Við Laka, þar sem stærsta hraun mannkynssögunnar rann fyrir 240 árum með þvílíkum hörmungum ekki bara fyrir land og þjóð, heldur alla heimsbyggðina

Frá 1773

Á síðustu 250 árum, eða frá árinu 1773 hafa verið 88 eldgos á Íslandi, flest í Grímsvötnum í miðjum Vatnajökli sem gaus litlu gosi árið 1774, fyrir 249 árum síðan.  Grímsvötn er lang virkasta eldstöð landsins, en á síðustu tvö hundruð og fimmtíu árum hefur gosið þar þrjátíu og tvisvar sinnum, sem er einn þriðji af öllum gosum á Íslandi á síðustu 250 árum. Gosin í Grímsvötnum eru frekar lítil ef miðað er við stærstu gosin á þessu langa tímabili.

Stærsta gosið eru Skaftáreldar við Laka árin 1783-1784. En þar varð til mesta hraunrennsli í árþúsundir í einu gosi í heiminum. En flatarmál hraunsins er 580 km². Um tuttugu prósent þjóðarinnar dó í þessum hörmungum, og 75% af búfénaði, sem kallaði á hungursneyð, ekki bara á Íslandi. Móðan mikla sem fylgdi eldgosinu, varð til þess að uppskerubrestur var bæði vestan- og austan hafs, og sagnfræðingar ætla að franska stjórnarbyltingin 1789 hafi hafist vegna áhrifa frá gosinu við Laka.

Næsta stóra gos, er rúmum hundrað árum síðar við Öskju, mikið öskugos, sem varð til þess að margir íbúar austurlands fluttu til vesturheims, enda lagðist þykkt öskulag yfir stóran hluta af eystri helmingi landsins. Askja, er nú að búa sig undir gos, sem gæti hafist á næstu 12 mánuðum. Árið 1918 er næsta stóra eldgos, í Kötlu í Mýrdalsjökli. Hekla kemur með stórt eldgos 1947, og síðan er mjög stórt gos sunnan við Vestmannaeyjar árið 1963, þegar Surtsey myndaðist. Tíu árum síðan verður öflugt gos í Heimaey, stærstu eyjunni í Vestmannaeyjum.

Síðan koma mörg smærri gos, flest fjarri byggð, og við Mývatn, Kröflueldar. Það er ekki fyrr en árið 2010, að verður aftur stórt gos, þá í Eyjafjallajökli. Síðan annað, sunnan við Öskju árið 2014, í Holuhrauni. Hvar næsta stóra gos verður, er auðvitað ekki vitað, hvort það verður á Reykjanesi, sem er að vakna með þremur litlum eldgosum á jafn mörgum árum eftir 800 ára hlé, eða verður það í Öskju, Kötlu eða Torfajökli?

Jarðhiti við Öskju, ein af okkar öflugustu eldstöðvum
Eldgosið í Holuhrauni 2014
Hér glittir í þungbúna Heklu síðsumars, hvenær gýs hún næst?

Ljósmyndir & texti: Páll Stefánsson
Ísland 17/08/2023 : A7R II; A7R III, RX1R II : FE 1.8/135mm GM, 2.0/35mm Z, FE 1.4/50mm Z, FE 2.8/90mm G

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0