Keldur á Rangárvöllum sjá bæjarhlað. 1947. Ljósmynd : Sandvik

Keldur á Rangárvöllum

Keldur eru bær og kirkjustaður á Rangárvöllum. Þar var jafnan stórbýli fyrr á öldum. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka.

Fyrsti bóndi sem getið er um á Keldum var Ingjaldur Höskuldsson og kemur hann við sögu í Njálu. Ýmsir bardagar sem segir frá í Njálu voru háðir í landi Keldna. Seinna var jörðin eitt af höfuðbólum Oddaverja. Jón Loftsson eyddi elliárunum þar og er talinn grafinn á Keldum. Hann ætlaði að stofna þar klaustur en það komst aldrei á laggirnar. Á 13. öld bjó Hálfdan Sæmundsson, sonarsonur Jóns, á Keldum ásamt Steinvöru Sighvatsdóttur konu sinni, sem var mikill skörungur.

Gamli bærinn á Keldum er talinn vera frá elleftu öld að stofni til og er því elsta hús sem enn stendur á Íslandi. Þar er nú minjasafn. Frá bænum liggja gömul jarðgöng að bæjarlæknum. Þau eru talin frá söguöld og voru týnd í margar aldir en fundust fyrir tilviljun á 20. öld.

Fyrir norðan Keldur var áður gróið land og þar voru áður nokkrar jarðir en nú eru þar hraun orpin sandi. Þetta svæði var gróið fram yfir miðja 19. öld en þá stórjókst sandfokið, sem talið er að hafi byrjað eftir Heklugosið 1511, þegar þykkt vikurlag lagðist yfir landið suður og suðvestur af Heklu; þá fóru Rangárvellir að blása upp og sú þróun hefur haldið áfram til þessa dags þótt baráttan við sandinn hafi skilað góðum árangri á síðustu árum. Á því landi sem nú er gróðurlaust voru áður margar jarðir og hafa allt að 18 bæjarrústir verið taldar í hinu mikla landflæmi sem tilheyrir nú Keldum.

Á Keldum hefur verið kirkja frá fornu fari og er henni nú þjónað frá Odda. Núverandi kirkja er lítil, byggð 1875 og er úr járnvörðu timbri.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0