Hvernig varð Ásbyrgi til?

Ásbyrgi er eitt af mestu náttúruundrum Íslands, og er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, okkar stærsta. Þessi hóflaga hamrakví er 3,5 km / 2.1 mi löng og 1,1 km / 0.7 mi breið, hæðin á berginu þar sem það er hæst í botninum eru 98 m / 322 feet. Bergið í veggjunum rann frá gígnum Stóravíti efst á Þeistareykjabungu fyrir 11 þúsund árum, og er dyngjuhraun eins og hraunið í gosinu nú í Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Tvær tilgátur eru um tilurð Ásbyrgis, að tvö hamfarahlaup hafi orðið í Jökulsá á Fjöllum, sem er steinsnar frá, það fyrra fyrir 9000 árum og það seinna fyrir 3000 árum. Síðari tilgátan, sem margir telja mun líklegri er að Sleipnir, hestur Óðins hafi stigið fast niður fæti á ferð sinni um lönd og höf. Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis, eins og sést vel á þessari mynd sem var tekin 3 mínútum fyrir miðnætti.

Ásbyrgi

Ásbyrgi 28/06/2021  23:57 20mm

Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson