Qiviut er nafn á grænlensku fyrirtæki og verslunum í bæjunum Sisimiut og Nuuk auk þess sem „qiviut“ er grænlenska orðið yfir þelið á sauðnautum. „Framleiðsla okkar er það sem gerir Qiviut sérsakt,“ segir Mia Chemnitz, dóttir eiganda fyrirtækisins. „Við framleiðum tvær línur og gerum allt sjálf. Önnur línan er framleidd úr sauðnautaull og hin úr selskinni. Grænlenskar konur sjá um framleiðsluna og er lögð áhersla á gæði bæði hvað varðar framleiðsluna sem og hráefni.“
Sauðnautaull er talin vera einn af hlýjustu og bestu lúxusþráðum í heimi en ullargarnið er verðmætt sem söluvara. „Gæðin eru ótrúleg. Ullin er átta sinnum léttariheldur en lambaull þannig að um er að ræða einn af hlýjustu, náttúrulegu þráðunum í heiminum og hún er líka fislétt.“
Hjá Qiviut eru m.a. hannaðir og framleiddir fylgihlutir úr sauðnautaull eins og húfur, vettlingar og treflar auk þess sem hannaðir og framleiddir eru einstæðir hlutir eins og poncho með handgerðum litum. „Hver einasti hlutur í línunni er einstakur.“
Að gera selskinn nútímalegt
Þegar kemur að selskinninu segir Mia að lögð sé áhersla á að gera selskinn vinsælt á ný og leggur áherslu á unga fólkið í því sambandi. Framleiddar eru tvær línur úr selskinni hjá Qiviut.
„Það er annars vegar lína sem í er að finna m.a. inniskó úr selskinni, ennisbönd og mikið úrval af vettlingum. Við erum líka með nútímalegar töskur og vinnum mikið í því að blanda saman gæðaleðri og selskinni í hönnun okkar.
Svo er það hins vegar lína sem tengist því að ungt fólk fari að meta selskinn betur og leggjum við áherslu á nútímalega hönnun. Hönnunin er nútímaleg en þar má þó finna áhrif af hefðbundnum, grænlenskum flíkum. Í því sambandi má nefna jakka, vesti og anorakka.“
Vefverslun
Qiviut rekur vefverslun, https://qiviutonline.com/en/ „Ég held við höfum sent vörur til næstum því 40 landa og við sendum næstum því á hverjum degi til Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Þýskalands.“ Hvað með framtíðarmarkmið? „Markmið okkar er að vera fremst í framleiðslu á vörurm úr sauðnautaull. Við viljum að framleiðslan fari fram á Grænlandi og það er mikilvægt fyrir okkur að ullin sé í hæstu mögulegum gæðum og að framleiðsla okkar
sé eins vönduð og hægt er. Við erum með fasta viðskiptavini sem versla hjá okkur ár eftir ár vegna þess að þeir vita að við bjóðum upp á góða vöru.”