Rekaviðurinn 

Í gegnum aldirnar hefur rekaviður verið talin til mikilla hlunninda. Kirkjujarðir og stórbýli víða um land áttu ítök í rekanum um aldir og sóttu höfðingjar reka langt að til byggingar bæði húsa og skipa. Mest af rekaviðnum sem hingað berst kemur frá Síberíu, og tekur það drumbana 4 til 5 ár, en hann berst 500 til 1.000 km á ári með norðaustlægum hafstraumum í kringum pólinn áður en þeir koma til Íslands. Í volkinu í sjónum verður hann gegnsýrður af salti sjávar og fær rekinn þannig náttúrulega vörn gegn fúa. Mestur reki rekur á land norður á Langanesi, Melrakkasléttu, norður og vestur á Ströndum og Hornströndum, og á suðurströndinni milli Þjórsár og Jökulsár á Sólheimasandi. Samkvæmt nýrri alþjóðlegri rannsókn, þar sem vísindamenn frá Bretlandi, Sviss, Rússlandi, Tékkíu og Ólafur Eggertsson frá Skógræktinni komu að, segir að rekaviður mun ekki reka á íslenskar fjörur árið 2060, vegna betri nýtingar í Rússlandi og minnkandi hafíss. En til þess að komast alla þessa leið, þarf að vera til staðar hafís, sem endist lengur en eitt ár til þess að bera viðinn áfram til Íslands. Eftir því sem hafísinn minnkar, aukast líkurnar á því að hann sökkvi. Samkvæmt nýlegum rannsóknum kemur rekaviðurinn mest frá hinu 5.075 km / 3.153 mi langa Yenesei fljóti sem er í miðri Síberíu.

Skoruvík, á Langanesi

Fjaran við Vatnsleysu á Langanesi

Rekaviðarstafli Ingólfsfirði norður í Árneshreppi á Ströndum

 

Lömb leita skjóls við rekavið, við Heiðarhöfn á Langanesi

Langanes / Strandir  12 & 18/05/2021 : A7R IV, A7R III, RX1R II : FE 1.2/50mm GM FE 1.8/20mm G FE 1.8/135mm GM 2.0/35mm Z

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson