Hönnunarmars

Auður Ómarsdóttir sýnir í Skoti Ljósmyndasafnsins
Aðstæður er yfirskrift sýningar sem opnuð verður í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur fimmtudaginn 23. mars. Á sýningunni eru ljósmyndir eftir Auði Ómarsdóttur sem tekur ljósmyndir sínar af eðlislægum áhuga á mannlegu atferli. Hún lýsir eigin verkum sem persónulegum en einnig hlutlægum athugunum á aðstæðum. Í stöðugri skimun sér hún heiminn fyrir sér sem uppfullan af vísbendingum um uppákomur sem þegar hafa átt sér stað eða eiga eftir að gerast. Vísbendingarnar virka sem samhengislaus brot af ósýnilegri heild, eins og stilla úr kvikmynd eða setning úr handriti.

Sýningin stendur til 30. maí 2017.

Nánari upplýsingar á vef safnsins https://borgarsogusafn.is/is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/adstaedur


Hönnunarmars: Alþjóðleg hönnun í Sjóminjasafninu
Sjóminjasafnið í Reykjavík tekur þátt í Hönnunarmars dagana 23. – 26. mars 2017. Í anddyri safnsins verður innsetning undir yfirskriftinni „Hvernig á að týnast“ sem Isobel Grad frá Fálki-hönnun og Benjamin Farrell sjá um. Á annarri hæð safnsins undir yfirskriftinni „Náttúruöfl“ má sjá verk hönnuðanna Arite Fricke og Shu Yi, Niki Jiao og Li Yiwei.

Nánar um verkin og hönnuði þeirra
Grafíski hönnuðurinn Isobel Grad býr á Íslandi en hún vann áður fyrir Microsoft í Seattle. Benjamin Farrell er grafískur hönnuður sem flutti nýverið frá London til Reykjavíkur. Litríkt umhverfi Grandans þar sem rekaviður, reipi, fiskinet og neonlitaðar bryggjumerkingar koma við sögu er meðal þess sem hefur veitt hönnuðunum innblástur og munu þessir hlutir fá nýtt hlutverk í verki þeirra „Hvernig á að týnast“. Gestir eru hvattir til að taka með sér bút af rekaviði og viðhalda þannig ferðalagi hans um sjó og land.
Hönnuðirnir Arite Fricke frá Þýskalandi, Shu Yi, Niki Jiao og Li Yiwei frá Kína hafa allar búið og starfað á Íslandi í nokkur ár. Sýningin þeirra „Náttúruöfl“ hefur að geyma grafísk prent og plaköt á mismunandi pappír, þ.á.m. kínverskan pappír sem er notaður í flugdrekagerð. Gestir fá jafnframt tækifæri til að búa til fjórflötungslaga Alexander Bell flugdreka sem þeir mega taka með sér heim.
Hönnuðirnir bjóða gesti velkomna í spjall um sýninguna föstudaginn 24. mars milli kl. 16-17. Léttar veitingar í boði.