Leita leiða til að þróa millilandaflug til og frá Austurlandi

jona039-1Sjálfseignarstofnununin Austurbrú var sett á fót vorið 2012 á grunni Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og Menningarráðs Austurlands og annast auk þess daglegan rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Yfir 30 stofnaðilar eru að Austurbrú. Þar má telja öll sveitarfélögin á Austurlandi, háskólar á Íslandi, helstu fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhaldsskólar og þekkingarsetur á Austurlandi. Þar sem Markaðsstofa Austurlands var felld undir Austurbrú þá sinnir sjálfseignarstofnunin heildarmarkaðsmálum ferðaþjónustunnar í landshlutanum. „Það er einstakt á Íslandi að málum sé þannig háttað að komið sé á fót stofnun á borð við Austurbrú. Þetta er þverfagleg nálgun á þróun og hefur að okkar mati gefist vel,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar.

austurland-land-og-saga-1

Kynna verður betur einstaka áfangastaði
Þegar kemur að markaðsmálum ferðaþjónustunnar þá er starfssvæði Austurbrúar frá Djúpavogi í suðri og norður í Vopnafjörð. „Ferðaþjónustan á Austurlandi markast dálítið af því að við erum nokkuð langt frá hringiðu ferðaþjónustu á Íslandi sem er suðvesturhornið. Til að skilgreina okkur betur þá höfum við verið að vinna að sérstöku verkefni sem heitir „Áfangastaðurinn Austurland.“ Þar erum við meðal annars að greina okkar sérkenni og marka stefnu um það hvernig við ætlum að vinna okkar mál í framtíðinni. Þetta verkefni er unnið að frumkvæði ferðamálasamtakanna hér á Austurlandi. Við hjá Austurbrú vinnum þetta með þeim.“
Jóna Árný segir að þetta verkefni sé mikilvægt til að vekja athygli á Austurlandi og því sem landshlutinn hefur upp á að bjóða. „Að mínu mati þá þarf að fara að horfa á að markaðssetja eða kynna út á við hina mismunandi áfangastaði Íslands. Við höfum staðið okkur vel í að kynna Ísland sem heild. Ef við ætlum að fá ferðamenn á svæði á borð við Austurland, Vestfirði eða Norðurland eystra, þá verðum við líka að fara að stíga næsta skref í þróuninni sem er að kynna einstaka áfangastaði innan Íslands. Við höfum horft á það hvernig við undirbúum okkur hér eystra fyrir slíka vinnu. Það höfum við gert með grasrótinni sem eru sjálfir ferðaþjónustuaðilarnir og samfélögin hér eystra.“ austurland-land-og-saga-3
Dýrmætrar reynslu aflað
Austurbrú hefur samhliða þessu unnið að áherslum varðandi uppbyggingu á millilandaflugi til og frá Egilsstaðaflugvelli. Það er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Austurlandi. „Það er orðin þörf fyrir að fjölga gáttum inn í landið. Við höfum lagt áherslu á að ein þeirra verði á flugvellinum á Egilsstöðum. Þetta skiptir ekki síst máli varðandi það að gera ferðaþjónustuna að heilsárs atvinnugrein,“ segir Jóna Árný. Hún bendir á að millilandaflugvellirnir úti á landsbyggðinni, svo sem á Akureyri og Egilsstöðum séu mannvirki sem séu til staðar. „Þetta eru innviðir sem við eigum. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að nýta þá eins og hægt er til að dreifa umferð ferðamanna um landið.“austurland-land-og-saga-4
Að byggja upp eftirspurn eftir ákveðnum svæðum svo sem á Austurlandi er þolinmæðisvinna. Áunnin reynsla af millilandaflugi á Austurlandi sýnir það og sannar. „Í sumar var farið af stað með leiguflug í samstarfi við ferðaskrifstofu og opnuð flugleið milli Lundúna og Egilsstaða í júlí og ágúst. Það gekk að mörgu leyti mjög vel en að sumu leyti verr. Það kom í ljós að Egilsstaðaflugvöllur, stoðkerfi og stjórnsýsla í kringum hann, er að öllu leyti mjög vel í stakk búinn að taka við millilandaflugi. Hins vegar hefur Keflavíkurflugvöllur mjög sterka markaðsstöðu. Á sama tíma og Lundúnaflugið hófst til og frá Egilsstöðum þá jókst mjög framboð á slíkum flugferðum um Keflavík. Það hafði áhrif á eftirspurnina. Hún varð ekki eins mikil og vonir höfðu staðið til,“ segir Jóna Árný og bætir við að dýrmætrar reynslu hafi verið aflað sem nýtist nú til að leggja mat á framhaldið.

Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir að ferðatímabilið á Austurlandi sé aðeins að lengjast. „Það helst í hendur við almenna aukningu í fjölda ferðamanna. Veturinn er þó enn mjög rólegur á þessu svæði.“

austurland-land-og-saga-6austurland-land-og-saga-5

Texti: Magnús þór Hafsteinsson

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0