Teigarhorn

Perlur Austurlands

Kannaðu fegurð Austurlands og komdu sjálfum þér á óvart

Djúpivogur
Djúpivogur – Ljósmyndari Jessica Auer

Austurland býr yfir einni mest hrífandi og stórbrotnustu náttúru Íslands þar sem göngumöguleikarnir eru óteljandi. Svæðið býður upp á tilkomumikið landslag með fjöllin í bakgrunni, þrönga firði og hrikalegar strandlengjur. Óspillt fegurð eins og hún gerist best. Ágætt er að líta yfir vefsíðuna www.austurland.is áður en Austurland er heimsótt, en hér að neðan eru nokkrir af hápunktunum. 

Mælt er með því að heimsækja Djúpavog, (tæplega 500 manna bæ) þar sem íbúarnir hafa stundað bæði fiskveiðar og viðskipti frá árinu 1589. Þar er gaman að rölta um og njóta andblæs bæjarins, en Djúpivogur er hluti af Cittaslow (alþjóðlegt tengslanet bæja þar sem gott er að búa). Bæir sem taka þátt í Cittaslow hreyfingunni leggja áherslu á ósvikna framleiðslu, heilnæman mat í anda „slow food“ stefnunnar, heillandi handverkshefðir, og umhverfisvernd í takt við gleðina sem hlýst af hæglátu og friðsælu hversdagslífi.

Fáskrúðsfjörður
Fáskrúðsfjörður – Ljósmyndari Jessica Auer

Fáskrúðsfjörður er annar smábær, svipaður að stærð og gjarnan kallaður „Franski bærinn“ í daglegu tali vegna þess að frá seinni hluta 19. aldar, allt til 1935, gerðu rúmlega 5000 franskir sjómenn út frá bænum og settu auðvitað svip sinn á bæjarlífið. Röggsamir að eðlisfari létu fransmennirnir byggja spítala og kapellu auk kirkjugarðs og gaman er að því að í bænum eru öll götuheiti bæði á íslensku og frönsku. Annars dregur bærinn nafn sitt af eyjunni Skrúði sem liggur úti fyrir firðinum, en sjófarendur fóru frá Skrúði. (Frá-Skrúðs-fjörður var hann mögulega nefndur upphaflega.)

Egilsstaðir – Ljósmyndari Jessica Auer

Egilsstaðir, staðsettir sunnan Lagarfljóts á Fljótdalshéraði – þar sem mætast þjóðvegir allra átta, er stærsti bær Austurlands – en íbúarnir eru um það bil 3000 að tölu. Á Egilsstöðum má finna alla þá þjónustu sem ferðalangar kunna að þurfa enda hefur bærinn þróast hratt síðastliðna áratugi sem helsta verslunar- og þjónustumiðstöð Austurlands. Lagarfljótið kannast margir við enda er ein goðsagnakenndasta skepna Íslands, Lagarfljótsormurinn, búsett þar. Hvað varðar notalegri baðstað má nefna Vök Baths, en sú perla er rétt fyrir utan Fellabæ sem staðsettur er hinum megin fljótsins. 

Fyrir þá sem hafa áhuga á að ferðast aðeins um austanvert hálendi Íslands er hægt að keyra t.d. rétt norðan við fjallið Snæfell og heimsækja heitar laugar Laugarfells. Þar er einnig skáli með gistirými fyrir tæplega 30 manns og möguleg umferð hreindýra. Heimsókn í Vatnajökulsþjóðgarð er svo eitthvað sem allir ættu að upplifa, enda einstakur á heimsvísu vegna jarðsögu sinnar, samspils jarðhita og jökuls. Hægt er að fá leiðsögn og fræðslu þegar svæðið er heimsótt.

Landslag Íslands er því miður fátækt af trjám. Þá kemur Hallormsstaðaskógur skemmtilega á óvart, enda stærsti skógur landsins, friðaður síðan 1905 og þjóðskógur. Þjóðskógar eru í eigu eða umsjón Skógræktarinnar og opnir öllum allan ársins hring. Hann stendur austan Lagarfljóts, um 25 km sunnan við Egilsstaði og þar má finna sum elstu og hæstu tré sinnar tegundar á Íslandi auk margvíslega trjátegunda, yfir 80 talsins. Í Hallormsstaðaskógi er boðið upp á tjaldsvæði og þykir næturdvöl þar afar notalegur kostur.

Seyðisfjörður
Seyðisfjörður – Ljósmyndari Jessica Auer

Sjöhundruð manna kaupstaðinn Seyðisfjörð má svo finna milli fjallanna Bjólfs 1085 m og Strandatinds 1010 m. Hann er þekktur fyrir margvíslega menningarviðburði og afslappað andrúmsloft umvafinn einstakri náttúrufegurð. Litskrúðug timburhús setja svip sinn á bæinn og frá höfninni siglir farþega- og bílferjan Norræna, til og frá Evrópu, með reglulegu millibili. Á Seyðisfirði eru nær ótakmarkaðir útivistarmöguleikar og fyrir göngugarpa má finna slóða bæði langa og stutta.

Appið Austurland

Ef þörf er á frekari upplýsingum eða aðstoð, þegar kemur að því að kanna töfra Austurlands, er hægt að hlaða niður appi sem heitir einmitt Austurland! Þar má finna yfirlit yfir skemmtilega staði, gönguslóða, sundlaugar, afslætti eða tilboð, þjónustu og tilkynningar. Austurlands-appið er í boði fyrir bæði forritin Apple og Android – og er mögulega eitthvað sem gæti orðið lúnum ferðalöngum að liði.

Austurland er algerlega þess virði að heimsækja og njóta þar til hins ýtrasta þeirrar stórfenglegu náttúru sem þar er að finna – gaman er að festa upplifunina á filmu, ganga um og draga djúpt andann. Falinn fjársjóður ef svo mætti segja!