tourism in iceland

Listfengt skáld af Langanesströnd

Leiðin liggur af Melrakkasléttu og um hinn víðlenda og grösuga Þistilfjörð. Margt ber fyrir augu, en við stöldrum lítt við fyrr en við komum til Þórshafnar. Þetta snyrtilega kauptún stendur við austanverðan Lónafjörð og skammt fyrir sunnan prestssetrið fornfræga Sauðanes sem fyrrum var eitt af þremur bestu brauðum landsins. Á Þórshöfn er gott skipalægi frá náttúrunnar hendi og þangað komu. kaupmenn á skipum sínum á fyrri öldum til að versla við heimamenn. Og seint á 19. öld tók svo að vaxa þar upp dálítið þéttbýli.mynd-thorshofn-greta

Nú er á Þórshöfn góð höfn og íbúarnir stunda þar sjávarútveg og fiskvinnslu, iðnað og verslun sem og ýmis þjónustustörf.langanes-jul13-457

Frá Þórshöfn höldum við austur eftir fremur lágum fjallvegi sem kallast Brekknaheiði. Langanes liggur til hafs á vinstri hönd. Á þeim mikla skaga á norðausturhorni landsins voru fyrrum allmargir bæir, en nú eru þeir flestir í eyði sem og útgerðarporpið Skálar austan á nesinu. Þar sem Langanes teygir sig lengst til hafs endar það að síðustu í mjóum og hömrum girtum rana sem heitir Fontur. Víða eru þarna mikil fuglabjörg og trjáreki sem og fleiri hlunnindi er dýrmæt þóttu á fyrri tíð. En nú komum við ofan af Brekknaheiði í Gunnólfsvík við rætur hins bratta og háa Gunnólfsvíkurfjalls. Fyrir fótum okkar liggur þá breiður Bakkaflóinn sem markast að norðan af Fagranesi og að sunnan af Digranesi. Inn úr flóanum ganga þrír stuttir firðir sem heita Finnafjörður, Miðfjörður og Bakkafjörður, en öll strandlengjan inn frá Bakkaflóa kallasteinu nafni Langanesströnd. Þetta er mikil og grösug sveit, en fremur strjálbýl, því að ýmsir bæir hafa farið í eyði á seinni tímum. Við Bakkafjörð norðanverðan er prestssetrið og kirkjustaðurinn Skeggjastaðir, en sunnan fjarðarins og skammt frá bænum Bakka er svolítið útgerðarþorp sem heitir Bakkafjörður.

Nokkru vestar og um miðbik Langanesstrandar stendur bærinn Djúpilækur. Þaðan var skáldið góðkunna, Kristján Einarsson, sem ætíð kenndi sig við æskuheimilið og nefndist Kristján frá Djúpalæk. Miklu innar í landinu og uppi við heiðarnar er eyðibýlið Kverkártunga þar sem ljóðsnillingurinn Magnús Stefánsson var í heiminn borinn seint á 19. öld. Sem skáld nefndi hann sig Örn Arnarson og varð einn af þekktustu sonum Langanesstrandarinnar:

Magnús Stefánsson fæddist í Kverkártungu á Langanesströnd 1884 og var yngstur í hópi sjö systkina. Foreldrar hans voru blásnauð og neyddust fljótlega eftir fæðingu þessa sonar sins til að bregða búi, enda gengu á þessum árum yfir landið einhver mestu harðindi sem sögur fara af. Þegar drengurinn var tveggja ára féll faðir hans frá. Móðir hans gerðist þá vinnukona á Þorvaldsstöðum í sömu sveit og í skjóli hennar ólst hann upp. Strax á barnsaldri vandist hann alls konar sveitastörfum og byrjaði einnig snemma að róa til fiskjar. En þennan unga pilt dreymdi snemma um að sjá sig eitthvað um í heiminum og helst að komast í skóla. Það var ekki auðgert lengi vel, en rúmlega tvítugur hleypti hann heimdraganum og var einn vetur við nám í unglingaskóla á Grund í Eyjafirði. Eftir það for hann til Hafnarfjarðar og lauk þar gagnfræðaprófi við Flensborgarskóla 1908.

Ekki lét hann þar staðar numið og hélt áfram námi í hinum nýstofnaða Kennaraskóla í Reykjavík og lauk þar kennaraprófi ári síðar. Veturinn eftir starfaði hann sem farkennari í Skeggjastaðaskólahverfi á Langanesströnd, en hvarf eftir það frá kennslu fyrir fullt og allt. Hagmælska var Magnúsi í blóð borin og fór hann snemma að fást við skáldskap. Fátæktar og erfiðrar æsku minnist hann sem og móður sinnar í kvæðinu Þá var ég ungur.
Hljóða tvö fyrstu erindi „Þá var ég ungur „ á þessa leið:

Hreppsómaga-hnokki
hírðist inni á palli,
ljós á húð og hár.
Steig hjá lágum stokki
stuttur brókarlalli,
var svo vinafár.
Líf hans var til fárra fiska metið.
Furðanlegt, hvað strákurinn gat étið.
Þú varst líknin, móðir mín,
og mildin þín
studdi mig fyrsta fetið.

Mér varð margt að tárum,
margt þó vekti kæti
og hopp á hæli og tám.
– Þá var ég ungur að árum. –
,,En þau bölvuð læti“,
rumdi ellin rám.
Það var eins og enginn trúa vildi,
að annað mat í barnsins heimi gildi.
Flýði ég til þín, móðir mín,
því mildin þín
grát og gleði skildi.

Á yngri árum stundaði Magnús margvísleg störf, meðal annars vegavinnu og verslunar- og skrifstofustörf. Hann var búsettur í Vestmannaeyjum á árunum 1911-18 og var þar lengst af sýsluskrifari. Eftir það fluttist hann til Hafnarfjarðar þar sem hann vann fyrst við skrifstofustörf og gerðist síðan bókavörður um árabil.

Fyrstu ljóð sín birti Magnús í tímaritinu Eimreiðinni 1920 undir dulnefninu Örn Arnarson. Tók hann sér síðan þetta nafn sem skáld og notaði það þegar ljóðasafn hans, Illgresi, kom fyrst út 1924. Sum af kvæðum Magnúsar hafa orðið vinsæl sem söngljóð og þar á meðal er erindið Sigling:

Hafið, bláa hafið hugann dregur.
Hvað er bak við ystu sjónarrönd?
Þangað liggur beinn og breiður vegur.
Bíða mín þar æskudrauma lönd.
Beggja skauta byr bauðst mér aldrei fyrr.
Bruna þú nú, bátur minn.
Svífðu seglum þöndum, svífðu burt frá ströndum.
Fyrir stafni haf og himinninn.

Þótt Magnús stundaði ekki sjómennsku að marki, hafði hann næma tilfinningu fyrir hafinu og öllu sem tengdist því. Allmörg kvæði hans fjalla um siglingar og sjómennsku. Frægast af þeim öllum er þó ljóðið Stjáni blái sem hefst á þessum erindum:

Hann var alinn upp við slark,
útilegur, skútuhark.
Kjörin settu á manninn mark,
meitluðu svip og stældu kjark.

Síðar í þessu magnaða ljóði segir frá hvernig síðustu siglingu Stjána bláa lauk:

Vindur hækkar. Hrönnin stækkar.
Hrímgrátt særok felur grund.
Brotsjór rís til beggja handa.
Brimi lokast vík og sund.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði beint á drottins fund.

Skáldið Magnús Stefánsson eða Örn Arnarson átti við vanheilsu að stríða þegar líða tók á ævina. Hann andaðist árið 1942, tæplega 58 ára að aldri.