Fyrsti Íslendingurinn til Kína

Fyrsti Íslendingurinn til Kína

1760 með dönsku kaupfari

Árni Magnússon frá Geitastekk í Dölum var fyrstur Íslendinga til að sigla til Kína, en hann mun hafa komið til Kanton árið 1760 og fór í ársbyrjun 1761. Árni Magnússon var fæddur 1726 og var á lífi í manntalinu 1801 þá kominn heim, en hann hafði barist gegn Tyrkjum á Miðjarðarhafi.

Árni hafði brugðið búi vestur í Dölum, siglt til Danmerkur og tekist á hendur ferð sem þá var bæði mannraun og ævintýri: siglingu á kaupfari áleiðis til Kanton í Kína með stangasilfur og blý en hið danska kaupfar hafði lagt upp frá Kaupmannahöfn og siglt fyrir Góðravonahöfða í S-Afríku og þaðan austur á bóginn um danska virkið Danborg í Trankebar á Indlandi sem Danir seldu Englendingum 1845.

Íslandskort

Af vosbúð, dauða og straffi

Siglingin til Kína hafði ekki gengið áfallalaust í kuldum norðursins og vosbúð mikil um borð. Félagar hans fellu úr reiðum og biðu bana. Einn daginn féllu tveir. Árni lýsti því þegar maður að nafni Evold féll úr fukkumastrinu á stjórnborða: „Hann lenti á arnkerinu, er lá á skansdekkinu rétt á móti fukkumastrinu. Þaðan féll hann í sjóinn og varð sjórinn rauður af hans blóði. … Sama eftirmiðdagdag féll af stóru mersuránni norskur matrós er var sundur parteraður fyrr en kom niður til þilfarsins.“

Dauðinn var stöðugt nálægur og skipverjar máttu sæta hörðum kostum á leiðinni: “Nú voru allar okkar sængur upp bornar á þilfarið til að þurrka þær eftir það illa veður, er vér höfðum í þeim spánska sjó. Einnin vísitera eftir lúsum og óhreinindum. Ef þetta finnst, verður eigandinn straffaður fyrir hirðuleysi og dofinskap. Þegar nokkur finnst sofandi á sinni vakt, verður hann arresteraður og straffaður með 50 kaðalshöggum, ef það er í friðstíð. Ef það er ófriðstíð, straffast hann upp á lífið.”

Árni Magnússon frá Geitastekk í Dölum
Rósinborgargarður í Kaupmannahöfn á 18. Öld

Latroner og óærlegir

Þar kom loks að komið var til „vort desitneraða platz“ Kanton í Kína sem Árni lýsir svo: “Þessi staður var lítill, þó vel innréttaður með góðu kastilli, er kann forsvara þann heila bý. Landið var ávaxtarsamt bæði með fénað og ávexti. Það innfædda fólk var svargult í andliti, var klætt í nankins klæðum. Þaug eru bæði gul og blá og eru gjörð af tréull, sem vér annars köllum bómull, er það sama, því margir moríaner eður svart fólk, er komið mun hafa frá Morien (Afríku) ellegar frá þeim tyrknesku eylöndum.

Fólkið í Kína er að minna lagi að vexti, dökkbrúnt í andliti með rakaðan skalla. Utan frá hvirflinum höfðu þeir langan topp, sem náði ofan að buxnastrengi, og allir þeir, sem hann ei höfðu, voru latroner (ræningjar) eður óærlegir (ærulausir). Af þessu fólki voru margir sem lágu út á sjónum og eigi máttu á land koma fyrir þeirra þjófnað og rán … Þessir menn eru vinsamlegir að tala við, eru hin vanskilegasta þjóð að gera kauphöndlun með, því þeir eru hinir nærfærnustu þjófar, so mann skal ei af vita, fyrr en peningarnir eru af hans lummu … Kvenfólkið (konur hinna ærulausu) hafði járnskó á fótum sér, ei stærri en passa kunni átta vetra gömlu barni. Þetta skyldi vera þeirra straff fyrir undan farin svik og opretti við þeirra keisara, og skyldi sú kynkvísl bera þetta straff, so lengi þar var einn maður af henni lifandi.

Í staðnum Kanton var mikið viðhafnarlítið fólk, bæði kaupmenn og þeir stórríku. Allir hafa þessir belghempur og víðar buxur annaðhvert af nankini eður silki, annaðhvert dökkbláar, gular eður hvítar. Kollhúfur á höfði.”

Árni Magnússon til Kína 1760
Dansbor í Trankebar á Indlandi

Enginn vetur, ævaarandi sumar

“Í Kína er enginn vetur, heldur er þar ævarandi sumar. Dagurinn er 12 tíma, nóttin líka so. Þegar einn ávöxtur er fullvaxinn, fellur hann af trénu, og strax sér maður að nýr aftur mun koma … Eg sá og þeirra postulínssmiðju. Hún var sem hár turn með mörgum vel byggðum húsum, hvar þeir brenndu þeirra postulín … tekoppar ferðugir, meistaralega gjörðir.”

Morðingi og hinn myrti í sjóinn

Svo kemur að heimferðinni; akkerum er létt 8. janúar 1761. Hvert sunnudagskvöld fá skipverjar einn pott af púnsi, en það gat dregið dilk á eftir sér. Menn komu þar að sem einn matrós hafði stungið annan til dauða. Árni segir: “Prestur kom út og talaði við þann seka, er var stálharður sem ekkert illt hefði aðhafst, og þessi var norskur matrós. Hann sagðist nú fá það sem hann hefði lengi eftir þreyð, að láta sér í sjóinn kasta. Þar eftir urðu bæði bökin saman lögð á þeim dauða og lifandi og saman með blýlóð bundin við fæturnar og í sjávardjúp sökktir. Á heimleiðinni hafði skipið viðkomu á eyjunni St. Helenu, “…sem heyrir engelskum til. Þar er artugt fólk, sérdeilis kvenfólkið, sem liggur í blóðinu … Þar lágum vér í fimm daga. Vorir yfirmenn voru í landi að leika sér við stúlkurnar og forfríska kroppinn.”

Á ypparsta hóruvert Köpen

En nú líður að lokum og Árni skrifar: “Nú sigldum vér 14 daga tíð og þóttumst sjá þær engelsku eylendur, en níu dögum þar eftir fengum vér England að sjá. Komum ei so nær, að við fengjum fólk nokkurt í tal, af því að vindurinn var oss með. Að þessu búnu fengum vér ei land að sjá, fyrr en fengum Norge í sigti um morguninn kl. 8. Á þessari leið, eg meina frá Englandi og til Noregs, var brennivínsfatan uppi á þilfarinu á hverri vakt, so vér vorum hálfdrukknir allar tíðir, lágum á þilfari eins og hundar af fögnuði, því vér þenktum upp á Kaupinhöfn og þær fallegu stúlkur … Vér létum vor anker falla á Khafns rei, fórum so í land í vorum silki og flöjelsklæðum. Eg fór til herbergis hjá Rasmus Bager í Laksegaden, sem var sá ypparsti hóruvert í heila Khöfn.”

Árni Síglar til Kína
Höfnin í Kanton í Kína

Hægt er að nálgast ferðasögu Árna Magnússonar frá Geitastekk á Hlusta.is

Hér er linkurinn:https://hlusta.is/stafsrofsrod/fer%C3%B0asaga-0

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0