Ísland er góður staður að skrifa á

Dagmar Trodler kom til Íslands fyrir þremur árum. Hún er rithöfundur og áhugi hennar á sögu, skandinavískum fræðum og hestum var kveikjan að því að hún kom til Íslands. Dagmar sér um þýsku útgáfu Icelandic Times og nýtur þess að takast á við blaðaskrif og að kynna löndum sínum ferðamannastaði hér á landi.
KataBuska
Stundum taka örlögin í taumana og leiða fólk í allt aðra átt en upphaflega var ráðgert. Dagmar fæddist árið 1965 í Duren í Rínarlöndum. Að skyldunámi loknu lærði hún hjúkrun en meðan hún var lærlingur á spítala kynnti hún sér sögu, listasögu, guðfræði, skandinavísk fræði og fleira sem vakti áhuga hennar. Hestamennska var og er henni ástríða og hún skrifaði um hesta í þýsk blöð á þessum árum.
4
Hún skrifaði fyrstu söguna sína 13 ára með penna og var að eigin sögn í beinni samkeppni við Enid Blyton. En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Dagmar hefur gefið út átta bækur. Skáldsögur sem gerast á miðöldum og eina bók um Ísland. Nýjasta bók hennar kom út í febrúar og fjallar um kvenfanga í Ástralíu árið 1812.

„Ég er búin ad vera á Íslandi í 3 ár núna,“ segir hún.  „Ísland er besti staður til þess að skrifa og lifa í friði. Ég á heima á Skeiðum, milli Selfoss og Flúða og nýt lífsins úti í nátttúrunni með hestunum mínum.“

Hún segist ekki vera á förum héðan og hlakka til að takast á við það verkefni að kynna ferðamönnum möguleikana sem Ísland býður. Henni þykir einnig óskaplega gaman að skrifa sögur og hyggst halda því áfram. Dagmar er orðin ansi íslensk í sér því hún hefur tekið sér að lífsmóttói hið velþekkta viðhorf Frónbúans: „Þetta reddast.“ Að hennar sögn er lífið litríkt og um að gera að lifa því í sátt við sjálfan sig og náttúruna.

Author

  • Editorial

    Icelandic Times Magazine - the only magazine in Iceland published in English, German, French and now Chinese. Icelandic Times Magazine's sister publication Land og Saga is published in Icelandic.

    View all posts
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0