Nýr vefur fyrir framhaldsskólanema
Umræða um menntun hefur að undanförnu farið nokkuð hátt í samfélaginu og því miður hefur áherslan oft snúið að neikvæðum þáttum þessa mikilvæga málaflokks. En það er einnig mjög nauðsynlegt að tala um það sem jákvætt er og vel er gert því þar er líka af mörgu að taka. Þar má t.a.m. nefna alla þá áhugasömu og góðu kennara sem vinna langt umfram lögbundinn vinnutíma til að styðja nemendur og flott ungmenni sem vilja búa til betra samfélag og þar fram eftir götunum. Það er svo sannarlega nóg af góðum efnivið á Íslandi; það þarf bara að byggja betur í kringum þann efnivið svo að allir fái að njóta sín. Þá mun árangurinn fljótt skila sér.skola1

Á ferð okkar um netvegi fyrir nokkru rákumst við á nýja vefsíðu sem ber einfaldlega heitið framhaldsskoli.is. Var forvitni okkar strax vakin og eftir að hafa skoðað það sem okkur var heimilt á síðunni, því þetta er áskriftarvefur, ákváðum við að hafa samband við þá sem standa að síðunni og spyrja þá út í hana. Fyrir svörum varð Ingólfur Kristjánsson ritstjóri vefsíðunnar, en hann er einnig eigandi hennar ásamt Jökli Sigurðssyni.
Við byrjum á því að spyrja Ingólf hvers konar vefur framhaldsskoli.is sé.
– Framhaldsskoli.is er fyrst og fremst stuðningsvefur fyrir framhaldsskólanema og kennara ef út í það er farið. Þetta er áskriftarvefur sem kostar einungis 1490 kr. á mánuði fyrir einstaklinga og eitthvað meira fyrir skóla.

bakkabraedur

Ingólfur Kristjánsson ritstjóri vefsíðunnar

Og hvað geta þessir aðilar sótt á vefinn?
– Á vefnum er fjölbreytt úrval af efni sem getur nýst með ýmsu móti. Við bjóðum upp á stuðning við ákveðnar kennslubækur, kennslu í ákveðnum greinum s.s. stærðfræði, stafsetningu og íslenskri málfræði. Spyrillinn er einn stærsti pósturinn en hann samanstendur annars vegar af gagnvirkum fjölvalsspurningum úr völdum námsbókum til að þjálfa kunnáttuna og festa í minninu og þematengdum spurningum þar sem við einbeitum okkur að gagnlegum atriðum í náminu án þess að eyrnamerkja það ákveðinni bók. Þá bjóðum við upp á myndbandsskýringar í stærðfræði þar sem farið er yfir aðferðir í stærðfræðinni í stuttum fimm mínútna myndböndum. Svo geta áskrifendur nálgast mikinn fjölda af rafbókum og hljóðbókum, sem geta nýst með ýmsu móti, eins og þegar velja á kjörbækur. Við höfum lagt mikla vinnu í að hafa allt efnið aðgengilegt og auðskilið og gert það þannig úr garði að það henti öllum tækjum og tólum sem í gangi eru, hvort sem það eru fartölvur, spjaldtölvur eða símar. Þá er rétt að geta þess að nýtt efni kemur inn á vefinn tvisvar í hverri viku, venjulega á þriðjudögum og fimmtudögum og þannig byggjum við upp vefinn hægt og hljótt.
Auk þess geta nemendur sótt nokkrar kennslubækur á vefinn s.s. Njálu, Eglu, Snorra-Eddu og fleiri bækur þar sem unnið er með þær heildstætt. Þá er hægt að nálgast bókina í ólíkum útgáfum allt eftir því hvað hver og einn vill. Ein útgáfan er það sem við köllum vefútgáfa en þar geta nemendur nálgast gagnvirkar skýringar úr bókinni. Í slíkum tilfellum geta nemendur sleppt því að kaupa bókina og notað hana bara af vefnum. Í ofanálag geta þeir hlustað á bókina upplesna. Þannig geta þeir sparað með áskriftinni.sk

Og hvað er það sem nemendur nýta sér helst af þessu efni?
– Spyrillinn er þessa stundina vinsælastur og stærðfræðiskýringarnar. Þá er töluvert farið inn í málfræðina og stafsetninguna. Og svo eru nokkrir sem nýta sér hljóðbækurnar og rafbækurnar sem mér finnst sérstaklega skemmtilegt.
Hvernig stóð á því að þið fóruð út í að gera þennan vef?
– Þannig er mál með vexti að við Jökull höfum nú í 16 ár rekið vefinn Skólavefurinn.is með góðum árangri. Það er vefur fyrir grunnskóla og grunnskólanemendur þar sem bæði er boðið upp á heildstætt námsefni og stuðningsefni í flestum námsgreinum. Margir áskrifendur sem höfðu nýtt sér Skólavefinn fóru þess á leit við okkur að við fylgdum þeim upp í framhaldsskólann og okkur var ljúft að gera það, en vissulega útheimtir þetta mikla vinnu þar sem áherslur framhaldsskólans eru að mörgu leyti ólíkar þeim í grunnskólunum. Það þurfti líka að fá kennara á framhaldsskólastigi til að vinna efnið og þar fram eftir götunum. En fyrst og fremst er vefurinn tilkominn vegna þess að margir kölluðu eftir honum og þá er enginn sambærilegur vefur til fyrir framhaldsskóla sem er náttúrulega ekki nógu gott.
Og hvernig hafa svo móttökurnar verið?
Þær hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Það verður að segjast eins og er. Þrátt fyrir að við höfum lítið sem ekkert auglýst vefinn hafa nemendur einhvern veginn þefað hann uppi. Skólarnir virðast líka vera áhugasamir en við erum þessa dagana að kynna hann fyrir skólum og hafa viðbrögðin bara verið jákvæð. Það hjálpar líka til að við reynum að hafa áskriftarverðið lágt þannig allir geti gerst áskrifendur.
Við þökkum Ingólfi greinargóð svör og óskum honum og vefnum hans velfarnaðar um leið við hvetjum alla til að kynna sér þessa jákvæðu nýjung.