Lesa allar greinar í blaði

Skoða PDF skrá

Skoða PDF á Issue

Ferðasumarið er  í háblóma. Þó Íslendingar kvarti yfir sólarleysi og vætutíð virðist það ekki hafa nokkur áhrif á þann flaum ferðamanna sem hingað streymir. Eyjan okkar trekkir að hvað sem öllu skýjafari líður. Hvert sem litið er má sjá opineyga gesti frá hinum ólíkustu stöðum á jarðkringlunni, klifjaða landakortum, vatnsflöskum og myndavélum. Fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri og eðlilega eykur það kröfurnar á okkur Íslendinga um að veita ólíkum hópum viðeigandi þjónustu.

Samhliða auknum áhuga ferðamanna á Íslandi hafa margvísleg spennandi tækifæri og möguleikar sprottið upp sem heimamenn hafa nýtt með aðdáunarverðum hætti. Við erum harðgerð þjóð sem hefur notið góðs af dugnaði og frjósemi í hugsun – framtakssemi einkaaðila um allt landi ber skýran vott um það. Þá vinna markaðsstofur landsins einnig ötult starf og styðja dyggilega við bakið á ferðaþjónsutaðiðlum. Markmiðið er sameiginlegt; að bæta þjónustu við ferðamenn svo upplifun gesta sé sem ánægjulegust og ekki síður að leitast við að ná fram hámarks arðsemi af greininni.

En það er ekki einungis áhugi erlendra ferðamanna sem hefur aukist síðustu misserin heldur virðast Íslendingar í auknum mæli kunna að meta kosti síns ágæta lands. Það sést best á fjölgun heimamanna sem kýs að verja sumarfríi sínu innalands og vill jafnframt sjá og upplifa það besta sem hver landshluti hefur upp á bjóða, líkt og erlendu gestirnir sem sækja okkur heim. Sumarlandinu, sem gefið er út af útgáfufélaginu Landi og sögu,  er ætlað að þjóna tilgangi kærkomins vegvísis fyrir innlenda ferðamenn sem vilja fræðast um þá fjölmörgu kosti sem landið býður upp á – og gera þeim þannig hægara um vik að nálgast þá þjónustu og afþreyingu sem hugurinn stendur til.

Segja má að blaðið sé nokkurskonar hliðstæða ferðaritsins Icelandic Times sem Land og saga hefur gefið út um fimm ára skeið.  Markmið Icelandic Times er að kynna fyrir erlendum ferðamönnum þá margbreytilegu þjónustu, afþreyingu og upplifun sem Ísland og Íslendingar hafa upp á að bjóða. Blaðið hefur dafnað jafnt og þétt með árunum í takt við aukinn ferðamannafjölda og kemur enska útgáfa blaðsins nú út fimm sinnum á ári en franska og þýska útgáfan árlega. Ritinu, á öllum tungumálum,  er dreift frítt um allt land þar sem það liggur hvarvetna frammi á fjölförnum stöðum þar sem gestir geta nálgast þau endurgjaldslaust.

Núorðið er veglegri útgáfa blaðsins einnig fáanleg í öllum betri bókabúðum. Í haust mun starfsemi blaðsins svo aukast enn frekar með glænýrri útgáfu á kínversku. Kínverjar eru ört stækkandi hluti þess hóps sem hingað sækir og er augljós þörf á að mæta þeirri aukningu með vönduðu kynningarefni í viðeigandi formi. Enda hlýtur það að vera metnaður, löngun og vilji okkar allra að þjónusta þann hóp af fagmennsku og gleði. Á því leikur enginn vafi að innlendir sem erlendir ferðamenn hafa mikinn áhuga á að nýta sér umfjöllun af þessu tagi. Og á meðan svo er mun Land og saga halda áfram að teygja sig í þær áttir sem eftir því kalla og laga sig að þörfum þeirra mörgu og ólíku gesta, sem og heimamanna, sem vilja kynnast því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Gleðilegt ferðasumar!

Lesa allar greinar í blaði

Skoða PDF skrá

Skoða PDF á Issue