LakiLakagígar er gígaröð á Síðumannaafrétti, um 25 km á lengd. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu til norðausturs og endar uppi í Vatnajökli. Gígaröðin dregur nafn af móbergsfjallinu Laka sem slítur hana sundur nálægt miðju.
Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Kallaðist það Síðueldur eða Skaftáreldar. Gosið hófst hinn 8. júní. Gaus fyrst úr suðurhluta sprungunnar, sunnan Laka, þar sem hét Varmárdalur. Var hann þá algróinn. Varmárdalur er nú fullur af hrauni. Hraunflóðið féll niður gljúfur Skaftár og fyllti það en rann síðan austur með Síðuheiðum og breiddist svo út á láglendinu. Annar hraunstraumur féll austur í farveg Hverfisfljóts og rann niður í Fljótshverfi.
Laki er kollóttur móbergshnjúkur (818 m y.s.) á Síðumannaafrétti.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
