Ólafur Ragnar Grímsson á Arctic Circle Assembly í Hörpu
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands 1996-2016 setti Hringborð heimskautsins 2019 [Arctic Circle Assembly] í Reykjavík í annarri viku október frammi fyrir tvö þúsund þinggestum sem troðfylltu Hörpu. Hringborðið var haldið í sjöunda sinn og vöxtur og viðgangur þess meiri en nokkru sinni. Arctic Circle Assembly er eina árlega alþjóðaráðstefnan sem fest hefur rætur hér á landi. Jafnan er fylgst grannt með henni í höfuðborgum stórvelda heimsins. Ráðstefnan er stórbrotið verk Ólafs Ragnars sem á alþjóðavettvangi hefur skipað sér í fremstu fylkingu stjórnmálamanna 21. aldar.
Fylgst er með ráðstefnunni í höfuðborgum vítt og breitt um veröld. Ríkisstjórn Donalds Trump forseta Bandaríkjanna sendi orkuráðherra sinn, Rick Perry, að eigin frumkvæði til þess að ávarpa ráðstefnuna og John Kerry fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna veitti viðtöku heiðsursverðlaunum Hringborðsins. Báðir fluttu þeir magnaðar ræður sem endurspegluðu gjá milli fylkinga vestanhafs. Hringborð heimskautsins verður haldið í Berlín vorið 2020, Tokyo í haustdögum og viðræður við frönsk stjórnvöld um París vorið 2021.
„Okkur hefur tekist að halda vexti Hringborðs heimskautsins. Arctic Circle Assembley er öflugasti umræðuvettvangur heimsskautasvæða. Fyrir tveimur áratugum voru Heimsskautasvæðin tiltölulega óþekkt en eru nú hið nýja geopólitíska svæði þar sem allar helstu þjóðir heims leitast eftir setu. Í Norðurskautsráðinu [Arctic Council] hafa átta þjóðir sett ramma um samvinnu á Norðurslóðum og Arctic Circle Assembly er vettvangur þar sem allir hafa rétt til að leita svara með spurningum til ráðamanna,“ sagði Ólafur Ragnar við setningu ráðstefnunnar.
Vettvangur friðar en ekki pólitískrar glímu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kvað mikilvægt að heimskautasvæðin séu vettvangur friðar og samvinnu en ekki pólitískrar glímu. Ísland hafi grænar áherslur og fólk í öndvegi sem og hafið. Þessar áherslur endurspegla formennsku Íslands í Heimskautaráðinu [Arctic Council]. Nýjustu vísindarannsóknar staðfestu að loftslagshlýnun er jafnvel meiri en áður var spáð; bráðnun heimsskautaíss hraðari og hækkun yfirborðs sjávar. Hafið taki í sig CO₂ og dragi í sig hita. Með tveggja stiga hlýnun yrðu heimsskautasvæðin óþekkjanleg. Ísland líkt og heimskautasvæðin er viðkvæmt fyrir breytingum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.
Katrín sagði að þegar hún hitti íslenska sjómenn væru loftlagsbreytingar helsta áhyggjuefnið. Sjómenn fylgdust vel með umræðu og pólitík og krefðu stjórnmálamenn svara. Katrín gerði súrnun hafsins og bráðnun jökla að umtalsefni og rifjaði upp för sína með Mary Robinson fyrrverandi forsætisráðherra Írlands að Oki þar sem eitt sinn var jökull en nú vatn í eldgígnum sem vissulega væri fallegt en skuggi væri yfir þeirri fegurð.
„Vísindamenn geta ekki sagt til um hvenær bráðnun Grænlandsjökuls og Suðurskautsvæða verði svo mikil að ekki verði aftur snúið. Sú staðreynd að hlýnun Norðurslóða er tvöfalt hraðari en annars staðar vekur ugg í brjósti. Hlustum á ungt fólk sem skrópar í skóla til að láta raddir sínar heyrast viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Börnin krefjast aðgerða. Höfum í huga að auðugar þjóðar hafa mengað mest. Eitt hundrað fyrirtæki eru sögð uppspretta 70% gróðurhúsa mengunar frá síðla 1980s og 20 olíufélög eru tengd þriðjungi CO₂,“ sagði Katrín.
Hún gerði að umtalsefni frumkvæði forsætisráðherra Norðurlanda með Angelu Merkel kanslara Þýskalands í Reykjavík. Íslensk stjórnvöld hefðu mótað loftslagsstefnu til 2040 og ný loftslagsvæn samgönguáætlun hefði verið lögð fram fyrir höfuðborgarsvæðið.
Snortinn af Grétu Thunberg
Antti Rinni kvað heimskautin ofarlega á lista finnskra stjórnvalda. Evrópa legði áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og rannsóknir á heimskautasvæðunum. „Ég hygg að enginn hér inni hafi ekki verið snortinn af ummælum Grétu Thunberg í New York. Ég var. Hún horfði í myndavélar og sagði að við hefðu stolið draumum hennar, bernsku hennar og svikið ungt fólk. Hvernig dirfist þið? spurði hún. Ég drifist ekki. Hvað um ykkur?“ spurði ráðherrann.
Berum ábyrgð á eigin framtíð mitt milli stórvelda
Framlag Kim Nielsen sem mælti á grænlensku vakti mikla athygli. Forsætisráðherrann benti á að Grænland væri um 2 milljónir ferkílómetra; 20 sinnum stærra en Ísland; 52 sinnum stærra en Danmörk og koma mætti Færeyjum fyrir í grænlenskum firði en fimm sinnum minna en Kanada; bæir og þorp væru 74, strandlengjan 44 þúsund ferkílómetrar og Grænland nyti fjárhagstuðnings frá Danmörku.
„Við berum ábyrgð á eigin framtíð en erum mitt milli tveggja stórvelda. Hugmynd um kaup á Grænlandi var sett fram. Grænland er ekki til sölu en við erum opnir fyrir viðskiptum,“ sagði Nielsen og benti á lagningu þriggja flugvalla; í höfuðbænum Nuuk og Norður- og Suður-Grænlandi auk og hafskipahafnar í Nuuk væru liður í umfangsmikilli grænlenskri uppbyggingu. Fyrir öld hafi pósti verið dreift með kajak háð veðurfari en nú um internetið með hraða ljóssins. Þróun væri hröð, sjö nýir stórir togarar hefðu verið smíðaðir á síðastliðnum tveimur árum. Vissulega væru ekki allar samfélagslegar breytingar jákvæðar en unnið væri að úrbótum. Loftlagsbreytingar hafi áhrif á lífríkið sem breytist stöðugt og stöðugt erfiðara sé að spá fyrir um hegðun villtra dýrastofna og ísi lagðir firðir sjálfgefnir. Plast finnist í fiski, hval, spendýrum, fuglum og skæðar plastagnir dreifa sér ört í dýraríkinu. „Verndun náttúrunnar er á ábyrgð okkar fyrir afkomendur okkar,“ sagði Kim Nielsen.
Á Norðurslóðum með krónprinsum
Victoría krónprinsessa Svíþjóðar sagði þingheimi frá siglingu með Friðriki krónprins Danmerkur og Hákoni krónprins Noregs um borð í ísbrjótnum Óðni árið 2008 um öld eftir að forfaðir hennar Oscar konungur hafði beitt sér fyrir vísindaleiðangrum til Norðurslóða þar á meðal Friðþjófi Nansen á skipi sínu Fram. „Við erum ekki bara erfingjar ríkja heldur líka náskyld,“ sagði Victoría. Þau hafi eytt 4 dögum á Svalbarða og rætt við vísindamenn um válega þróun á Norðurslóðum. Þau hafi séð afleiðingar skógarelda í Síberíu á Svalbarða í yfir 2000 kílómetra fjarlægð; hækkun hitastigs og mengun.
Ári síðar hafi þau farið með varðskipinu Ejnar Mikkelsen til að stúdera loftlagsbreytingar á Grænlandi og áhrif á líf fólksins. „Ég hygg að við þrjú séum nokkuð vel upplýst og hafi orðið fyrir sterkum hughrifum um áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki og líf fólksins á Grænlandi og hvernig bráðnun jökla hefur áhrif um allan heim sem krefst samstillt átaks heimsbyggðarinnar,“ sagði Victoría krónprinsessa.
Hvatti til ábyrgrar nýsköpunar á Norðurslóðum
Rick Perry orkuráðaherra Bandaríkjanna hóf ræðu sína á því að óska Íslendingum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldsins og þakkaði móttökur sem Mike Pence varaforseti og Mike Pompeo utanríkisráðherra hefðu fengið. Hann hefði heimsótt HS Orku og Bandaríkjamenn gætu mikið af Íslendingum lært um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Perry kvað gnægð tækifæra á heimsskautsslóðum í efnahagslegu tilliti með þriðjung orkugjafa í iðrum jarðar. Perry vakti athygli á hinu ægifagra N-Alaska og kvaðst hafa farið með Lísu Murkowski öldingadeildarþingmanni um norðurhlíðina sem hann kallaði svo[Alaska‘s northern slope]. Í Alaska færu nú fram fordæmalausar loftslagsrannsóknir að umfangi og áskorunin væri að vinna ódýra orku í sátt við umhverfi.
Hann minnti á að Bandaríkin væru nú útflytjandi orku og nytu hagvaxtar á sama tíma og útblástur CO₂ minnkaði stórfellt. „Við erum leiðandi á heimsvísu að draga úr mengun og að baki er þessum árangri er nýsköpun,“ sagði Perry og lagði áherslu á nýsköpun og upplýsingatækni. Hann skýrði frá því að á næsta ári [2020] verði haldin hér á landi Supertölvuráðstefna Heimskautaslóða þar sem birtist næsta tölvubylting.
Samvinna frjálsra þjóða á Heimskautasvæðum
Perry lagði áherslu á samstarf frjálsra þjóða á Norðurslóðum en bað menn að gæta vara við þjóðum undir helsi sem stefndu á Heimsskautasvæðin. Ráðherrann var augljóslega beina spjótum að Kína. Hann hvatti frjálsar þjóðir til að sameinast um að leysa úr læðingi fordæmalausar framfarir heimsskautssvæða. Bandaríkin væru reiðubúin að miðla reynslu sinni og þekkingu í þágu mannkyns.