Ljósá á Eskifirði . Elsta virkjun landsins

Árið 2004, þegar haldið var upp á 100 ára afmæli rafmagnsins á Íslandi, var lítið minnst á Ljósárvirkjun eða Rafveitu Eskifjarðar. Þó var virkjunin, sem gangsett var í nóvemberlok 1911, ein af fyrstu vatnsaflsvirkjunum sem reistar voru á landinu, sú fyrsta utan Hafnarfjarðar.

ljosa eskifirdi

Ljósárvirkjun var önnur í röð almenningsveitna og fyrsta rafveitan á Íslandi sem þjónaði heilu sveitarfélagi. Mynd: RARIK

Hún er jafnframt sú elsta sem hefur varðveist. Rafveita Eskifjarðar var önnur í röð almenningsveitna og fyrsta rafveitan á Íslandi sem þjónaði heilu sveitarfélagi. Í blaðinu Austra, sem gefið var út á Seyðisfirði, birtist athyglisverð grein 4. desember 1911. Þar segir frá raflýsingunni á Eskifirði og lokaorðin voru á þessa leið:

„Sneypulegt fyrir Seyðfirðinga að verða hér á eftir Eskifirði.“
 Seyðisfjarðarbær var í fararbroddi á landsvísu á ýmsum sviðum um þetta leyti, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum og fyrsta bæjarvatnsveitan kom þar, 1906. En bærinn hafði misst Eskifjörð fram úr sér í rafmagnsmálunum þegar hér var komið sögu. Sú skoðun hefur verið útbreidd að Ljósárvirkjun hafi verið of afllítil til að raflýsa Eskifjörð. Það stafar ekki síst af því að menn hafa talið hana aflminni en hún var.
Hún var 26 kW sem er heldur minna en afl Hörðuvallastöðvar í Hafnarfirði, sem var 37 kW en afl á hvern íbúa var þrefalt meira á Eskifirði heldur en í Hafnarfirði. Það var einnig meira á hvern íbúa þar heldur en á Seyðisfirði tveimur árum síðar, árið 1913, þegar Fjarðarselsvirkjun hafði verið gangsett. Vandi Eskfirðinga var að oft var lítið vatn í Ljósá á vetrum. Þeir ráku hana þó í hálfa öld.
Nú hefur RARIK ákveðið að gera þætti Eskfirðinga verðug skil í raforkusögunni með því að standsetja Ljósárvirkjun. Hófust framkvæmdir árið 2005 með viðgerð á tréverki stöðvarhússins.
Virkjunin er að mestu leyti upprunaleg, m.a. inntaksstíflan, aðrennslispípan og stöðvarhúsið. Ennfremur er ýmis búnaður í henni frá fyrstu tíð, m.a. mælataflan. Það sem vantar er meginhluti upprunalegu vélasamstæðunnar en líklega er hægt að hafa upp á samskonar vélum í Noregi ef leitað verður eftir því.