Fyrirtækið Icepack var stofnað árið 2011 og hefur frá upphafi sinnt víðtækri þjónustu við matvæla- og drykkjarframleiðendur. Fyrstu rekstrarárin var megin áhersla starfseminnar á umbúðalausnir en síðan hefur starfsemin þróast umtalsvert og eru þrjár meginstoðir fyrirtæksins í dag þjónusta og sala á rannsóknarvörum tengdum gæðaeftirliti, ráðgjöf og sala á umbúðalausnum og alhliða þjónusta við ísframleiðendur.
Rannsóknarvörur fyrir gæðaeftirlit við matvælaframleiðslu er vaxandi þáttur
„Með auknum kröfum frá Matvælaeftirlitinu og innleiðingu staðla frá Evrópusambandinu hefur vitund um gæðaeftirlit í hver kyns matvælaframleiðslu stóraukist“ segir Einar Helgi Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi Icepack. Hann bendir jafnframt á að framleiðendur geti sparað stórfé með því að annast slíkt eftirlit sjálfir með notkun réttra tækja og prófa.
Þjónusta tengd gæðaeftirliti hefur vaxið fiskur um hrygg í starfsemi Icepack ekki síst þegar kemur að hreinlæti. Bættar hreinlætis- og gæðakröfur auka gæði framleiðslunnar og tryggja stöðugleika hennar.
„Við höfum einbeitt okkur að því að bjóða skilvirkar og einfaldar lausnir þegar kemur að hreinlæti og bakteríueftirliti. Hreinlæti dregur úr hættu á bakteríusmiti og er veigamikill þáttur við hvers kyns matvælaframleiðslu. Við bjóðum meðal annars svo kallaða ATP-mæla sem gefa tölfræðilegar niðurstöður um hreinlæti. Þá kemur skýrt í ljós hvernig sápur og hreinsiefni virka í raun og hvort efnin séu notuð rétt“ segir Einar Helgi.
Í dag getur Icepack boðið flestum framleiðendum eftirlitsbúnað hvort sem um hefðbundna matvæla- eða drykkjarframleiðslu ræðir, sjávarútveg eða jafnvel fóðurframleiðslu og kornrækt.
Mismunandi er eftir framleiðslu hvaða búnaður hentar hverju sinni. Við bjórframleiðslu er til dæmis hægt að fylgjast með hvort alkóhól-innihald bjórsins sé rétt, hvort hreinlætiskröfum sé framfylgt og hvort rétt hlutfall af vökva, bragðefnum, sykri og öðrum þurrefnum hafi ratað í lögunina. Samræmi er gríðarlega mikilvægur þáttur í allri framleiðslu og því þarf að fylgjast náið með framleiðslunni á mismunandi stigum til að tryggja að lokaafurðin verði eins og til er ætlast og í samræmi við merkingar á umbúðum. „Viðskiptavinurinn vill treysta því að bragðið af uppáhalds bjórnum hans sé alltaf eins” bendir Einar Helgi á.
Alhliða umbúðalausnir
Icepack hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að veita alhliða ráðgjöf og þjónustu í umbúðalausnum og býður fjölbreytt úrval glervara fyrir drykkjarvöru- og matvælaiðnað, pappírsumbúðir, plast og allt þar á milli.
„Ráðgjafaþátturinn sem tengist umbúðum er viðamikill hluti af starfsemi okkar þar sem viðskiptavinum er veitt aðstoð við að finna heppilega lausn á umbúðamálum. Hönnun sumra umbúða miðast við að hún pakkist vel, en umbúðirnar ráðast oftast að miklu leyti af vörunni sjálfri. Sumar vörur þola að vera í dýrari og fallegri umbúðum, sumar vörur seljast eftir útliti umbúðanna. Það er mikil samkeppni á þessum markaði en einnig mikil fjölbreytni.“ Einar Helgi bætir við að umbúðir geti haft gríðarlega mikið að segja um gengi nýrra vara á markaði og því sé mikilvægt að umbúðamál séu vel ígrunduð.
,,Við fylgjumst mjög vel með því sem er að gerast í kringum okkur og reynum að vera frjóir og kynna fyrir framleiðendum nýjungar í umbúðageiranum á hverjum tíma. Þegar umbúðir eru valdar þarf að huga að mörgu. Það skiptir t.d. máli hver líftími vörunnar er. Það þýðir ekki að minni áhersla sé lögð á umbúðir fyrir vöru sem hefur styttri líftíma, heldur þarf að tryggja að umbúðirnar stuðli að því að lengja líftíma slíkrar vöru sem mest. Sem dæmi má nefna að í ferskvöru þarf oft að gæta þess að lágmarka súrefni í umbúðunum,” segir Einar Helgi.
Umhverfisvænar umbúðir eru í sókn
Einar Helgi segir að talsvert sé um umhverfisvænar umbúðir enda er framleiðsla á slíkum umbúðum í sífelldri þróun og aukist stöðugt. Neytendur kalli einnig í auknum mæli eftir umhverfisvænni neysluvarningi. „Þróunin í umbúðalausnum í dag er mjög hröð og ,,grænar“ umbúðir verða sífellt samkeppnishæfari.“ Hann bendir á að glerumbúðir séu mjög umhverfisvænar og 100% endurvinnanlegar. Meirihluti alls glers er endurunnið og því henti þær markaðinum vel.
Samstarf við stærsta ísvélaframleiðanda heims
Þriðji megin þáttur starfsemi Icepack er þjónusta við ísframleiðendur en Icepack flytur inn tækjabúnað og fylgivörur frá Carpigiani á Ítalíu, sem er stærsti ísvélaframleiðandi í heiminum. Ís úr slíkum vélum er meðal annars hægt að fá í Perlunni, Ísbúðinni Paradís, Bada Bing og á KFC. Innan skamms geta farþegar í Leifstöð einnig gætt sér á ísnum. „Ítalskur ís eða „gelato“ er í mikilli sókn um þessar mundir og í nægu hefur verið að snúsast fyrir okkur á þeim markaði,“ segir Einar og bætir við að hann sé afar stoltur af þeim þætti starfsemi Icepack.
[easymedia-fotorama med=“31878,32097,32099″]
[table caption=“Hafðu samband – Icepack ehf“ class=“row-fluid“ border=“5″ width=“100%“ colwidth=“50% | 50% “ colalign=“ center | center“] Krókhálsi 4 ◦ 110 Reykjavík,[email protected] www.icepack.is,tel: +354 511 2090 [/table] |