Lesa allar greinar í blaði Skoða PDF skrá
Það er ánægjulegt að ferðaþjónustan á Íslandi skuli blómstra á tímum sem þessum. Það er sama hvert litið er alls staðar eru menn að skapa skemmtilegt og gott umhverfi fyrir fólk að njóta. Lífsneistinn er fyrir hendi þrátt fyrir kreppuna og menn ferðast um Ísland sem aldrei fyrr. Eins og þetta blað sýnir eru möguleikarnir óþrjótandi. Alls staðar er hægt að finna eitthvað við sitt hæfi bæði í náttúrunni og menningunni. Þjónustan á flestum stöðum er til fyrirmyndar og meira að segja minnstu þorpin bjóða upp á allt til alls. Víða um land er lögð sérstök áhersla að bjóða upp á hráefni úr héraði, bæði beint til neytendar og á veitingastöðum. Fólk tínir jurtir úr nærliggjandi skógum og nýtir til matargerðar, notar fiskinn úr ám og vötnum í nágrenninu og kjöt frá næsta bónda. Þetta er virðingarvert framtak að nýta á þennan hátt okkar eigin afurðir. Menningin blómstrar sem aldrei fyrr og á flestum stöðum er úr mjög mörgu að velja. Listsýningar, tónleikar, bæjarhátíðir, leiksýningar, fjölskylduhátiðir, margvísleg söfn og margt fleira er í boði víða um land í sumar. Náttúran á Íslandi er stórbrotin og fyrir náttúruunnendur er þetta góssenland. Ný áhersla í ferðaþjónustunni eru jöklagöngur. Menn segja að við getum orðið eins og Alpalöndin því hér séu jöklarnir ekki síður aðgengilegir en þar. Þetta verður spennandi og mun eflaust laða að erlenda sem innlenda ferðamenn. Við vonum að þetta blað geti orðið vegvísir fólks um landið og veiti jafnframt gagnlegar upplýsingar um möguleikana á hverjum stað. Góða ferð um Ísland. Einar Þorsteinn Þorsteinsson