FRÁ BÍLDUDAL TIL GRÆNLANDS

Hjörtur Smárason er nýr ferðamálastjóri Grænlands þar sem allt er stórbrotið. Hlekkir fortíðar bresta einn af öðrum og þjóðin hefur tekið stefnuna á sjálfstæði

Grænland er næsti nágranni Íslands handan hafs frá Vestfjörðum, á grænlensku er það Kalaallit Nunaat, móðurmálið er Kalaallisut. Stærsta eyja jarðar tæplega 2,1 milljónir ferkílómetra; stærra en Stóra-Bretland, Ítalía, Spánn og Frakkland samanlagt. Af því 81% undir jökli og 19% land, um 400 þúsund ferkílómetrar. Landfræðilega tilheyrir Grænland Norður-Ameríku en stjórnarfarslega Evrópu undir Dönum en stefnir á sjálfstæði; fékk heimastjórn 1979, sjálfstjórn 2008. Nuuk er höfuðstaður. Grænland sagði sig úr Evrópusambandinu 1983 sem þá skrapp saman um 53%. Grænlendingar eru um 56 þúsund, 20% Danir. Líklegt er að sama gerist á Grænlandi og gerðist þegar Ísland sótti fram til sjálfstæðis fyrir hundrað árum og Danir urðu Íslendingar uppfullir ættjarðarástar. Þegar líði á öldina tali menn ekki um 20% Dani heldur 100% Grænlendinga. Því er hér spáð.

Þorri þjóðarinnar býr á suð-vestur Grænlandi þar sem veður er mildast. Fjarlægð frá nyrsta odda Kapp Morris Jesup að Hvarfi syðsta oddanum eru 2.650 km og strandlínan tæpir 40 þúsund km, nánast sama vegalengd og ummál jarðar við miðbaug. Grænland er að sönnu stórbrotið.

Stefnt á fjölgun ferðamanna, mikla fjölgun

Eftir aldalanga einangrun undir danskri stjórn eru Grænlendingar að opna sig fyrir umheiminum og segja „Greenland is open for business.“ Fyrir covid sóttu árlega um eitt hundrað þúsund ferðamenn Grænlendinga heim og þeir stefna á fjölgun, mikla fjölgun undir kjörorðunum Heimsækið Grænland. Ferðamálastjóri Grænlands er Íslendingurinn Hjörtur Smárason.

Hjörtur er Bílddælingur, fæddur 1975 en býr nú í Nuuk ásamt eiginkonu Ingu Rós Antóníusdóttur og tveimur yngstu börnum. Vinabær Bíldudals er Kulusuk á austurströndinni og fjórtán ára fór strákur yfir hafið til Kulusuk í nemendaskiptum vinabæjanna. Þá féll Hjörtur fyrir landi og þjóð og nú er hann á Grænlandi í þágu lands og þjóðar. Þar sem er styst milli landanna eru innan við 300 kílómetrar milli Scoresbysunds og Vestfjarða og Grænland var greipt í vitund drengsins. Hjörtur kom til starfa í apríl síðastliðnum þegar landið var lokað vegna covid og hann þurfi undanþágu til þess að komast inn í landið. Grænland var opnað 1. október síðastliðnum þegar ferðatímabilið var búið. Hann segir hins vegar að 2022 líti vel út. „Grænland er land tækifæra, straumar hagstæðir því ferðamenn í vaxandi mæli leita í náttúruna. Við erum vongóð að 2022 höfum við náð sama fjölda og fyrir covid 2019 þegar eitt hundrað þúsund manns komu,“ segir Hjörtur.

Það þurfi að byggja upp innviði og erfitt að komast milli staða. Íslendingar séu vanir að aka hringinn en lengsti vegarspotti á Grænlandi er níu kílómetrar. Norðan Nuuk sé hundasleðinn þeirra bíll og svo er siglt og flogið milli staða. Raunar eru hundasleðar líka þeirra fiskibátar og hundruð hundasleða skráðir sem fiskibátar þar sem farið er útá ísinn og stórlúða veidd í gegn um vakir.

Það er verið að stækka og leggja tvo flugvelli þar sem Ístak er að verki, ásamt því að hafa byggt upp hafskipahöfn í höfuðstaðnum Nuuk sem forðum hét „Góðvon“ upp á íslensku með 18 þúsund íbúa. „Ísfjallið“ Ilutissiat er með um 5.000 íbúa 200 kílómetrum fyrir norðan heimsskautsbaug þar sem skriðjökullinn ryðst fram 40 metra á dag og brotnar svo „ísfjöll“ falla í sjó í stórbrotnu sjónarspili. Þar hefur Best Western byggt hótel og er að stækka.

Photo by Rebecca Gustafsson – Visit Greenland
Uppbygging innviða í forgangi

„Við leggjum áherslu á að byggja upp innviði áður en ferðamennirnir koma og uppræta helstu flöskuhálsa,“ segir Hjörtur. Mikil breyting hafi orðið eftir að Icelandair tók yfir gamla Flugfélag Íslands og Flugfélag Norðurlands. Icelandair heldur úti flugi milli Íslands og Grænlands um Keflavík. Nú er hægt að bóka flug frá Köben, London og New York til Nuuk með millilendingu í Keflavík. Ekki þurfi lengur að fara um Reykjavíkurflugvöll. Þetta sé afar dýrmætt og dæmi um þá opnun sem eigi sér stað. Þá haldi Norlandair úti flugi til austurstrandarinnar á Twin Otter-vélum en félagið var líka stofnað útúr gamla Flugfélagi Norðurlands. Eimskip sigli á Nuuk. Þannig hafa hlekkir einangrunar fyrri tíma brostið einn af öðrum og samskipti Íslands og Grænlands stöðugt nánari.

Photo by Mads Pihl – Visit Greenland
Brattahlíð Eiríks rauða

Auðvitað er ekki hægt að skrifa um Grænland án þess að geta Bröttuhlíðar Eiríks rauða Þorvaldssonar í Eystribyggð s yðst á Grænlandi. Samk væmt Grænlendingabók og Landnámu var Brattahlíð reist um 985 en Eiríkur lést um 1008 nokkru eftir að sonur hans Leifur heppni sigldi til Ameríku. Handan Eiríksfjarðar er Narsarsuaq-flugvöllur norðaustur af þorpinu Narsaq. Þar reis fyrsta kirkja Vesturheims á Þjóðhildarstöðum; kirkjan í Hvalsey stendur enn. Haustið 1408 voru gefin saman í heilagt hjónaband Þorsteinn Ólafsson og Sigríður Björnsdóttir. Þau höfðu lent í vegvillum frá Noregi þar sem Plágan geisaði. Hjónin settust að á Ökrum í Blönduhlíð í Skagafirði þaðan sem Þorsteinn var ættaður. Innan við hálfri öld síðar var öll byggð og fólk horfið sem er ein af ráðgátum sögunnar. „Þegar elsti sonur minn fermdist 2009 þá fórum við feðgar ógleymanlega vikuferð til Bröttuhlíðar þar sem við gengum um söguslóðir,“ sagði Bílddælingurinn Hjörtur Smárason sem ungur tók ástfóstri við nágrannann í vestri, Grænland og þjónar nú sem ferðamálastjóri

Eftir Hall Hallsson