Þegar bandaríski herinn fór af landi brott árið 2006 vöknuðu upp margar spurningar um afdrif gamla varnarsvæðisins svokallaða. Sumir hverjir töldu réttast að jafna byggingarnar við jörðu og aðrir höfðu uppi efasemdir um að nokkurn tíman væri hægt að koma svæðinu í not. Nú aðeins örfáum árum síðar blasir við gerbreytt götumynd á svæðinu sem nú hefur fengið nafnið Ásbrú. Á svæðinu búa nú um 2000 manns, þar þrífast fjölmörg spennandi fyrirtæki og háskóli með fjölda námsbrauta.
Þróun Ásbrúar er þó hvergi nærri lokið og er þar nú fjöldi spennandi verkefna í farvatninu. Ber þar hæst að nefna sjúkrahús, kvikmyndaver, gagnaver og margt fleira. Þar fyrir utan þrífst þar fjöldi frumkvöðla og segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco – Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að þar sé líklega stærsta sprotafyrirtækjaverkefni landsins. Kjartan segist sjálfur kunna einstaklega vel við sig í Ásbrú, enda bjóði svæðið upp á nánast óþrjótandi tækifæri.
Hröð handtök
Upphaf Kadeco má rekja til þess að íslenska- og bandaríska ríkið gerðu skilasamning sín á milli um að íslenska ríkið yfirtæki allar eignir varnarliðsins og allar þær skuldbindingar sem þeimfylgdu. Í kjölfarið var félagið Kadeco stofnað sem hafði það markmið og tilgang að leiða þróun og umbreytingu á svæðinu til borgararlegranota. Í því fólst meðal annars nauðsynleg undirbúningsvinna, til dæmis úttekt á svæði og mannvirkjum ásamt þróunar- og vaxtarmöguleikum í samráði við hagsmunaaðila. Félagið var í upphafi í eigu forsætisráðuneytisins, en vann verkefnið í gegn um þjónustusamning sem gerður var við fjármálaráðuneytið. Eignarhald Kadeco var svo fært yfir á fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Kjartan segir að frá upphafi hafi ætlunin verið að félagið hefði skýrt lagalega skilgreint hlutverk og að sama skapi skilgreindar heimildir til ákvarðunatöku „Það má eiginlega segja að eignirnar hafi verið settar í okkar umsjá og okkur sagt að finna bestu lausnina. Stjórnin fékk miklar heimildir til að taka ákvarðanir um þá hluti sem félaginu var falin umsýsla á og hefur það gert það að verkum að við höfum náð að vinna verkefnið mun hraðar en ella,“ segir Kjartan. Aðkoma einkaaðila í uppbyggingu af þessu tagi hefur gefið góða raun erlendis og segir Kjartan að Kadeco hafi litið til þess. „Það virðist hafa skilað betri og skjótari árangri að fá einkaaðila til að taka þátt í svona uppbyggingu, frekar en að fá eingöngu opinberar stofnanir – það hefur sýnt sig að bland þessara tveggja hefur skilað bestum árangri,“ segir Kjartan.
Samkeppnisyfirburðir svæðisins kynntir erlendum fjárfestum
Svæðinu var í upphafi skipt í þrjá hluta: Keflavíkurflugvöll, svæði sem áfram var nýtt sem varnarsvæði og það sem eftir er af varnarsvæðinu sem herinn hafði undir sín not – hin eiginlega herstöð meðal annars. „Fyrsti áfanginn var svo að taka þetta yfirgefna þorp og koma í not, en þar voru ef til vill mestu verðmætin sem nýta mátti varðandi þróun og rekstur. Strax í upphafi fórum við að skoða hvernig hægt væri að byggja hér upp og laða að erlenda fjárfesta- hvernig hægt væri að sannfæra þá um samkeppnisyfirburði þessa svæðis. Úfrá því voru skilgreindir tíu megin klasar af starfsemi sem við töldum vænlegt að byggja upp hér á svæðinu. Af þessum tíu höfum við svo valið tvo til að byrja á – orku og heilsu.
Markmið okkar er að byggja hér upp heilsuklasa sem mun svo blanda saman ákveðnum kjarnaþáttum og þeirri stoðþjónustu sem þarf til að klasinn geti vaxið. Þar erum við að tala um heilsutengdan ferðaiðnað – innflutning á fólki í meðferðir og tengda þjónustu. Hvað orkuklasann varðar þá erum við að horfa á aðila sem eruí rannsóknum á orku, nýtingu, þróun og fleira. Þetta er eitthvað sem liggur auðvitað beint við þar sem ekki er langt að sækja orkuna hér á Reykjanesinu og hér er þegar mikil þekking á staðnum.
Þekkingin grundvöllur þróunnar
„Grunnurinn að þessum tveimur klösum er svo þekkingar- og vísindasamfélag. Það sér maður í allri klasaþróun heimsins,
hvort sem það er kísildalurinn í Kaliforníu eða smærri einingar – þekkingar- og vísindasamfélag er grundvöllurinn að allri þróun. Sú er einmitt ástæðan fyrir því að fyrsta verkefnið sem við fórum af stað með er Keilir. Öll markmið Keilis varðandi uppbyggingu eru beintengd okkar verkefnum. Þarna erum við að tengja atvinnuumhverfið við hið akademíska sem myndar ákveðinn grundvöll fyrir fyrirtæki að koma hingað inn. Þar fyrir utan höfum við verið að reyna að draga inn ákveðin kjarnaverkefni til að koma lífi á svæðið. Dæmi um það eru tildæmis gagnaverið og kvikmyndaverið. Í raun má segja að við séum hér með stærstu sprotaverkefni landsins,“ segir Kjartan.
Í beinu framhaldi af þessum megináherslum er rekið frumkvöðlasetrið Eldey í Ásbrú. Eldey hefur þá sérstöðu á meðal frumkvöðlasetra á Íslandi að sérhæfa sig í sjálfbærum og grænum orkulausnum. Að Eldey standa Keilir, Kadeco, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóli Íslands. Kjartan segir að í kjölfarið verði farið af stað með nýtt frumkvöðlasetur í tengslum við heilsuklasann þegar hann verður kominn lengra. „Þar eru fjölmargir þættir að þróast svo sem meðferðarmiðstöð,afeitrunarstöð, 300 nemenda ballettskóli, lífræn smyrsl og svo erum við að ræða við nokkra aðila um heilsueldhús,“ segir Kjartan.
Atvinnutækifæri sköpuð
Einn grundvallaþátta í nálgun Kadeco varðandi skipulagsmál svæðisins segir Kjartan vera að það þjóni markmiðum samfélagsins sem er verið að byggja upp. „Skipulagsmál á Íslandi hafa ef til vill verið á ákveðnum villigötum en það hefur þó verið að breytast á undanförnum árum. Oft var litið á skipulagsmál sem tæknilegar útfærslur, en ekki endilega horft til samfélagsþátta. Við horfðum hins vegar á hverskonar samfélag við vildum byggja upp, hvaða atvinnustarfsemi við vildum laða að og hvaða íbúa við vildum fá – alla þá þætti sem mynda samfélag. Þannig viljum við laða að fólk sem stundar sitt nám hér, hvort sem það er í skóla hér, í Reykjavík eða erlendis, og það fólk viljum við síðan tengja við atvinnulíf Ásbrúar í framtíðinni. Þó á ég ekki von á því að allir nemendur sem nú búa hér muni taka þátt í uppbyggingu svæðisins, en ef við náum að skapa atvinnutækifæri fyrir eitthvað af þessu fólki náum við að leggja alveg nýjan grundvöll fyrir þróun svæðisins,“ segir Kjartan.
Sjálfbært frá upphafi
Þegar Bandaríkjastjórn ákvað að draga herlið sitt til baka fóru að heyrast áhyggjuraddir í samfélaginu um hvað „gamla herstöðin“ sem þeir skildu eftir myndi kosta þjóðina. Þess vegnasegir Kjartan að eitt af lykilhugtökunum sem lagt var upp með frá byrjun hafi verið sjálfbærni og á það bæði við um fjárhagsog umhverfissjónarmið. „Okkar fyrsta verkefni var að gera samning við fjármálaráðuneytið um breytingu svæðisins sem tók mið af því að tryggja sjálfbærni verkefnisins frá byrjun. Strax í upphafi fórum við út í það að selja eignir til að tryggja tekjur til að standa undir verkefninu.Á síðasta ári höfðu skilað sér um tveir milljarðar í nettó hagnað til ríkisins og það er aðeins út frá þeim greiðslum sem hafa skilað sér, því við höfum gert kaupsamninga til nokkura ára. Á sama tíma erum við búin að standa í afar kostnaðarsamri þróunarvinnu, hvað varðar skipulag og stefnumótun, og rekstur svæðisins, en það kostaði um milljarð á ári bara að reka svæðið tómt. En samt sem áður skiluðum við hagnaði til ríkisins. Okkar markmið er að ríkið innleysi að minnsta kosti um tíu milljarða úr verkefninu þegar búið er að klára að koma mannvirkjum svæðisins í not. Við lítum þó svo á að stærstu tekjumöguleikar ríkisins lúti ekki að eignunum heldur fyrst og fremst að þeim tækifærum og atvinnustarfssemi sem verið er að draga inn, því framtíðar skatttekjur, orkusala og fleira því tengt er miklu stærri þáttur en sala á fasteignum.Þar fyrir utan viljum við minna á að með þessari þekkingaruppbyggingu og þessu þróunarstarfi erum við að leggja grundvöll fyrir framtíðarvöxt sem kemur til með að skila ríkinu ýmsum ávinningi í formi þekkingar, fjármagns og fleira.
Kaninn enginn sóði
Eitt af þeim verkefnum sem Kadeco var sett var að athuga umhverfismál svæðisins. „Við fórum rakleiðis í að athuga hvort einhver mengun væri á svæðinu. Í það var lögð mikil vinna, allt svæðið var rannsakað og kortlagt hvað þyrfti að gera. Í ljós hefur komið að þetta er mun minna mál en við ætluðum í upphafi. Flugvöllum fylgir auðvitað alltaf einhver mengun, en hvað varnarliðið varðar voru þeir ekkert meiri sóðar en hinn almenni Íslendingur, nema síður sé. Sú mengun sem fannst er þar að auki á afmörkuðum stöðum svæðisins – í kring um sorphauga og iðnaðarstarfssemi, rétt eins og annars staðar á landinu. Góðu fréttirnar eru að það er nú búið að kortleggja þetta allt saman og leita úrræða þar sem við á,” segir Kjartan.
Brú út í alþjóðasamfélagið
Kjartan segir að ekki hafi verið horft sérstaklega til þess að svæðið hafi áður hýst herstöð, mun frekar hafi gaumur verið gefinn að þróun þéttbýliskjarna í kring um flugvelli í hinum stóra heimi. Í því samhengi hafi verið tekin ákvörðun um að finna svæðinu nýtt nafn í stað þess að það væri kallað „herstöðin“ eða „gamla varnarsvæðið“ í sífellu. „Við fórum í mjög ítarlega nafnavinnu og varð Ásbrú fyrir valinu úr yfir 200 möguleikum. Mér hefur sýnst það hafa hlotið góðan hljómgrunn hjá þjóðinni og hafa fest sig í sessi,“ segir Kjartan. Eins og segir til um í Snorra- Eddu er Ásbrú brú sem æsir ferðuðust um á milli Ásgarðs og Miðgarðs. Kjartan segir þó að ekki sé litið svo á að einhverjar guðlegar veru séu á ferðalagi á Reykjanesskaganum, heldur sé nafnið mun fremur táknrænt fyrir tengingu tveggja heima. „Þó margir vilji ef til vill halda öðru fram þá eru ekkert endilega allir fjárfestar heimsins tilbúnir til að koma hingað með fjármagn einfaldlega vegna þess að okkur þykir það sjálfsagt. Segja mætti að Ásbrú sé brú þeirra hingað inn,“ segir Kjartan.
Kjartan segir að fjölmörg vannýtt tækifæri liggi í nálægð við Keflavíkurflugvöll og að hann sé mikilvægur þáttur í uppbyggingu svæðisins. „Það horfir enginn framhjá því að hér er gríðarstór flugvöllur sem hefur marga kosti í för með sér. Völlurinn er í raun mun stærri og meiri en gengur og gerist í samfélögum af okkar stærðargráðu og setur svæðið okkar í hóp með jafnvel mun stærri samfélögum en mannfjöldinn segir til um. Þess vegna lítum við á samgöngumál sem þriðju stoðina til viðbótar við heilsu og orkuklasana. Við höfum séð erlendis að mesti vöxturinn hvað varðar atvinnuuppbyggingu á sér oft og tíðum stað í nálægð við flugvelli. Sú atvinnuuppbygging einskorðast þó síður en svo við flugtæknistarfsemi heldur miklu frekar þekkingarstarfsemi. Sem dæmi má taka flugvöllin í Schiphol í Hollandi, en þar hefur átt sér stað mikil uppbygging og þar valdi Microsoft sér stað fyrir skrifstofur sínar, þar að auki er þar fjöldi hönnunarfyrirtækja, ráðgjafafyrirtækja og fleira. Þessi fyrirtæki velja sér þennan stað vegna nálægðarinnar við flugvöllinn og geta þannig verið sveigjanlegri hvað þekkingu varðar. Það liggur í augum uppi að það er ákaflega ákjósanlegur kostur að vera í seilingarfjarlægð við flugvöllinn fyrir fyrirtæki sem ýmist senda fólk á eða taka á móti fólki á ráðstefnur út um allan heim. Hér eru því mörg vannýtt tækifæri og er þetta eitt af stóru atriðunumþegar við erum að kynna Ásbrú fyrir erlendum aðilum,“ segir Kjartan.
Aukið samstarf við sveitafélög og ríkið
Samstarf við sveitarfélögin í kring hefur gengið afar vel að sögn Kjartans en nýverið tókst samstarf á milli sveitarfélagsins Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar um uppbyggingu á norðurhluta vallarsvæðisins sem kallast Ásbrú Norður.Við undirritun samningsins kom fram að samningsaðilar gera sér vonir um að á þessu svæði verði ekki aðeins samgöngumiðstöð fyrir vörur og farþega, heldur einnig miðstöð virðisaukandi framleiðslu og þjónustu þar sem aðföng og afurðir komi frá öðrum löndum eða verði fluttar úr landi. Kjartan segir að með auknu samstarfi við bæði ríkið og sveitarfélögin í kring megi nýtaflugvöllinn til uppbyggingar í mun meira mæli. „Í framtíðinni horfum við fram á uppbyggingu á svæðinu allt í kring um flugvöllinn og er hugsunin sú að hagsmunaaðilar vinni saman að þeirri þróun. Þá er fátt eins fráhrindandi fyrir aðila sem vinnað að uppbyggingu eins og þegar fjórir mismunandi aðilar sitja hinum megin við samningsborðið og eru allir að selja sömu vöruna. Þetta er gríðarlega flott verkefni út frá skipulagssjónarmiðum og getur komið til með að skila sveitarfélögunum í kring mjög miklu. Það eru hagsmunir allra þessa aðila að ná inn starfsemi á svæðið, en ekki að vera að bítast um innbirgðis hvar hún lendir. Þeir vinni sameiginlega að stefnumörkun um nýtingu landssvæðisins og greini þau tækifæri sem hentugt er að laða að og skipuleggja svæðið með tilliti til hvernig sé best að raða niður starfseminni á mismunandi staði eftir hvað hentar hverju sinni. Gæði skipulagsins yrðu þannig hámörkuð -léttur iðnaður yrði á einum stað og grófari iðnaður annars staðar,“ segir Kjartan.
Kreppan bítur ekki
Kjartan segir að þó áhrif kreppunnar láti vissulega á sér kræla í Ásbrú hafi hún ekki veruleg áhrif á framvindu verkefnisins. „Vegna þess að við fórum svolítið óhefðbundna leið í stefnumótuninni gátum við brugðist við kreppunni betur en ella. Snemma árs 2008 sáum við að fjármálamarkaðir voru farnir að lokast og fórum við því strax að skoða með hvaða hætti við gætum sveigt okkar stefnu til að aðlagast breyttum aðstæðum. Því fórum við út í það að gera leigusamninga með það fyrir augum að fyrirtækin gætu keypt húsnæðið með tíð og tíma. Fjármögnunin tekur þó lengritíma í þessu árferði og verkefnin lengur að komast af stað, en að öðru leyti er hugmyndafræðin sem við lögðum upp með óbreytt og við horfum bjartsýn fram á veginn,“ segir Kjartan.