Ísland er góður staður að skrifa á

Dagmar Trodler kom til Íslands fyrir þremur árum. Hún er rithöfundur og áhugi hennar á sögu, skandinavískum fræðum og hestum var kveikjan að því að hún kom til Íslands. Dagmar sér um þýsku útgáfu Icelandic Times og nýtur þess að takast á við blaðaskrif og að kynna löndum sínum ferðamannastaði hér á landi.
KataBuska
Stundum taka örlögin í taumana og leiða fólk í allt aðra átt en upphaflega var ráðgert. Dagmar fæddist árið 1965 í Duren í Rínarlöndum. Að skyldunámi loknu lærði hún hjúkrun en meðan hún var lærlingur á spítala kynnti hún sér sögu, listasögu, guðfræði, skandinavísk fræði og fleira sem vakti áhuga hennar. Hestamennska var og er henni ástríða og hún skrifaði um hesta í þýsk blöð á þessum árum.
4
Hún skrifaði fyrstu söguna sína 13 ára með penna og var að eigin sögn í beinni samkeppni við Enid Blyton. En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Dagmar hefur gefið út átta bækur. Skáldsögur sem gerast á miðöldum og eina bók um Ísland. Nýjasta bók hennar kom út í febrúar og fjallar um kvenfanga í Ástralíu árið 1812.

„Ég er búin ad vera á Íslandi í 3 ár núna,“ segir hún.  „Ísland er besti staður til þess að skrifa og lifa í friði. Ég á heima á Skeiðum, milli Selfoss og Flúða og nýt lífsins úti í nátttúrunni með hestunum mínum.“

Hún segist ekki vera á förum héðan og hlakka til að takast á við það verkefni að kynna ferðamönnum möguleikana sem Ísland býður. Henni þykir einnig óskaplega gaman að skrifa sögur og hyggst halda því áfram. Dagmar er orðin ansi íslensk í sér því hún hefur tekið sér að lífsmóttói hið velþekkta viðhorf Frónbúans: „Þetta reddast.“ Að hennar sögn er lífið litríkt og um að gera að lifa því í sátt við sjálfan sig og náttúruna.