Húnaþing vestra
    – hið fagra villta vestur

Húnaþing vestra er einn af þeim stöðum á landinu þar sem fjölbreytileiki íslenskrar náttúru liggur við hvert fótmál. Þar má allt í senn finna grösugar heiðar, stórbrotin fjöll, gjöfular ár og vötn og þaðan liggja vegir inná hálendið. Fyrir vikið streyma þangað árlega þúsundir ferðamanna, jafnt innlendir sem erlendir, til að njóta útivistar í einstöku umhverfi. Á svæðinu er gott úrval bæði gistimöguleika og afþreyingar og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

hunathing vestra s 458Einstök náttúrufegurð
Í Húnaþingi vestra er að finna mörg stórbrotin náttúrufyrirbrigði, nægir þar að nefna hinn mikilfenglega Hvítserk en þessi 15 metra hái steindrangi sem rís eins og tröll úr sæ er með þekktari kennileitum og auk þess einkennistákn svæðisins. Ótal fuglategundir hýsa klettinn og strandirnar í kring iða sömuleiðis af lífi enda má þar finna ein stærstu sellátur á landinu. Víðáttumiklar heiðarnar og votlendið draga til sín æ fleiri fuglaskoðara og laxveiðimenn hafa sérstakt dálæti á svæðinu sem skartar þremur af stærstu laxveiðiám landsins. Hið ægifagra Kolugljúfur er annar ógleymanlegur staður og útsýnið frá Borgvirki yfir Húnaflóa er eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
grettir2hvitserkur4vei_i1skar_sviti1Fjölbreyttar gönguleiðir er að finna í Húnaþingi vestra bæði á Hvammstanga og Laugarbakka en einnig til fjalla og inn til heiða. Upplýsingaskiltum hefur víða verið komið fyrir svo gestir geti kynnt sér svæðið og náttúrulíf þess sem best.
 aIMG_3591   Það sem dregur flesta ferðamenn til Húnaþings vestra eru þó vafalaust selirnir en á fáum stöðum á landinu gefst fólki jafn gott tækifæri til að sjá seli og afkvæmi þeirra í sínu náttúrulega umhverfi eins og á Vatnsnesi. Frá Hvammstanga er boðið uppá selaskoðunarferðir þar sem jafnframt er hægt að renna fyrir fisk og njóta útsýnisins yfir landið frá sjó. Hægt er að fara í sérstaka miðnætursiglingu sem þykir hreint einstök upplifun.
    
aIMG_4092Söfn og gististaðir
Menningarsaga svæðisins er sömuleiðis áhugaverð en hér eru heimahagar Grettis Sterka og hér orti Skálda-Rósa sín þekktustu kvæði. Heimamenn standa ennfremur fyrir fjölda markaða og uppákoma. Ýmis söfn eru á svæðinu og ber þar helst að nefna Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum í Hrútafirði  og Selasetur Íslands sem heldur úti umfangsmikilli rannsóknarstarfsemi á selastofninum og býður uppá afar áhugaverða sýningu um selinn.  
kirkjuhvammur2ofeigur1sveitin5Í Húnaþingi vestra eru ótal gististaðir. Á Hvammstanga, Dæli, Sæbergi og Laugarbakka eru tjaldstæði með frábærri aðstöðu en auk þess eru ófá farfugla- og gistiheimili á svæðinu þaðan sem hægt er að sækja ýmsa afþreyingu svo sem útreiðar, fugla- og selaskoðun, gönguferðir eða heimsókn í sundlaugina á Hvammstanga. Á Laugarbakka má einnig finna Hótel Eddu sem veitir gestum úrvalsþjónustu. Allar nánari upplýsingar má nálgast í Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Hvammstanga í húsnæði Selaseturs Íslands.
www.northwest.is
[email protected]
Tel: 4512345