Látum Varúðarregluna ráða

Látum Varúðarregluna ráða

  • Yfir 2000 rannsóknir sem sýna fram á mjög alvarlegar afleiðingar örbylgjumengunar þráðlausrar tækni eru hundsaðar og mikil heilsuvá fyrir höndum ef ekki verður þegar gripið til viðeigandi ráðstafana.

Geislabjörg, félag fólks sem vill standa vörð um rétt fólks til að lifa án rafsegulmengunar, hefur gefið út bækling sem nefnist Aðgátar er þörf. Þar eru ýmsar upplýsingar um hvers vegna aðgátar er þörf í umgengni við þráðlausa tækni og rafmagn. Þar er varað við afleiðingum rafsegulmengunar, vitnað í skýrslur og rannsóknir óháðra vísindamanna og gefin ráð um hvernig hægt er að draga úr rafsegulmenguninni í umhverfinu.   Það sem er þó mikilvægast í þessum málum, er að yfirvöld fari að kynna sér vandann og geri ráðstafanir til að draga úr þeirri hættu sem er verið að setja heilsu almennings í með þessari tækni og slælegum frágangi á rafmagni. Úrræða og aðgerða er þörf, nú, strax í dag.

geislabjorg jona agustaÁ meðan farsímamastursskógurinn vex hratt í landinu er engin umræða um afleiðingar þeirrar geislunar sem hann hefur í för með sér. Þó svo margir séu að veikjast og margir finni fyrir verulegum óþægindum vegna rafsegulmengunar virðist hvorki hlustað né tekið mark á þjáningum fólks. Það sem þó erfiðara að skilja er að ekki er tekið mark á rannsóknarniðurstöðum óháðra vísindamanna, heldur stuðst við niðurstöður rannsókna sem styrktar eru af hagsmunaaðilum, eins og til dæmis farsímafyrirtækjum. Á Norðurlöndum og hér á Íslandi er stuðst við viðmiðunarmörk um leyfilegan styrk sem byggjast á niðurstöðu rannsókna nefndar sem kallast ICNlRP (sem hefur setið undir ásökunum fyrir tengsl við farsímaiðnaðinn og afneitar öllum möguleikum á líffræðilegum áhrifum örbylgjugeislunar. Þær rannsóknir sem þessi nefnd styðst við og voru gerðar í upphafi þráðlausu byltingarinnar, miðuðust mörk til að varna bruna eða hitun við 6 mínútna samtal í farsíma. Nú býr fólk við geislun allan sólarhringinn frá farsímamöstrum, farsímum og þráðlausu neti. Þráðlausir símar og routerar geisla stöðugt á heimilum og fólk er ekki varað við mögulegum afleiðingum þess. Reglur Evrópusambandsins um að gæta skuli þess að hafa farsímamöstur í ákveðinni fjarlægð frá heimilum, skólum, húkrunar- og elliheimilum eru hundsaðar og reglugerðir varðandi frágang á jarðbindingum húsa eru hundsaðar. Á meðan eru stöðugt fleiri að veikjast og líða ólýsanlegar kvalir vegna rafsegulmengunar á heimilum og vinnustöðum. Viða erlendis hefur foreldrar og kennarar hafið baráttu gegn því að starfsfólk og nemendur séu útsett fyrir örbylgjugeislun. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir rafsegulmengun því geislunin getur haft skaðleg áhrif á ómótað taugakerfi þeirra. Þeir sem leita til yfirvalda og eftirlitsstofnanna mæta dónaskap og ekkert er gert úr áhyggjum þess, hvað þá hlustað eða staldrað við og málin könnuð. Nóg er til af rannsóknarniðurstöðum sem sýna fram á að það sé veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af þróuninni og afleiðingum þessara geislunar á lýðheilsu.   Það að halda því fram við fólk að geislunin sé langt undir viðmiðunarmörkum segir ekkert um þá hættu sem fólk er í sem býr nálægt farsímamöstrum og er með stöðuga geislun innandyra. Vísindamenn eru að mæla mismunandi alvarlegar afleiðingar slíkrar geislunar langt undir viðmiðunarmörkum. Því er það óskiljanlegt að yfirvöld og þær stofnanir sem eiga að gæta hlutleysis og standa vörð um hagsmuni almennings og þjóna honum skuli skirrast við að skoða málin og taka til greina þær afleiðingar sem núverandi ástand er þegar farið að hafa, og ennfremur áhyggjur vísindamanna af afleiðingum þeim sem eiga eftir að koma í ljós eftir tíu. tuttugu ár vegna þeirra geislunar sem fólk er að verða fyrir í dag. Það er óskiljanlegt að litið sé framhjá óteljandi rannsóknum sem sýna fram á fylgni á milli ýmissa áhrifa á heilsu fólks, geislunar frá farsímum, farsímamöstrum og rafsegulmengunar almennt, svo sem krabbamein, Alzheimer, ýmissa taugasjúkdóma og rafóþols. Hér eru sett upp mörg möstur í einu og sama hverfinu, þau eru sett á skóla, elliheimili og sjúkrahús. Hér verja Geislavarnir Ríkisins, Vinnueftirlitið og Húsnæðismálastofnun slíka gjörð, og gert er lítið úr því heilsutjóni sem fólk telur sig verða fyrir og bendir því að leita orsakanna annarsstaðar, t.d. væri vert að snúa sér til sálfræðings. Meðan slíkur þvergirðingsháttur og varnarhættir eiga sér stað í þeim stofnunum sem málið varðar, vex vandinn. Þegar fleiri veikjast eru enn minni líkur á að heilbrigðiskerfið geti sinnt vandanum og enn frekari forföll verða á vinnustöðum. Það sem er alvarlegra, er að það er verið að ganga alvarlega á komandi kynslóðir og skaðinn getur orðið óafturkræfur þar þessi geislun veldur genabreytingum og genaskaða. Því er það ósk okkar að yfirvöld og almenningur fari að kynna sér þær rannsóknir sem eru þegar til. Varúðarreglan var samykkt í Ríó 1992 á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og felst í því að náttúran eigi að njóta vafans, að ekki megi nota skort á vísindalegri fullvissu um hugsanleg skaðleg áhrif sem rök til að fresta varnaraðgerðum. Samþykkt Varúðarreglunnar felur því í sér að sönnunarbyrði í umhverfismálum flytjist af tjónþola yfir á meintan tjónvald.

Hugsið ykkur ef það væru sett lyf út og svo þegar aukaverkanirnar færu að koma fram, þá væri sagt: „ Já en það er nú ekki ennþá nægilega sannað að þessi lyf séu að valda þessum einkennum.“ Það er það sem farsímaiðnaðurinn og yfirvöld skýla sér á bak við í dag og er bara hreint ekki líðandi.

Bæklinginn Aðgátar er þörf má nálgast á www.geislabjorg.is

Andrína Guðrún Jónsdóttir og Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir.