Fornbíladagurinn í Árbæjarsafni

Árbæjarsafn  Sunnudagur 2. júlí kl. 13:00 – 16:00
Fornbíladagurinn í Árbæjarsafni á sunnudag

Sunnudaginn 2. júlí verður boðið upp á hina árvissu og vinsælu fornbílasýningu á Árbæjarsafni. Fornbílaklúbbur Íslands sýnir ýmsa merka bíla í eigu félagsmanna á safnsvæðinu. Félagsmenn verða á staðnum og spjalla við gesti.

Fornbílaklúbbur Íslands var stofnaður á fjölmennum fundi í Templarahöllinni 19. maí árið 1977. Helstu hvatamenn að stofnun hans voru Bjarni Einarsson, Jóhann E. Björnsson, Kristján Jónsson og Þorsteinn Baldursson. Bjarni hafði þegar árið 1967 safnað saman fornbílum á höfuðborgarsvæðinu til sýningar á Laugardalsvellinum og með því frumherjastarfi vakti hann áhuga fjölmargra á mikilvægi varðveislu gamalla bíla sem síðar leiddi til stofnunar Fornbílaklúbbsins.

Heimsókn á Árbæjarsafn gefur fólki kost á að upplifa ferðalag aftur í tímann. Starfsfólk klæðist fatnaði eins og tíðkaðist á 19. öld og húsfreyjan í Árbæ býður upp á nýbakaðar lummur og á baðstofuloftinu verður tóskapur til sýnis. Í haga eru kindur, lömb og hestar.

Heitt verður á könnunni í Dillonshúsi og boðið upp á þjóðlegar og heimilislegar veitingar.

Safnið verður opið kl. 10-17 en sýning Fornbílaklúbbsins hefst kl. 13.

Árbæjarsafn er hluti af Borgarsögusafni, eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0