Á föstudaginn undirritaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fjárfestingarsamning við Matorku ehf. vegna fyrirhugaðrar fiskeldisstöðvar í Grindavík. Áætlað er að framleiðsla hefjist á þessu ári og fullum afköstum verði náð á árinu 2016. Áætluð ársframleiðslugeta er 3.000 tonn af eldisfiski og mun framleiðslan skapa 40 varanleg störf. Heildarfjárfesting fjárfestingarverkefnisins hljóðar upp á tæpar 1.430 m.kr.
Fjárfestingarsamningurinn miðar við að félaginu verði veittir afslættir af sköttum og gjöldum til samræmis við þær ívilnanir sem fram koma í frumvarpi til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem liggur fyrir á Alþingi. Ívilnanirnar eru jafnframt í samræmi við ívilnanir til annarra nýfjárfestingarverkefna sem eru í burðarliðnum og þá fjárfestingarsamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum misserum.
Matorka ehf, sem er í blönduðu eignarhaldi, Íslendinga og erlendra fjárfesta, hefur gert fjárfestingarsamning við Ríkisstjórn Íslands um ívilnanir til næstu 10 ára. Heildarsamningurinn hljóðar upp á 425 milljónir króna. Matorka ehf er fiskeldisfyrirtæki sem elur laxfiska á umhverfisvænan hátt með nýtingu jarðhita og annara sjálfbæra lausna.
Matorka mun byggja nýtt eldi í Grindavík og með samningi við HS orku er affall frá Svartsengi nýtt til framleiðslu. Matorka sérhæfir sig í landeldi, sem mengar ekki hafið og hefur ekki áhrif á villta laxastofna við Ísland.
Vatnstakan er hreint og ómengað sjóblandað vatn sem rennur undan hrauninu og því er ekki þörf fyrir sýklalyf né önnur varnarefni gegn laxalús.
Jarðhitinn frá Svartsengi mun gera félaginu kleift að framleiða mikið magn af hágæða laxfiski við kjörhitastig allan ársins hring.
Stafsemi fyrirtækjasamstæðunnar hefur verið síðan 2010 og unnið að sjálfbæru og umhverfisvænu fiskeldi. Með vaxandi íbúafjölda jarðar bætast við rúmlega 100 milljónir manns árlega – sem þurfa að borða. Vaxandi kaupmáttur í þróunarlöndum og hollustuleitandi vesturlandabúar auka eftirspurn eftir dýrapróteinum þar sem prótein úr fiski eru hágæða prótein og holl. Sér í lagi þar sem laxfiskur er ríkur af omega3 fitusýrum. Framleiðsla félagsins er seld erlendis, skapar mörg ný störf og gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.
Félagið rekur nú fyrir eldisstöð á Suðurlandi og þar eru seiðin fyrir Grindavík framleidd. Því mun slátrun úr nýju eldisstöðinni í Grindavík byrja í lok árs.
Á næstu vikum munu framkvæmdir við stærstu landeldisstöð landsins hefjast. Fullbúin verður framleiðslugetan 3000 tonn á ári. Stöðin er svokölluð fjöleldisstöð, þar sem ýmsar tegundir geta verið aldar við ýmis seltu og hitastig.