Rauðanes við Þistilfjörð

Rauðanes
Skemmtileg gönguleið

Rauðanes í Þistilfirði er falleg og sérstæð náttúruperla. Um nesið er merkt gönguleið sem er um 7 km, liggur í hring og er auðfarin. Ráðlegt er að hafa með sér vatn, því drykkjarvatn finnst ekki á nesinu. Við mælum með því að þú takir þér góðan tíma í göngutúrinn um þessa einstöku náttúruperlu. Á nesinu er lyngmór allsráðandi en einnig er þar nokkurt graslendi.
Í byrjun gönguleiðarinnar er gengið fram á Háabjarg sem er um 60 metra hátt og í því sést hvernig berglögin hafa hlaðist hvert ofan á annað í aldanna rás.

Bergmyndanir og fuglalíf

Nesið er víggirt af háum og tignarlegum klettum, þar á meðal eru Lundastapar en í þeim er mjög fallegt stuðlaberg. Fyrr á árum var þar mikil lundabyggð en því miður komst minkurinn út í stapana svo nú sést þar varla lundi. Lundastapar eru út af Ytra-Undirlendi. Þar er gamalt tófugreni og þar er einnig mikil berjaspretta.
Kletturinn Gluggur er einstök náttúruperla. Þar hefur brimið náð að brjóta sér leið í gegnum hamravegginn og myndað helli. Síðar hefur innri hluti hellisþaksins fallið niður og eftir stendur fallegur steinbogi á bjargbrúninni.
Á austanverðu nesinu má sjá marga hella. Gegnum einn þessara hella er hægt að sigla, en aðeins á afar litlum bát. Þar skammt frá er einkar fallegur drangur sem heitir Brík.

Gatastakkur og Stakkarnir

Gatastakkur er sérkennilega lagaður en við eldgos hefur bergkvika runnið eftir glufum í mýkri jarðvegi og storknað þar. Með tímanum hefur svo jarðvegurinn veðrast utan af bergganginum og hann stendur einn eftir.
Í Stakkabásnum er að finna hellisskúta en inni í honum er rist í bergið nafnið Hannes. Sagan segir að rétt fyrir aldamótin 1900 hafi tveir sjómenn leitað sér skjóls þar í aftakaveðri. Þá risti annar þeirra nafn sitt og upphafsstafi félaga síns í bergið með vasahníf.
Á norðanverðu nesinu eru Stakkarnir. Þetta eru tveir stórir drangar sem rísa háir og tignarlegir upp úr sjónum.

Stakkatorfa

Í Stakkatorfu, er allmikil lundabyggð. Lundi er af svartfuglsætt og er ákaflega félagslyndur. Eitt sinn var brú út í Stakkatorfu og gengu þar kindur yfir, en hún hrundi fyrir nokkru.
Á vorin fyllast björgin af sjófuglum sem liggja á eggjum. Það er reglulegt ævintýri að fylgjast með fuglunum þar sem þeir fljúga hvíldarlaust með mat til unganna og hávaðinn er ótrúlegur.

Fallegt útsýni

Útsýni af nesinu er mjög víðfeðmt og af bjarginu upp af Æðarbásnum sést vel inn í Viðarvíkina vestan við nesið. Handan við hana rís Viðarfjallið. Milli Viðarfjalls og Loka sést inn í Kollavík. Utan við Loka er Krossavík, en svæðið þar utan við og allt út á Rakkanes er kallað afrétt. Í góðu skyggni sést yfir Þistilfjörðinn og út á Langanes.
Gönguleiðin endar á veginum í Velli og verður að ganga svolítinn spotta eftir honum til þess að komast aftur á bílastæðið þar sem ferðin hófst.

Ljósmyndir: Friðþjófur Helgason

Húsavíkurstofa: 464 4300 | Mývatnsstofa: 464 4390 | Gljúfrastofa: 470 7100 | info@nordausturland.is