framleiðendur. Þeir óska ekki eftir vottun fyrir sína vöru ef engin eftirspurn er eftir slíku. Við erum að reyna að koma af stað eftirspurn og þá þróast markaðurinn með. Eitt af hlutverkum okkar hér sem frumkvöðlar er að hleypa eftirspurninni af stað.
7. Úrgangur. Hér erum við að tala um flokkun úrgangs. Við þurfum að sýna fram á, bæði á framkvæmdatíma og í rekstri, hvernig farið er með losun sorps. Framkvæmdum fylgir alveg rosalega mikið magn af umbúðum. Það felst gríðarleg vinna í því að flokka þetta og koma fyrir eins og reglugerð kveður á um. Engu að síður hefur þetta geysilega mikinn sparnað í för með sér ef þetta er gert á öllum byggingastöðum.
8. Landnotkun og vistfræði. Í þessum flokki eru skýrslur um vistfræði lands, náttúrufar og dýralíf. Hér er líka verið að tala um að taka mengað svæði og skila því frá sér sem betra landi. Það er að segja, að skila frá sér landinu í betra ástandi en það var fyrir, eða að minnsta kosti jafn góðu.
9. Mengun. Á framkvæmdastað er lögð áhersla á það að vélar sem eru olíuknúnar leki ekki olíu. Til varnar eru settar plastábreiður á jörðina. Síðan er það rykmengunin – að henni sé markvisst haldið í lágmarki við byggingaframkvæmdirnar. Þessi flokkur nær yfir lekavarnir frá kælimiðlum, flóðahættu, mengunarhættu frá frárennsli, ljósmengun að næturlagi og hávaðamengun. Sem sagt, helstu áherslurnar eru á olía, ryk, hávaða og ljós.“
Byggingar og endurbætur
Eins og Óskar og Halldóra segja, þá hefur Framkvæmdasýslan yfirumsjón með byggingum á vegum ríkisins. Þær byggingar sem eru nú þegar á framkvæmdastigi og hafa verið hannaðar með vistvænum áherslum eru nokkrar. Hjúkrunarheimili á Eskifirði og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ eru í byggingu og í vottunarferli fyrir bæði hönnun og verklega framkvæmd. Á næsta ári er ráðgert að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og nýtt fangelsi á Hólmsheiði fari í byggingu. Síðan Hús íslenskra fræða sem fer væntanlega fljótlega í útboð. Háskólasjúkrahúsið er í undirbúningi og hönnunarferli. Vottunarferlið er tvíþætt. Á hönnunarferlinu er farið í gegnum fyrra vottunarstigið, en seinni vottun fer fram eftir að framkvæmdum lýkur. Fylgst er grannt með þróuninni allt hönnunar- og framkvæmdaferlið.
Auk þessa eru byggingar sem eru viðbætur og endurbætur. „Við höfum ekki ennþá farið út í að taka þær í vottunarferli,“ segir Halldóra, „en þessar byggingar eru viðbygging við Menntaskólann við Sund, samkeppnisverkefni þar sem tillögum var skilað inn í síðastliðinn mánuði til dómnefndar. Síðan eru það endurbætur á Sjúkrahúsinu á Selfossi, sem er mjög stórt verkefni. Núna erum við að hefja samkeppni um viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurlands, stækkun verknámsaðstöðu. Við Háskólann á Akureyri er verið að vinna við lokaáfanga á uppbyggingu á Sólborgarsvæðinu, en í þessum áfangaverða aðallega skrifstofur og aðstaða kennara.“
Snjóflóðavarnir
En það eru ekki aðeins húsbyggingar sem eru á ábyrgð Framkvæmdasýslunnar, því snjóflóðavarnir eru á hennar könnu. Núna er verið að byggja snjóflóðavarnir á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. „Það fer að jafnaði einn og hálfur milljarður króna á ári í þessar framkvæmdir næstu átta árin,“ segir Óskar. „Núna eru miklar framkvæmdir í Neskaupsstað, bæði svokölluð upptakastoðvirki og varnargarðar. Upptakastoðvirki eru stálgrindur sem eru settar ofarlega í fjöllin til að hindra að snjóflóð fari af stað. Síðan eru varnargarðarnir niðri við bæina, eins konar skálar sem grípa snjóflóðin ef þau fara af stað. Þeir geta verið allt að 20 metra háir og alveg þverhníptir veggir þar sem snjóflóðin lenda á þeim.
Í hönnun á þessum vörnum eru landslagsarkitektar alltaf kallaðir til. Þetta eru mikil mannvirki rétt hjá bæjunum og tilvalin sem góð útivistarsvæði. Það er því lögð áhersla á að svæðið sé fallegt, t.d. með því að gera tjarnir, sá gróðri og gera göngustíga. Vinna af þessu tagi er einnig í gangi á á Siglufirði, Ísafirði, Bolungarvík, Bíldudal og Patreksfirði.“
Leiguhúsnæði og tengsl við ferðaþjónustu
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur einnig umsjón með öflun leiguhúsnæðis fyrir ríkisisstofnanir. „Við getum nefnt hjúkrunarheimilin sem dæmi,“ segja Óskar og Halldóra. „Hjúkrunarheimili sem eru í svokallaðri leiguleið hjá ríkinu. Í því felst að í stað þess að ríkið byggi og eigi húsnæðið, þá er samið við sveitarfélögin um að þau eigi og byggi hjúkrunarheimilin og leigi síðan ríkinu til 40 ára. Þó þannig að ríkissjóður tryggir fjármögnunina í gegnum Íbúðalánasjóð. Ríkið er í rauninni að fá sveitarfélögin til að taka þetta að sér sem verktakar. Það er nú þegar búið að semja við ellefu sveitarfélög, þannig að í þennan pakka fara á næstu fimm árum þrettán milljarðar króna, sem er gífurleg innspýting í atvinnulífið á hverjum stað. Þau sveitarfélög sem þegar eru búin að taka sín hjúkrunarheimili í notkun eru Borgarnes og Akureyri. Garðabær er langt kominn en aðrir eru á undirbúningsstigi.
Við sjáum líka um önnur leiguverkefni, þ.e.a.s. þar sem ríkið tekur húsnæði á leigu í stað þess að byggja sjálft. Við sjáum um útboð og samninga. Tilfærsla ráðuneyta við sameiningu ráðuneyta er líka á okkar borði.
Síðast en ekki síst, erum við með ýmis smáverkefni tengd ferðaþjónustu. Við gáfum út leiðbeiningarit um uppbyggingu ferðamannastaða í samvinnu við Ferðamálastofu og Hönnunarmiðstöð Íslands. Það má segja að tilgangur Framkvæmdasýslunnar sé að efla framþróun okkar manngerða umhverfis. Við höfðum umsjón með byggingu brúar í Almannagjá á Þingvöllum og nú fljótlega verður farið í samkeppni um hönnun göngubrúar yfir Markarfljót.”