Reykjahlíð

Loftmynd frá 1954. Hér má m.a. sjá nokkur af þeim býlum sem byggð voru á þessum slóðum á fyrstu áratugum 20. aldar.

Loftmynd frá 1954. Hér má m.a. sjá nokkur af þeim býlum sem byggð voru á þessum slóðum á fyrstu áratugum 20. aldar. Upplýsingaskilti um Háteig og Sunnuhvol má finna á horni Háteigsvegar og Rauðarárstígs og um Eskihlíð við enda samnefndrar götu.

Í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. var farið að ræsa fram mýrarnar í landi Reykjavíkur og úthluta úr þeim ræktunarlöndum. Þessi lönd voru leigð með erfðafesturétti, sem þýðir að leigan gekk í erfðir. Á erfðafestulöndunum risu nýbýli þar sem hafin var túnrækt og búskapur í stórum og smáum stíl. Erfðafestubýlin gegndu mikilvægu hlutverki á sínum tíma þegar framboð á mjólkurvörum var lítið í Reykjavík.

Þegar ný hverfi tóku að rísa austan meginbyggðarinnar í Reykjavík um og eftir seinna stríð urðu flest þessara býla að víkja en í sumum tilfellum voru íbúðarhúsin sem þeim tilheyrðu felld inn í hina nýju byggð og standa þar enn innan um yngri hús.

Horft úr Öskjuhlíð norðaustur yfir Hafnarfjarðarveg 1924

Horft úr Öskjuhlíð norðaustur yfir Hafnarfjarðarveg 1924. Reykjahlíð má sjá fyrir miðri mynd. Á myndinni mótar fyrir járnbrautarspori sem liggur frá gröfunni til hægri á myndinni. Kaldavatnsgeymirinn á Rauðarholti, við Háteigsveg, sést í fjarska. Býlið Háteigur (gamli bærinn) sést lengsti til vinstri. (Ljósmynd: Peter J. Sørå)

Á Norðurmýrarblettum, sem úthlutað var í Norðurmýri og á svæðinu milli Rauðarárholts og Öskjuhlíðar, risu allmörg erfðafestubýli. Eitt þeirra var Reykjahlíð, sem stóð við austurenda Mávahlíðar þar sem gatan Stakkahlíð liggur nú. Þar reisti Gestur Guðmundsson (1889-1974) býli árið 1923 sem varð eitt af umsvifamestu sauðfjárbúunum í Reykjavík og var starfrækt allt fram á miðjan 7. áratug 20. aldar. Í Reykjahlíð reisti Gestur lítið steinsteypt íbúðarhús með áfastri hlöðu, fjósi og geymslu og bjó þar síðan með konu sinni Guðrúnu Ragnheiði Jónsdóttur (1887-1968) og sjö börnum. Þarna var Gestur með bæði kúa- og sauðfjárbúskap og flutti mjólk til bæjarbúa á hestvögnum. Í lok 5. áratugarins var hann orðinn stærsti fjárbóndinn í Reykjavík með 120 fjár.  Á þeim tíma var vesturhluti Hlíðahverfis fullbyggður og austurhlutinn að rísa. Áformað var að leggja götuna Stakkahlíð þvert yfir bæjarstæði Reykjahlíðar, en býlið stóð þó enn um sinn og gatan var lögð að því úr báðum áttum. Sauðfjárbúskap rak Gestur áfram í Reykjahlíð allt til þess að borgarráð keypti land hans og hús árið 1964. Stuttu síðar voru bæjarhúsin í Reykjahlíð látin víkja og lagning götunnar Stakkahlíðar kláruð. Í vesturhluta hverfisins er gata sem hlaut nafngiftina Reykjahlíð.

Loftmynd af Hlíðarhverfi 1961

Loftmynd af Hlíðarhverfi 1961. Hér má sjá hvernig hverfið hefur byggst upp í kring um Reykjahlíðarbæinn. (Ljósmynd: Gunnar Rúnar Ólafsson)

Hlíðahverfi 1955

Hlíðahverfi 1955. Fremst á myndinni má sjá hvar fjölbýlishús við Bogahlíð er í byggingu. Til vinstri sést býlið Reykjahlíð, sem stóð í götustæði Stakkahlíðar. Fjær eru íbúðarhús við Mávahlíð og Barmahlíð. (Ljósmynd: Borgarskipulag)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is