PERLAN – HUGMYND AÐ EINSTÆÐRI HEILSULIND

 
 

PERLAN – HUGMYND AÐ EINSTÆÐRI HEILSULIND

Heit laug, með kerfi heitra potta, er byggð ofan á núverandi vatnstanka.  Utan á tankana eru byggðar þriggja hæða herbergisálmur. Útkoman verður einstæð heilsulind sem stendur upp af Öskjuhlíðinni eins og kastali.  Úr lauginni, sem hringar glerhvelfinguna verður útsýni yfir alla Reykjavík, landið og miðin.  Útsýnispallur er lagður yfir þak nýbyggingarinnar, hringinn í kringum gömlu tankana. Í byggingunni verða veitingastaðir, þar sem áherslan verður lögð á heilsusamlegt fæði, jógasalir, spa og nudd og annað sem prýða má bestu heilsulindir. 

  „Einu sinni þegar einn smiður ætlaði að biðja guð afsökunar á, að hann hefði haft áhrif á verk mannanna, þá varð náttúran fyrri til og var búin að gefa honum margar merkilegar hugmyndir, áður en hann var búinn að bera fram afsökunina.  Merkilegasta hugmyndin var að byggja höll og musteri inn á Öskjuhlíð.  Átti að þekja musterishliðarnar spegilhellum, svo norðurljósin gætu nálgast fætur mannanna – átti að skreyta þakið kristöllum allavega litum, og ljóskastari átti að vera efst á mæninum, sem lýsti út um alla geima.  Húsið sjálft átti að svara birtu dagsins og táknum næturinnar.  Hjelt smiðurinn, að þetta myndi auka á skraut jarðarinnar og birtu himnanna,…“

( Úr bókinni Grjót, eftir Jóhannes Kjarval)