Laugahraun er eitt af meira en 10 hrafntinnu- og líparíthraunum sem runnið hafa eftir ísöld á Torfajökulssvæðinu. Þorvaldur Thoroddsen „fann“ þrjú þeirra seint á 19. öld og lýsti í ferðabók sinni og víðar — það voru Laugahraun, Námshraun og Dómadalshraun — en síðan hafa margir skrifað um þessi hraun og almennt um jarð- og landfræði svæðisins, þar á meðal nokkrar doktorsritgerðir.
Gossprunga Laugahrauns klýfur Brennisteinsöldu, líparítfjall myndað við eldgos undir jökli ísaldar. Sprungan er framhald gossprungu Veiðivatna, sem aftur er talin tengjast eldstöð í Bárðarbungu undir Vatnajökli norðvestanverðum.
Laugahraun er frá því um 1477.
Til Veiðivatnasprungunnar er nú rakið svart gjóskulag í jarðvegi á Norður- og Norð-Austurlandi sem féll í eldgosi kringum árið 1477. Um það gos eru engar ritaðar heimildir en tímasetningin er fengin út frá afstöðu gjóskunnar til annarra þekktra laga. Sigurður Þórarinsson taldi upphaflega að þessi gjóska væri upprunnin í Kverkfjöllum, en frekari kortlagning leiddi í ljós að um var að ræða gos á Veiðivatnasprungunni.
Laugahraun rann semsagt því sem næst árið 1477 í stórgosi þar sem basaltbráð úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu streymdi til suðvesturs um Veiðivatnasprunguna og allt inn í rætur Torfajökuls-eldstöðvarinnar. Á Veiðivatnasprungunni varð basaltískt gjóskugos sem myndaði fyrrnefnt gjóskulag, en þegar heit basaltkvikan braust inn í hálfbráðið, kísilríkt kvikuhólf Torfajökulseldstöðvarinnar kom hún af stað eldgosi sem meðal annars myndaði Laugahraun.
Annað sambærilegt gos varð árið 871; þá féll Landnámsaskan svonefnda, sem sjá má á landnámssýningunni í Uppsalakjallara og á Þjóðminjasafninu. Þá mynduðust Vatnaöldur og dökki hluti Landnámslagsins en ljósi hlutinn í líparít-gjóskugosi á Torfajökulssvæðinu.