Viðtal við Hauk Harðarson aðaleiganda Arctic Green Energy

 

Ísland var eitt fátækasta land Evrópu um aldamótin 1900. Þjóðskáldið Einar Benediktsson orti þá til þjóðar sinnar:

Þú fólk með eymd í arf !
Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,
litla þjóð, sem geldur stórra synda,
reistu í verki
viljans merki, –
vilji er allt sem þarf.

Og sannarlega létu Íslendingar hendur standa fram úr ermum með heimastjórn 1904 og fullveldi 1918. Reykvíkingar tóku Elliðaárvirkjun í notkun árið 1921. Landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson hafði kennt landnámsbæ við gufuna sem steig upp frá kvosinni. Litli höfuðstaðurinn út við ysta haf þurfti að takast á við svört kolaský sem grúfðu yfir bænum í stilltu veðri. Kolakraninn við höfnina var eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og mengun frá kolahitun húsa var Reykvíkingum þyrnir í augum.

Fullveldið veitti innblástur þrátt fyrir harðbýli og fátækt. Þjóðin átti gnægð vatns; kalt sem heitt í iðrum jarðar. Þjóðin átti vatnsföllin sem þjóðskáldin ortu um. Upp úr 1930 hófu Reykjavíkingar að hita hús sín með heitu vatni. Heitt vatnið streymdi úr iðrum jarðar. Um miðjan fjórða áratuginn reistu Reykvíkingar hinn glæsilega Austurbæjarskóla og hituðu með heitu vatni. Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, kom í heimsókn til Reykjavíkur í ágúst 1941 þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst. Hann hafði undirritað Atlantshafssamninginn ásamt Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseta. Churchill fór austur í Reykjadal í Mosfellssveit til að skoða jarðhitasvæðin og borholurnar.

HITAVEITAN TÓK YFIR KOLAHITUN

Útlitið var dökkt árið 1941 en lýðræðisþjóðir voru að ná vopnum sínum. Blessað stríðið hafði komið til Íslands og bundið endi á einangrun og kreppu. Íslenskir sjómenn sigldu með fisk til Bretlands og færðu fórnir en einangrun landsins var rofin. Þjóðin vann sjálfstæði 1944. Hitaveitan tók yfir kolahitun og Reykjavík varð hreinasta borg veraldar með heiðskíran himinn. Þjóðin virkjaði jökulvötnin og hóf framleiðslu á áli í Straumsvík sama árið og maður gekk fyrst tunglinu. „Lítið skref fyrir mann, risaskref fyrir mannkyn,“ sagði Neil Armstrong. Það var að sönnu risaskref fyrir Ísland sem fleytti þjóðinni út úr síldarkreppunni miklu þegar þjóðin fór á framfærslu Alþjóðabankans. Stóriðjan batt endi á landflótta, skóp ný störf og þekkingu sem fleytti Íslandi í fremstu röð jarðhitaþekkingar í veröldinni.

JARÐVARMI Í HENGLI OG SVARTSENGI

Þegar leið að aldarlokum hóf þjóðin að virkja háhitann á Nesjavöllum í Henglinum og Svartsengi á Reykjanesi og margfaldaði álvinnslu með stækkun Ísals, Norðuráls og Fjarðaráls. Rúmlega þriðjungur af orkuvinnslu landsmanna er frá jarðvarma og rest frá vatnsaflsvirkjunum. Ísland var leiðandi á veraldarvísu í sjálfbærri orku og virkjanir dreifðust um landið. Þjóðin uppgötvaði ábatann fyrir umhverfi og heilsu. Kynslóðir sem ólust upp við kolahitun fyrri tíðar voru þá að stíga sín síðustu skref. Þeim á íslensk þjóð mikið að þakka.

PÓLITÍSK ATÓMBOMBA

Við upphaf nýrrar aldar var mönnum ljóst að mikið og stórt tækifæri beið Reykvíkinga og Suðurnesjamanna. Verkfræðifirmað Enex Kína tók þátt í hitaveitu Ólympíuþorps Peking í tengslum við Ólympíuleikana 2008. Opinberir- og einkaaðilar voru að taka höndum saman um verkefni í Kína en háværar deilur risu og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur sprakk vegna svokallaðs REI-máls. Hin pólitíska reykvíska atómbomba sprakk í kjölfar heimsóknar Jing Zemins forseta Kína til Íslands. Afar góð samskipti höfðu tekist milli Íslands og Kína milli þáverandi forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, og kínverska forsetans, Jing Zemins.

Tímans elfa varð ekki stöðvuð þó pólitíkin væri vanhæf til þátttöku og mikið tjón ynnist. Mál töfðust um nokkur ár en í kjölfar hrunsins brettu menn upp ermar. Haukur Harðarson eignaðist Enex Kína og nefndi Arctic Green Energy. Árið 2011 hófst formleg samvinna Arctic Green Energy við stærsta fyrirtæki Kína og hið þriðja stærsta í heimi; Sinopec Group.

Upphafið. Fu Chengyu og Haukur Harðarson skrifa undir samkomulagið að viðstöddum
varaforsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur og núverandi
forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti Sinopec Green Energy.

SINOPEC GREEN ENERGY STOFNAÐ Í REYKJAVÍK

Sinopec Green Energy var stofnað í Reykjavík árið 2011 að viðstöddum forsætisráðherrum þjóðanna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Wen Jiaboa. Leiðtogar Íslands og Kína voru áhugasamir um samvinnuna sem tekist hafði á sviði jarðvarmaorku. Síðar fór Ólafur Ragnar Grímsson forseti í heimsókn til Sinopec Green Energy í Kína þar sem Haukur Harðarson og samstarfsmenn tóku á móti forsetanum.

Velgengni Sinopec Green Energy í Kína hefur verið framar vonum. Jarðvarmabylting á sér stað í Kína; ekki ólíkt byltingunni á Íslandi. Sinopec Green er nú stærsta jarðvarmafyrirtæki veraldar með liðlega 520 hitaveitur í yfir 60 borgum og héruðum Kína. Það er einkum í Hebei, Shannzi, Shanxi, Shandong og Tianjin. Nú er verið að reisa fyrstu „reyklausu“ borg Kína, Xiongan útborg Beijing. Kínverjar eru metnaðarfullir og ætla Xiongan að vera veröldinni fyrirmynd.

Haukur Harðarson segir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi leikið lykilhlutverk við að byggja upp jarðvarmasamstarf Íslands og Kína. „Ólafur Ragnar hafði skýra sýn og sérstöðu til umhverfismála meðal leiðtoga heims löngu áður en þau komust í hámæli og tísku. Hann tók kyndil umhverfismála inn á hið stóra svið Arctic Circle-ráðstefnunnar í Reykjavík og kom málefnum Norðurslóða á dagskrá í höfuðborgum heimsins. Ólafur Ragnar er frumkvöðull í umhverfismálum og var löngu á undan öðrum,“ segir Haukur.

Hann segir að Norðurslóðaráðstefnan Arctic Circle Assembly sé mikilvægur vettvangur fyrir Arctic Green Energy sem kjósi að nota Arctic Circle-ráðstefnur til að ganga frá mikilvægum samningum sem og til að deila þekkingu sem fengist hefur í Kína og víðar um Asíu.

JARÐVARMABYLTINGIN Í KÍNA

Sinopec Green Energy hefur dregið umtalsvert úr kolefnisútblæstri í Kína. Fyrirtækið er frumkvöðull í jarðvarmavirkjun í Kína og hitar yfir 50 milljón fermetra af húsnæði með yfir tvær milljónir viðskiptavina við 400 hitaveitur. Þetta hefur gerst á aðeins nokkrum árum. Enginn einn aðili í Kína hefur dregið jafn mikið úr mengun og gróðurhúsalofttegundum eins og Sinopec Green Energy. Þannig hefur íslenskt frumkvæði og þekking nýst Kínverjum afar vel.

Sinopec Energy er með um 40% markaðshlutdeild í Kína og er leiðandi á markaðnum. Sinopec vinnur nú að hitaveitu í útborg Peking, Xiongan, sem er fyrirmynd að grænum framtíðarborgum Kína. Fyrirtækið er hið fyrsta til að fá umhverfisviðurkenningu Sameinuðu þjóðanna; handhafi yfir 50 einkaleyfa. Kína hefur tekið stórbrotinn árangur Íslands sér til fyrirmyndar; hin hljóðláta græna jarðvarmabylting Kína er á grunni íslenska módelsins.

ÍSLENDINGURINN Í SAIGON

Maðurinn á bak við Arctic Green Energy er Haukur Harðarson fjölskyldumaður sem búið hefur í Saigon, Víetnam, með hléum frá 1992. Hann hefur verið í Saigon síðan 2008 og er menntaður arkitekt. Hann teiknaði byggingu sem allir kannast við; Kauphöll Íslands á Suðurlandsbraut eða Reykjavík Stock Exchange.

Arctic Green Energy hefur höfðustöðvar í Singapor og vinnur að verkefnum í Víetnam, Singapore og Kazakstan. Nú er verið að vinna að landnámi í Evrópu og Mið-Asíu með hinum ýmsu samstarfsaðilum í hverju landi og auðvitað stórum verkefnum í Kína.

Blaðamaður og útgefandi Icelandic Times hittu Hauk Harðarson á skrifstofu Arctic Green á Íslandi: „Sinopec Group hefur reynst afar öflugur og farsæll samstarfsaðili. Arctic Green leggur fram íslenska jarðvarmaþekkingu og árangurinn er framar vonum. Við höfum sýnt fram á getu okkar og gæði íslenskrar þekkingar. Jarðvarmi hefur sýnt sig vera lykilþáttur í orkuskiptum sem veröldin stendur frammi fyrir; spúandi reykháfar hverfa í borgum og jarðvarmi er áhrifaríkasta vopn alþjóðasamfélagsins í baráttu gegn mengun sem og fyrir loftlagsbreytingum,“ segir Haukur.

Haukur bendir á að um það bil helmingur af allri orkunotun heimsins sé til húshitunar. Borgir nota um 70% orku og húshitun er stærsti þátturinn. „Þegar við greinum, svo dæmi sé tekið, orkunotun dæmigerðs heimilis á norðurhveli jarðar þá kemur í ljóst að yfir 80% er til hús- og vatnshitunar. Ljós og hin ýmsu heimilistæki nota innan við 20% og umferðin 4%. Það gefur auga leið að það er risaverkefni að draga úr notkun kolefna við húshitun. Sérþekking Íslands er þar lykilatriði,“ segir Haukur.

ÍSLENSK FYRIRTÆKI ÚTILOKUÐ

Arctic Green Energy og samstarfsaðilar hafa fengið verkefnalán frá Asíska þróunarbankanum en þar sem Ísland er eina ríkið innan OECD sem er ekki meðlimur Asíska þróunarbankans þá geta íslensk verkfræðifyrirtæki ekki verið þátttakendur í verkefnum sem fjármögnuð eru af bankanum. „Þetta er undarleg staða og heldur samstarfsaðilum okkar – íslenskum verkfræðifirmum – utan verkefna sem við komum að í Asíu. Ég legg eindregið til að íslensk stjórnvöld leysi þennan hnút og styðji þannig íslensk verkfræðifirmu á alþjóðlegum markaði; stærsta jarðvarmamarkaði veraldar sem auðvitað er Asía,“ segir Haukur Harðarson. -HH